Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013
Mín heitasta ósk í morgun
19.2.2013 | 14:31
var að heyra í hrossagauk.
Hvað skyldi það vera á morgun?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að vera að fara að
18.2.2013 | 07:15
Það er mikill kostur hjá fólki þegar það kemur sér að verki. Hver man ekki eftir því að baka upp á hjá vinum sínum 6 ára vilja fara út að leika sér og sumir vinanna tóku óratíma bara að koma sér í fötin og út - á meðan aðrir voru komnir út á fótboltavöll 3 mínútum seinna.
Ég þoli ekki þegar fólk er "að fara". Þetta hangs í kringum allt.
Farið eða komið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
þetta grunaði mig
17.2.2013 | 13:00
Það er morgunljóst að ég er ekki aðalbloggarinn hér á Mbl þrátt fyrir góðan vilja. Enginn hefur svarað spurningunni minni!
Ályktun mín er sú sem ég var fyrirfram búin að gefa mér: Það var aldrei ríkisstjórn sem (v)(Þ)-ið vorum ánægð með. Þjóðin vælir og skælir endalaust, það er alveg sama hvaða stjórn við erum með, enda er ekkert að marka flokkana, fólk skuldbindur sig ekki meira en því þóknast og flakkar á milli eftir behag.
Viljið þið virkilega fá aftur Finn, sem syndir með litlu Ripp Rapp og Rupp í tanknum sínum sem VIÐ sjálf kusum að fylla af peningum hér um árið? Er einhver sem réttir up hönd? Haldið þið að "hin" ríkisstjórnin myndi hafa tekið betur á þessum peningamokstri einstaklinga sem voru í pólítík og eignarhaldi um leið?
Nú hlakkar í mörgum yfir því að Steingrímur sé að hætta í sínu forystuhlutverki en ég skal segja ykkur það að það var ekki Steingrímur sem setti Ísland á þann stað sem það er í dag. Og sama hvað fólki finnst um hægagang, þá er verið að taka á málum og smám saman koma landinu í rétt horf.
Heldur fólk virkilega að hlutirnir breytist með nýrri stjórn? Það eina sem mun gerast er að öllu verður umvent á ný, ráðuneytin endurræst með nýjum nöfnum og tilheyrandi sameinginum, allt sem gert er í dag verður gert hinsegin á morgun. Næstu 4 árin. Svo byrjar rúllan upp á nýtt.
Er einhver hér sem heldur að hlutirnir hefðu verið betri með annarri ríkisstjórn? Af hverju þá og ég spyr aftur, hverjir hefðu þá setið í þeirri ríkisstjórn og hvað hefðu þeir/þær staðið fyrir? Enn er hæt að svara i skoðanakönnuninni minni.
AÐ sjálfsögðu er ég ekki sammála öllu sem er verið að gera í ríkismálunum og ég hef mikla samúð með því fólki á Íslandi sem á um sárt að binda. En ég er alveg óssamála því að þessi ríkisstjórn sé að búa til meira tjón en við sjálf bjuggum til með því að haga okkur eins og við gerðum og m.a. með því að kjósa þá ríkisstjórn sem var á undan. En ég fæ ekki séð annað en fólk sé að biðja um það á ný.
Ég er reyndar hvorki með né á móti. Ég styð engan sérstakan flokk því mér sýnist þetta bara vera eiginhagsmunapot, með nokkrum undantekningum.
Ég vil ekki þakka þessari núverandi stjórn neitt sérstaklega heldur og skil t.d. alls ekki hvernig stendur á því að Jón Bjarnason er ekki búinn að koma opinberlega fram og biðja mann minn afsökunar á að kalla hann lögbrjót í sjónvarpi. En mig langar samt að segja að mér finnst Steingrímur J. langt því frá eiga skilið þær svívirðingar sem yfir hann hafa gengið á undanförnum mánuðum. 'Eg hugsa að það sé leitun að manni með minni eiginhagsmuni fyrir brjósti, a.m.k. þar til hann fer nú að vinna í kjördæmismálunum þar sem eiginhagsmunir (kjördæmahagsmunir) hljóta að eiga að vera drifkrafturinn í þátttökunni. Mér finnst Steingrímur eiga heilmikið hrós skilið og ég þakka honum vel unnin störf. Ég held að það hafi verið ástæðan fyrir að ég byrjaði að skrifa þessa langloku.
Með bestu kveðju úr ópólítíska sófanum mínum. Ég vona að vanda, að enginn móðgist.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ríkisstjórnin þín
16.2.2013 | 16:17
Kæru samlandar. Það er eiginlega ekkert hér á blogginu á Mbl.is nema pólítík. Og nú eru svo miklar hræringar í gangi og virðist sem allir séu óánægðir.
Því spyr ég, hver var ríkisstjórnin þín?
Mér þætti vænt um að vita, hver var ríkisstjórnin sem þér þótti góð, af hverju og hvað var það sem hún skilaði vel?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til elsku stóru barnanna minna sem stundum verða útundan vegna litlu
16.2.2013 | 08:51
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýrin í síðustu færslu
12.2.2013 | 15:32
Eftir að ég viðraði áhuga minn á að taka þátt í hlaupinu Racing the Planet á Íslandi sem á að halda í ágúst, létu margir í ljósi áhyggjur sínar og vantrú á geðheilsu minni. Það er líka alveg eðlilegt, ég er bara kelling með fullt af börnum í pilsfaldinum, marguppskorin hné, offeitar tær og örlítið rúnnaðan afturenda líka. Það er heimskulegt að leggja á líkamann að fara 250 kílómetra í svona rykk og óþarfi og týpískt fyrir nútímamanninn við fertugsaldurinn að finna sér eitthvað í þessum dúr, ýkt og óheilbrigt.
Þetta eru allt réttmæt rök en nú er ég bara orðin alveg ómöguleg af löngun að fara í þessa ansans keppni, mér finnst ótækt að það sé enginn Íslendingur skráður og þetta er nú fertugsárið mitt og ég ætti að vera að gera eitthvað ógurlega skemmtilegt, jafnvel meira en önnur ár.
Eftir mótbárur frá einstaka góðvilja fjölskyldumeðlimum og vinum, augljóslega vel meintum með heilsu mína fyrir augum, ákvað ég því að leggja fyrr mig smá próf. Standist ég prófin, þá skrái ég mig í keppnina.
Mun takmarkið eingöngu vera, eins og fyrir 20% þeirra sem eru að taka þátt, að komast á leiðarenda. Ég mun ekki hlaupa, sem þýðir að þetta mun taka mig einhvers staðar í kringum 70 klukkutíma líklega.
Fari svo að ég láti slag standa og skrá mig, þarf ég einvala stuðningslið, jafnvel frá ykkur sem finnst þetta fáránleg hugmynd.
Mér er nokkuð sama hvort þeirra vann, hérinn eða skjaldbakan, en þau komust allavega bæði yfir marklínuna á endanum, hvort á sinn hátt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hérinn og skjaldbakan
12.2.2013 | 11:39
Sjálfstyrkingarþema þessarar aldar með sérstaka áherslu á að muna hvers virði maður sjálfur er, að horfa inn á við, skoða sjálfan sig, borða sushi og spelt og allt þetta á ekki mína aðdáun. Ég er satt best að segja búin að fá alveg nóg af þessu. Mér verður bara oft hugsað til afa míns í Laxárdals og margra annarra sem myndu líklega snýta sér aukalega ef þau vissu af þessarri sjálfs- dellu.
Get on with it langar mig dáldið oft að segja.
En lífið er víst ekki þannig og við förum i þessa venulegu hringi og í dag er þetta í tísku og hinn daginn hitt. Ég er líka oft sammála -sumu. T.d. er bara af hinu góða að hugsa vel um líkama og sál. Það er bara alveg óþolandi að allir þurfi endilega að borða spelt til þess.
Svo vil ég hér með kveða upp þá skoðun mína að mér finnst með ólíkindum að mannfólkið sé ekki búið að sjá i gegnum þá peningamaskínu og mafíustarfsemi sem framleiðsla vítamína er. Já hér með spái ég því að einn daginn komi í ljós að það er eitur í pillunum, ekki hollusta. Hugsið nú aðeins um það, hvað er normalt við það að byrja hvern einasta dag á að gleypa pillur?
Lifi gamli tíminn.
Kveðja úr Sumarhúsum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
hún
8.2.2013 | 16:59
Hann vissi nákvæmlega hvað hún var að hugsa þegar hann gekk inn. Innst inni var það honum ljóst frá degi eitt að hann myndi aldrei endast i þessu heimilislífi. Hann var einfari sem átti ekki samleið með fólki sem átti svona venjulega daga.
Hluti af honum vildi þetta samt. Hann sá fyrir sér sína eigin fjölskyldu sem hélt saman í gegnum þykkt og þunnt og alveg þar til mamma hans dó mætti í sunnudagssteikina í hverri einustu viku, að minnsta kosti þau sem voru á svæðinu hverju sinni. Þessar stundir voru honum mikilvægar, jafnvel eftir að hann fullorðnaðist.
Samt fann hann strax að þetta var ekki í eðli hans að fylgja þessari rútínu. Þau áttu engan vegin saman. Hann gat þó ekki látið hana sleppa framhjá sér og þegar hann fann að hún bauð upp á notalegt heimili sem hann gat valsað út og inn af eftir hentugleika þá fannst honum hann verða að prófa.
Hann hafði eiginlega aldrei hitt neina eins og hana.
Nú sat hún þarna og horfði á hann og hann fann óttann í henni. Hann vissi að hann yrði að fara bráðum, láta þessu lokið. Hann fann að hún fann. Hún var ekki vitlaus. Þarna sem hún sat horfði hann á hana í augnablik og brosti. Hún var falleg og bar aldurinn vel. Hún gerði litlar kröfur til hans og opnaði sína veröld upp á gátt fyrir honum og leyfði honum að koma inn í litlum skrefum, sem hann þáði. Smám saman fóru þau sem voru uppkomin, börnin hans, að koma í heimsókn. Heimlið hennar varð heimilið þeirra nokkrum sinnum í viku.
Það var föstudagskvöld. Hún var vön að koma við í Ríkinu á heimleiðinni og kaupa vínflösku sem hún drakk ein á meðan hann sötraði kaffið sitt. Honum féll það vel og hún var skemmtilegri þegar hún var búin að fá sér aðeins vín. Þá hvarf óttinn og hún slappaði af. Nú stóð flaskan óopnuð á borðinu.
Hann kastaði lyklunum á eldhúsbekkinn og brosti til hennar. Hann vissi nákvæmlega hvað hún var að hugsa og hann vissi líka nákvæmlega hvað myndi gerast næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég er alltaf að reyna að verða aðeins betri manneskja. En hið slæma í mér verður of oft allráðandi. Og nú mun þetta blogg verða alveg skelfilegt aflestrar. Framsóknar-mér mun líða illa í nokkra daga því ég veit að það mun móðga eitthvað fólk og ég kann því illa, en samt get ég ekki orða bundist.
Það er nefnilega þannig að ég er útivinnandi móðir fjögurra barna. Og mér er alveg lífsins ómögulegt að vera nokkuð annað en einmitt það og hef þá skoðun að ég vil gjarna að dætur mínar, t.d. alist upp við það að menntun mín (og þeirra) muni nýtast í starfi sem vonandi er skemmtilegt og gefandi fyrir þær. Ég þekki fullt af flottum heimavinnandi konum og sé marga kosti við þeirra líf líka og er þessu bloggi ekki ætlað að deila á þær bara svo það sé á hreinu. Eftir all, hver vill ekki eiga mömmu sem er heima og knúsar mann þegar maður kemur heim úr skólanum, eldar góðan mat, er alltaf falleg og hlý og hjálpar manni við heimalærdóminn. Er vinur vinanna og til staðar þegar þarf á að halda.
Hér í Hong Kong er nokkuð algengt að útlendingar eins og ég komi og búi í nokkur ár í senn. Oftar en ekki vegna starfs eiginmannsins (hér er fólk gift, ekki trúlofað). Svo að ég setji fram steríótýpurnar þá er konan heima(vinnandi) og fer í hádegisverð og hand- og fótsnyrtingu, spilar dáldið majong, fer kanski í kínverskutíma þó hún noti aldrei kínverskuna nema til að kalla að þjóninum um leið og hún réttir upp fransksnyrtan vísifingur og otar að honum kreditkorti eiginmannsins, svo þarf hún kanski að fara aðeins á markaðinn og náttúrulega í lífrænu búðina á leiðinni heim.
Einkabílstjórinn bíður fyrir utan en hún talar hátt í símann þegar hún gefur leiðbeiningar um við hvaða útgang verslunarmiðstöðvarinnar hann skuli bíða. Er hann ekki örugglega búinn að festa barnabílstólinn í, því þau eru næst að fara í leikskólann þar sem (hún) nær í börnin og nær svona helstu fréttum af nágrönnunum í leiðinni þar sem hún bíður fyrir utan með hinum mömmunum. Þær eru líka vel snyrtar og á flatbotna skóm í þröngum buxum. Hálsmálið á bolnum er passlega hátt svo ekki sést í skoruna en brjóstin sitja hátt. Sólgleraugun á sínum stað og það sést vel í merkið á veskinu, það er ekki frá síðasta ári by the way. Þær ræða hver eigi að koma með hvað á næsta basar, sykurlausu súkkulaðikökurnar og glúteinfrítt kex. Það hringlar í armböndum og úrum þegar þær nota hendurnar til að leggja áherslu á orð sín.
Ég kem alltaf síðust að hliðinu, á hlaupum. Sveitt og hárið út um allt, líklega í marglitri teygju eins og Sarah Jessica Parker hélt fram að engin kona notaði nema hún væri úr sveitinni, dótið að springa upp úr töskunni minni sem er náttúrulega keypt á markaðinum og er með skökku gerfi Jimmy Choo merki á, alltof stóru, missi símann á stéttina en það skiptir ekki máli því hann er hvort sem er aðeins brotinn fyrir, hann hringir og ég þarf að tala við viðskiptavin á meðan hinar konurnar spjalla um börnin og sýna hverri annari vídeó af yngri krökkunum.
Ég reyni að tala lágt í símann því það er ekki svo geðslegt fyrir hinar að heyra um legvatn og kúkatilfinningu og hvernig best sé að nudda brjóst og hvort blæði mikið. Ég er í gallabuxunum mínum sem Anna Sigga keypti fyrir mig 2007 og mér finnst enn flottar, þær eru beinar og langt frá því að vera nýjasta línan. Það er örlítil fitufelling sem rúllar allan hringinn yfir buxnastrenginn. Þær taka eftir því af því að ég er með matarblett á bolnum í naflahæð og hann fangar athygli.
Af einhverjum undarlegum ástæðum afsaka ég mig þegar ég losna loksins úr símanum, vá hvað ég er glöð að ná í tíma, ég hélt ég yrði of sein og bla bla bla. En börnin eru ekki enn komin og þegar þau streyma niður stigann sé ég að Sögu minni hefur jú verið greitt í morgun. En fötin hefur annað hvort indónesíska barnapían sem er með Hello Kitty æði, eða Saga sjálf valið.
Flottur bolur segir ein mamman.
Þær fara sér hægt og spjalla á leiðinni út, skipuleggja leikdaga fyrir börnin og spyrja mig um Sögu. Á þriðjudaginn, flott. Komdu endilega með sundföt, við getum verið við laugina. Nja, það er eiginlega bara Saga sem kæmi, - ég er að vinna. Er það samt ekki í lagi?
Jú, eða hvað með fimmtudaginn? Jaaaa, ég vinn líka á fimmtudögum.
Við gætum gert þetta síðdegis líka? Jaaaa, það er nefnilega það, ég vinn sko eiginlega fulla vinnu (mjög afsakandi).
Löng þögn. Þetta er allt í lagi samt, við skulum bara hugsa um hana fyrir þig, við erum svo margar.
Ég er mjög þakklát. Fyrir þennan þriðjudag og alla hina, því ég kýs jú sjálf að vinna og er mjög glöð þegar aðrar mömmur sjá um mín börn og að baka og að vera duty mömmur í leikskólanum og rútunni og fara með krakkana í ferðir og ballett og leikdaga og afmæli og svo mætti lengi telja.
Ég reyni stundum að vera með í þessu - og það er næsta saga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
eitt það besta
3.2.2013 | 15:21
er að eiga systkini.
Ég er áður búin að skrifa um þetta en það er án efa eitt það besta sem foreldrarnir gerðu fyrir okkur öll, það var að búa til hin.
Til að mynda í dag kom yngri systirin sem hér býr og eyddi með okkur stúlkunum á bænum deginum. VIð fórum í hike yfir til Sai Kung þar sem við sátum lengi og gæddum okkur á síðbúnum morgunverði á meðan litlu stúlkurnar léku sér á torginu. Við meira að segja gripum þennan fyrirtaks blómavasa með í lok göngunnar.
Svo var miðdegisblundur hér um borð, horft á þá ágætu mynd American Beauty sem á erindi til allra og loks örlítil verslunarörferð með unglingsstúlkunni, og svo sunnudagsborgari í boði Elvars ofurkokks.
Að hanga svona saman og gera "ekki neitt" eða þannig, er ekki hægt með neinum nema systkinum manns. Aðrir verða bara hálf sturlaðir af svona stöðugri samveru. Það er ýmist hægt að blaðra um ekki neitt eða segja ekki neitt, maður þarf ekkert að hafa fyrir neinu.
En þetta var góður dagur, þökk sé foreldrum mínum fyrir þessi góðu systkini, Bekku nánar tiltekið, í dag allavega.
Þess mal bloggi var sérstaklega beint til Steina míns sem á erfitt með svona pósta. Kærar kveðjur fuglinn minn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)