Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Leitin að minningum

Í mínum huga eru það mikil forréttindi að hafa alist upp úti á landi.  Minningarnar úr æsku frá litlu sjávarplássi eru endalausar og þó ef til vill hafi ég ekki gert mér grein fyrir því á þeim tíma þá veit ég nú að þær eru ómetanlegar.  Eftir því sem ég eldist og þroskast geri ég mér líka grein fyrir því að svo margt sem ég geri í núinu er hálfgerð endurgerð – eða leit að gömlum minningum og upplifunum.  Skiljist á jákvæðan hátt, auðvitað er eðlilegt að vilja endurtaka góða hluti í hófi, ég meina að sjálfsögðu ekki að maður geti ekki notið augnabliksins.

Kvöldinu í kvöld eyddi ég með frábæru fólki sem ég þarf aðeins að fjalla um síðar því það var merkileg saga sem mér var sögð í tilefni fæðingar góðrar konu nokkrum áratugum fyrr.  En klukkan 22 hófust síðan tónleikar sem ég hef undanfarin ár þurft að hlusta á í gegnum veraldarvefinn og Bylgjuna.  Og að þessu sinni var ég nú stödd á Íslandi svo ég gat notið þeirra af 7unda bekk.

bubbi morthens

Í minningunni kom Bubbi Morthens á hverju ári á Kópasker og hélt tónleika.  Það var alltaf gott veður og þetta voru alltaf frábærir tónleikar.  Það hafa líklega verið ca 40 manns á þeim í hvert sinn. 

Með árunum, eftir því sem Bubbi er meira sjáan- og heyranlegur, hef ég haft aðeins minni áhuga á að hlusta á hann því hann blaðrar oft allskonar vitleysu sem betur væri ósögð.  En það verður ekki frá honum tekið að hann er einlægur og hann er alveg frábær trúbador.  Ef hann myndi segja aðeins færri og styttri sögur á milli laga væru tónleikar með honum meiriháttar.

Og í kvöld sat ég á 7unda bekk og fékk að njóta einstakra tónleika með Bubba Morthens.  Fyrir utan smá útúrdúra var lagavalið vel balanserað, góð samsetning af gömlu og nýju, góðar sögur í textunum og tilbreyting og hann söng betur en nokkru sinni.  Ekkert mix og fix, bara Bubbi og gítarinn á sviðinu, frábært frá A til Ö.   Hann á svo mikið eftir, ég er alveg ósammála þeim sem segja að hans tími sé liðinn.  Hann er bara bestur í þessu formi, ekki í útvarpi.

bubbi

Ég er ekki frá því að ég hafi endurlifað stemminguna frá því í Gryfunni í Grunnskólanum á Kópaskeri í gamla daga, ég sat alveg dolfallin þarna á 7unda bekknum.

Bubbi sendir fólk heim með fallegar hugsanir og boðar gott og fallegt erindi.  Ég er viss um að flestir sem sátu í Hörpunni í kvöld voru glaðir að hafa farið að upplifa þessa tónleika.  Því þetta var ekki bara hlustun, miklu meira.  Takk fyrir Bubbi Morthens, þú kryddar og fyllir vel út í þennan heim.  Og takk fyrir að hjálpa mér við að finna enn eina góða minningu. 


Kærar þakkir, Veiðifélagið

Við steiktum þessa afbragðsgóðu gæs í gær á meðan við leituðum að jólatré.  Ég hef aldrei áður steikt gæs og var talsvert sveitt af stressi á meðan jólatrésleitinni stóð því ég hafði áhyggjur af því að væntingar tengdapabba sem er mikill matmaður væru miklar varðandi gæsina en hún myndi svo ekki standa undir þessum sömu væntingum.  Var ég búin að lesa mér til að það væri nokkuð algengt að kenna aldri gæsarinnar um ef hún væri seig og var ég tilbúin til að notfæra mér þessa afsökun. 

En Veiðifélgið  bjargaði deginum, kærar þakkir! 

vei_ifelagi_2008_haus_625240

 http://veidifelagid.blog.is/blog/veidifelagid/entry/377835/ 

Ég mæli hér með sterklega með því að fólk noti þessa einföldu og góðu uppskrift þeirra félaga.  Gleðileg jól, Veiðifélagar.


Jólatré

Í gær lögðum við fjölskyldan eina brekku undir dekk og keyrðum hér niður Dalveginn.  Þar var, 500 metrum frá húsinu okkar, fyrsta jólatréssalan sem okkur datt í hug að fara í.  Skemmst er frá að segja að þar voru engin tré sem stóðust mínar væntingar um frábær jólatré, þau voru öll heldur gisin að sjá sem voru í boði. 

En til staðar voru félagar úr Karlakór Kópavogs og voru í besta stuði þó þeir fengjust ekki til að syngja fyrir okkur þá og þar. 

Enn og aftur er ég minnt á hversu notalegt landið og landinn er.  Allir kallarnir voru bráðhressir og tilbúnir að aðstoða í hvívetna við að reyna að laga hið miður fallega tré sem valið var og þeir sögðu okkur frá síðustu tónleikum sínum sem heppnuðust vel.

Einnig gáfu þeir okkur ókeypis miða á vortónleika kórsins í maí.

Það má með sanni segja að þessi ferð var til mikillar gleði fyrir fjölskylduna.   Sannaðist í henni að það er ekki endilega hvað heldur hvernig, skiptir máli. Mannleg samskipti kæru vinir, svo mikils virði.


Ég mun aldrei venjast því

...að keyra niður Hverfisgötuna.  Það er bara eitthvað rangt við það.

Notalegheit í fyrirrúmi

Fátt jafnast á við notalegheit við kertaljós á dimmum vetri.   Nú erum við alveg að verða búin að koma okkur fyrir í húsinu og hönnunarleg smáatriði að verða komin á hreint.  Kertin spila þar stórt hlutverk:

kerti 2

Bekkurinn við eldhúsborðið sem minnir mig á Laxárdalsdaga slær líka alltaf í gegn

IMG_0429


Góður maður

Ég hef verið svo lánsöm í gegnum árin að hitta fyrir og verða samferða mörgum góðum mönnum og konum.  Sumir halda áfram að vera innan radíuss en svo eru margir sem maður hittir ekki árum saman. 

Ég hef oft hugsað til eins manns sem var mér ákaflega góður þegar ég var í MH og átti svo sannarlega ekki mínar bestu stundir annars - og í leit minni að hamingju þar innan veggja skólans sá ég þann kost vænstan að reyna að klára námið á sem skemmstum tíma, svo leiðinlegt þótti mér í þessum skóla.  Eitt af skrefunum í þá átt var að skrá mig í kvöldskóla til þess að ná að klára fleiri áfanga og fyrir valinu varð að læra rússnesku hjá Ingibjörgu Hafstað sem tók mig að sér þó önnin væri hafin og reglum skólans samkvæmt var eiginlega ekki leyfilegt að vera í kvöld og dagskóla. 

Fljótt kom í ljós að hinir nemendurnir voru vel á veg komnir og stóðu sig öll afar vel í þessum frábæra rússneskuáfanga, sem var án efa einn sá skemmtilegasti sem ég tók í skólanum.  Þarna var raunverulega fólk sem var að læra af því að það langaði til þess.  Og til þess að ég héldi dampi varð ég að fá aðstoð.  Þar kom nú þessi ágæti maður og tók mig að sér, og heitir hann Loftur.  Ég er ekki viss um föðurnafnið, og ef þú lest þetta kæri Loftur, endilega láttu mig vita, því ég vil svo sannarlega setja það í minnið.

Í gær var ég þeirrar gæfu aðnjótandi, eftir 20 ár eða svo að sjá og hitta Loft á ný.  Gleði mín var ósvikin því þarna er á ferðinni mikið eðalmenni, afbragðsvitur og skemmtilegur og góður innúr og útúr. 

Þessa önn sá hann um að koma mér áfram í rússneskunni og ekki nóg með það, heldur útvegaði hann mér vinnu hjá Skeljungi þar sem við stóðum vaktina saman stundum í litlu stöðinni í Skógarhlíð með góðum köllum sem kenndu mér að skipta um olíu, strekkja viftureimar og annað, auk þess sem þeir létu aldrei neinn fara án þess að þvo framrúðuna.  En þetta var eðalstöð og er enn, með alveg sérstöku andrúmslofti og fastakúnnar sem komu í kaffi aftur og aftur. 

Ég mun aldrei gleyma hversu skemmtilegt allt í einu varð að vera í MH, meðal annars fyrir þær sakir að Loftur og rússneskufólkið kryddaði tilveruna mjög.

Loftur, frábært að hitta þig og eins og þú sagðir nú alltaf sjálfur um Toyotuna þína, að sjá að þú ert still going strong.

Hefst hér með umfjöllun um gott samferðafólk, mikið er gaman að rifja upp. Meira síðar.


Ýmislegt jákvætt

Það er svo gott að koma heim og fá og sjá og finna allt það góða sem Ísland hefur upp á að bjóða.  Meðal annars, síðustu daga:

1.  Fallegt veður og skyggni þegar sólin er að setjast.

sólarsetning

2.  Ákaflega hjálpsamt fólk.  Þegar maður kemur inn í búðir og þjónustustaði þá er fólkið áhugasamt um að hjálpa, raunverulegar lausnir í boði.

3.  Diddú, Ragga Gísla og Gissur Páll.

4.  Rás eitt. 

5.  Fallegur miðbærinn með frábærum veitingastöðum.

6.  Tjörnin.

7.  Kormákur og Skjöldur, nú á ég glaðari mann.

8.  Arineldur.

9.  Mjólk, smjör og skyr.

10. Traust og fámenns-samfélags-stemming.

Fyrir utan þakklæti yfir að hitta yndislega fjölskyldu og vini, þá er alltaf jafn gott að vera minntur á hversu gott landið okkar er.  Ég man sem barn þegar ég velti því fyrir mér hvernig í ósköpunum stæði á því að í þessum risastóra heimi væri ég fædd í þessu pínulitla þorpi, Kópaskeri, á þessu pínulitla landi, - mér fannst þetta svo sérstakt.  Ég var samt glöð yfir því þá og enn glaðari nú.

Kveðja undan teppi og kaffibolli í hönd. 

H

Ps.  Má ég mæla með Ríó Tríó jólaplötunni, hún er jafn góð og Ellý og Vilhjálmur, langt framar öllu nýlegu að mínu mati. 

ríótríó


Réttur reykingafólks

Hversu yndislegt er það að vera til í þessum reyklausa heimi sem veitingastaðir og innisvæði eru nú.  Hversu jafn ömurlegt er það að geta ekki gengið inn í byggingu eða úr, án þess að fá yfir sig spýjuna af ógeði sem loðir við fötin manns og hár og sérstaklega nú í kuldanum þar sem þetta loðir enn meira við, það er varla bygging sem ekki standa nokkrir fyrir utan og reykja. 

Mér er raunverulega ekki illa við reykingafólk og þekki marga ágæta einstaklinga sem reykja.  Þetta er eins og hvert annað persónulegt mál sem hverjum er frjálst að eiga, svo framarlega að aðrir þurfi ekki að þjást fyrir það.   En mér finnst þetta algjör viðbjóður þegar ég þarf að ganga í gegnum reykingaský frá öðrum.   Hvernig yrði fólki við ef ég stæði fyrir utan byggingu og hrækti reglulega fyrir fæturna á því?  Eða öskraði hátt? 

Þetta er óþolandi og ég skil ekki í þeim sem völdin hafa að banna ekki reykingar við innganga bygginga. 

Góða öndun.


Lögreglan á Íslandi - takk fyrir vel unnin störf

Þar sem ég keyrði Sundabrautina um daginn var ég að hlusta á útvarpið og var þá var í útvarpinu Stefán Eiríksson ríkislögreglustjóri, í viðtali í einhverjum dægurmálaþættinum.  Fyrir utan að njóta loksins nokkurra mínútna þar sem loksins var ekki verið að fjalla um stjórnmál í útvarpinu, gladdist ég mjög að heyra í þessum ágæta manni því hann hafði margt gott fram að færa. 

Örstutt áður en lengra er haldið:  Íslendingar, þvílíkt rugl sem er í gangi í þessu landi varðandi stjórnmál.  Þetta er eitt fámennasta ríki heims en hér ríkir endalaus styrjöld og óreiða þegar kemur að því að taka skynsamlegar ákvarðanir og púðrinu sem er eytt í þessi rifrildi, eiginhagsmuni og skítkast í aðra tekur alla orku frá því að gera það sem er best fyrir landið og landann.  Og ekki nóg með að það sé pólítík varðandi þingið og ríkisstrjórnina heldur loga einnig heilu byggðarlögin og skiptast í fylkingar eftir því hvar viðkomandi situr hverju sinni í pólítísku sæti.  Sem síðar breytist jafnvel og sá sem var kjörinn á sinn stað er skyndilega kominn í hina fylkinguna – en situr enn!  Ég á ekki til orð yfir þessu rugli og mér finnst jafn ótrúlegt að þessu sé ekki breytt hið snarasta, og það að Obama sé ekki búinn að breyta byssuleyfislögum Bandaríkjamanna.

Nóg um það.  Ég er að skrifa þessi orð til stuðnings lögreglunni á Íslandi, lögreglufólkinu okkar.  Ég hef orðið vör við það reglulega í fjölmiðlum að lögreglufólkið er ósátt við bæði laun og starfsumhverfi og öryggi sitt í starfi.  Það að það eru ekki fleiri lögreglumenn og konur á vakt hverju sinni setur fólkið í þá aðstöðu að þurfa að forgangsraða verkefnum á þann hátt að bæði öryggi landans og lögreglufólksins er ógnað stundum.  Og glæpamennirnir vita líklega sem rétt er að það er ekki lögreglumaður á hverju horni og því er auðveldara að fremja glæpi, eða öllu heldur, ólíklegara að nást við iðju sína. 

Þar sem ég bý í Hong Kong eru frekar margir lögreglumenn á hvern landsmann og glæpamaðurinn ég hef löngu lært að brjóta ekki lögin viljandi fyrir vikið.  Það sem ég á við hér er nú „bara“ að keyra hratt eða fara yfir óbrotna línu – það er langt síðan ég áttaði mig á því að ef ég gerði slíkt þá væri annað hvort myndavél eða lögreglumaður á hjóli sem myndi sjá þetta og ég myndi gjalda fyrir.  Þetta er ákveðið uppeldi og tók smá tíma en lærðist samt fljótt.   

Í hvert sinn sem árekstur eða glæpir eiga sér stað þá sér maður fjöldann allan af lögreglufólki flykkjast á staðinn og sjúkrabílar og lögreglubílar eru komnir innan nokkurra mínútna.  Og þá kemur að því að nota haus og hendur og þar stendur hnífurinn í kúnni.  Ég hef orðið vitni að því nokkrum sinnum, stundum við mjög alvarlegar aðstæður og stundum við mildari, að þegar allt þetta lið mætir á staðinn þá eru góð samskipti og það sem við köllum sjálfsögð skynsemi oft verulega ábótavant.  Það er eins og þetta fólk sé alls ekki þjálfað til að bregðast við á mannlegan hátt sem á sama tíma býður upp á að vera úrræðagóður og leysa vandann á staðnum hratt og vel.  Allskonar formsatriði verða aðalmálið, og hlutirnir eru gerðir samkvæmt einhverjum formúlum sem stundum eiga við en oft alls ekki.   

Þar er nú ástæða þess að ég skrifa þessi orð.  Ég hef svo oft hugsað um hvað Íslendingar eru heppnir að eiga svona gott lið lögreglufólks sem raun ber vitni.  Að hlusta á Stefán lögreglustjóra tala og lýsa því starfinu, hugsjóninni og því hvernig tekið er á málum hér var virkilega þægilegt og minnti mig á hversu gott landinn hefur það.   Þó svo að hér séu fáir á vakt hverju sinni á má allavega oftast gera ráð fyrir að þegar lögreglan mætir á staðinn þá er þetta úrræðagott fólk sem hefur samúð og skynsemi og sinnir verkefninu af alúð og getu.  Nærgætni og virðing fyrir mannfólkinu er í fyrirrúmi og á sama tíma gengur lögreglufólkið hratt og örugglega til verks og í samvinnu við sjúkraflutningafólk og heilbrigðisstarfsfólk gerir okkur það kleift að vera áhyggjulítil ef svo illa vildi til að við þyrftum á slíkri þjónustu að halda.  Við erum í góðum höndum og fáum bestu mögulegu þjónustu.   Raunveruleg umhyggja og virðing fyrir skjólstæðingunum er fyrir hendi. 

Og þessi orð eiga við um hinar stéttirnar líka, sjúkraflutningafólkið okkar, hjúkrunarfræðingana, lækna, ljósmæður, sjúkraliða og alla þá sem koma að þessum málum hér á Íslandi.  Við erum einstaklega rík af góðu fólki (sem eyðir ekki tímanum í pólítískt þras heldur er raunverulega að vinna að velferð okkar). 

Mig langar að þakka  öllu þessu góða fólki fyrir að leyfa mér að keyra örugg um göturnar og sofna áhyggjulaus á kvöldin, vitandi að ef ég þarf á þjónustu að halda þá er hún góð, veitt faglega og af heilindum.   Á sama tíma vil ég skora á stjórnvöld hér til þess að tryggja að þetta fólk fái stuðning til að vinna vinnuna sína vel, bæði með viðeigandi launum og með því að hafa nægilega marga á vakt hverju sinni til að öllum verkefnum geti verið sinnt eins og þörf er á. 

Vonandi verður þá þannig að við öll sem mögulega ætlum að fremja glæpi hættum snarlega við að gera það, vitandi að það er lögreglumaður á hverju horni, - en ef einhverjum verður á og stórglæpur eða slys á sér stað, að á staðinn haldi áfram að mæta frábært lögreglulið sem leysir vandann hratt og örugglega.

Áfram lögregla Íslands.     


Síðdegisútvarpið á Íslandi - miðnætti í Hong Kong

http://www.ruv.is/sarpurinn/siddegisutvarpid/03122012/adventan-i-hong-kong 

Spjall í síðdegisútvarpinu um jólagleðina okkar í Hong Kong.  Takk Steinunn Blöndal.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband