Að klára sterkt

Í tilraun til þess að julla einhverss staðar mörgum mílum aftar,  í kjölfar Strúllunar,  förum við elstu þrjú systkinin og Steindór nú í hálfmaraþon í Kota Kinabalu í Borneó. 

Hún fer að sjálfsögðu heilt maraþon og er búin að vera mjög dugleg í þjálfuninni.  

 

Í minni tilraun til þess að undirbúa mig tók ég allskonar crash kúrsa hér á veraldarvefnum síðustu daga:  Hvernig æfir maður fyrir maraþon á viku?  Last minute tips for marathons og þannig greinar.  Og hringdi í Ross þjálfarann sem er ekki með neina kímnigáfu og spurði "hérna Ross, hvernig er það nú er maraþon um næstu helgi..." og hann svarar um hæl "nei, ég mun ekki segja þér hvernig þú átt að bjarga málum fyrir það.  Það áttir þú að gera fyrir löngu.  Eins og fyrir síðasta hlaup, og þarsíðasta".  

Þarmeð fór það bjargráð.  Hulda Bekka Strúlla

 

Þá snéri ég mér að tónlistinni.  AuPair stúlkan okkar hún Elvar var við það að andast við þá tilraun.  Hafði hann aldrei heyrt minnst á Dúmbó og Steina, hvað þá BG og Ingibjörgu eða hljómsveitina Pelican.  Og taldi að lagið um sautjánda júní kæmi mér ekki langt.  

 

Við enn frekari eftirgrennslan varð á vegi mínum ágæt grein úr runnersworld sem einhver deildi á Facebook síðu Strúllu og Chris Knodel vitnaði í einnig.  Var hún um fyrsta langhlaup (hvers sem er) og hvernig skyldi haga sér. 

Mér þótti þessi grein afar góð en í stuttu máli var það svo:  Fyrstu 10 km:  spjallhraði.  Hér munum við systur fara í gegnum sögur af John, yfirmanni Bekku og ég mun fræða hana um lagið "á skíðum skemmti ég mér" sem hún mun aldrei hafa heyrt.  

Næstu 8 km eru aðeins hraðari og verður hér sett upp nýja Marshall headsettið og strikið tekið áfram beint.  Reynt að leiða hjá sér 35 gráðurnar og órangútana sem sveifla sér úr pálmatrjánum og stökkva  á sárþjáðar axlir manns.  Banani spólaður í sig og annað hvort verður Ívar Bjarklind eða Sverrir Stormsker að jóðla í settinu.  

 

Svo verður sterklegur sprettur í lokin, ca 3 km síðustu 500 metrarnir náttúrulega á Snartar hraða.
Ekki er auðvelt að segja hver á vinninginn þar í tónlistinni en ekki ólíklegt að það verði Uriah Heep eða Karlakórinn Hreimur. 

En greinarhöfundur bendir á að ekki þýði að fyrirframskipuleggja þetta svo nákvæmlega, heldur aðeins að hlaupa eftir því sem kroppurinn gefur til kynna á viðkomandi degi að hann vilji gera.  

 

Mikilvægast af öllu og smörtustu orðin í greininni fannst mér vera ráðleggingin um að klára sterkt.

 

Finish strong. 

 

Þetta á nú við um margt ekki satt. Góð orð.

 

 

 

 

 

 

 

...svo mundi ég að aðalatriðið er náttúrulega að líta vel út og eyddi síðustu orkulítrunum í að finna mér samstæðan búning.  Kvaldist ég í gegnum 10 mæðraskoðanir í dag með afar fjörlegt naglalakk sem minnir mjög á Rósu Ingólfs vegna þessa.  


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert snillingur Hulda Þórey !

Soffía Anna Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 30.4.2014 kl. 23:29

2 identicon

Þetta á eftir að ganga vel hjá þér með þessa músík í eyrunum og öllum hinum líka.

Elfa Rún Antonsdóttir (IP-tala skráð) 2.5.2014 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband