Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Til hamingju með afmælisárið okkar kæra vinkona!

afmaelismanu_ur1_1188837.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Pössum okkur á að festast aldrei í boxinu! Knús og koss yfir haf til þín.


"ég var látin vera..."

Þegar ég var með tvö börn og mætti í mömmuklúbba fyrir nokkrum árum var algengt að heyra fæðingarsögur.  Það var talsvert oft sem ég heyrði eitthvað í þessa veruna:  "ég var látin vera í fæðingu í 24 tíma" eða eitthvað þvíumlíkt.  Einhver var látin eitthvað. 

Þegar maður fer í gegnum fæðingarsögur með konum þá er oft mjög sorglegt að heyra upplifun þeirra og stundum það sem kalla má umhyggjuleysi.  Sigfríður Inga ljósmóðir hefur mikið rannsakað og skrifað um þetta og þetta getur verið mjög stór áhrifaþáttur í því að konur sem jafnvel hafa farið í gegnum fullkomlega eðlilegar fæðingar, finnst það samt hafa verið vond upplifun.  

Og það er margt sem spilar inn í þarna, auðvitað eru margar konur sem sjálfar eru hreinlega þannig stemmdar að þær eru strax í áhættuhópi um að enda með erfiða fæðingarreynslu, þær eru ekki vel undirbúnar eða tilbúnar til þess að takast á við fæðinguna og ætlast til þess að ljósmæðurnar og læknarnir "sjái um þær", samanber tilvísunina hér að ofan. 

Ég er að skrifa þetta til þess að minna okkur öll á hversu mikilvægt er að takast á við þetta verkefni saman; ég vil gjarna halda að við ljósmæður allar og fæðingarlæknarnir á Íslandi séum að vinna vinnuna okkar af alúð og séum bæði góð við konurnar okkar og fagleg, en lengi má gott bæta og líklega er kærleikurinn aldrei ofmetinn þegar kemur að konu í fæðingu.  Jafnvel þó fæðingin sé erfið og löng, og stundum endi með inngripum og aðstoð, - með kærleik og umhyggju er hægt að sinna þessum konum þannig að þær upplifi þetta ekki á neikvæðan hátt.  Kanski gleymum við stundum bara að setjast niður og halda í hendina á fólki á þeirra eigin forsendum. 

Á sama hátt er mikilvægt fyrir allar konur sem eru að eignast börn að hugsa aðeins til þess þegar þær eru að fara að fæða, að enginn mun "láta þær" gera neitt.  Fæðing er eitthvað sem óhjákvæmilga mun gerast í lok meðgöngunnar og það er mikilvægt að axla þá ábyrgð að vera aðeins undirbúin og búin að búa til hugsanaferli, ef ekki þegar til staðar, sem aðstoða viðkomandi þegar að þessu kemur.   Það hjálpar ekkert til að hugsa sjálfan sig sem fórnarlamb. 

LJósmæður og læknar geta ekki unnið kraftaverk og sumar fæðingar eru langar, aðrar stuttar, sumar erfiðar og aðrar auðveldari.  Þáttur hverrar konu í eigin ferli er afar stór og mikilvægt að þær sjálfar hugsi alltaf fyrirfram að þær munu fá aðstoð og faglega hugsað fyrir öryggi, andlegum og likamlegum þáttum - en þær sjálfar þurfa að vera virkar í ferlinu og skilja að enginn hefur nokkra löngun til að láta þær þjást, vera afskiptalausar eða "láta þær" eitt eða neitt. 

Með þessum orðum vil ég bara minna okkur allar á hversu samskiptin, umhyggjan og það að vera í góðu jafnvægi sjálfur er mikilvægt, hvort sem þú ert sú sem ert að fara að fæða eða sú/sá sem ætlar að sinna konunni í fæðingunni.  

 


Föstudagskvöld

Konan varpaði öndinni léttar þegar hún sá að börnin hans voru ekki komin til að vera hjá þeim í mat þetta kvöldið.  Þau voru búin að vera óvenju mikið saman vikurnar á undan og hún var orðin þreytt á kvöldum sem ekki virtust taka enda, vínflösku eftir vínflösku og sömu umræðurnar endurteknar.  Henni fannst þau skemmtileg en systkinin voru frekar kröfuhörð á pabba sinn sem var glaður að sjá þau en hafði samt nóg að gera, sérstaklega á þessum árstíma.  Konan óskaði þess stundum að börnin hefðu meiri skilning á þessu; skilning á því að hann var þreyttur og löngu búinn að skila sínu, nú vildi hann gjarna eiga kvöldin fyrir sig í afslöppun.  Með henni náttúrulega.  Sem betur fer kom þeim vel saman, henni og börnunum.  Sérstaklega henni og drengnum, hann var alveg að verða búinn með háskóla og var auðveldur í umgengni þó hann væri mjög skoðanasterkur.

Hún átti í erfiðleikum með að segja opinskátt við nokkurt þeirra að fengi hún að ráða, væru þau aðeins fjær hverju öðru en hvernig gat hún sagt það þegar hún vissi líka að fjölskyldan var þeim öllum svo mikilvæg.  Hún vildi ekki spilla stemmingunni. 

Hún hellti sér í glasið og stillti útvarpið á Rás 1.  Hún hallaði sér aftur í stólinn og beið eftir að hann kæmi heim.  Hún hafði átt von á að hann væri kominn heim á undan henni.  Og að þau sætu þarna öll og spiluðu eða eitthvað þvíumlíkt.  En íbúðin var auð og meira að segja var eins og allt húsið væri autt, það voru engin hljóð anddyrinu og lyftan leið upp án þess að nokkuð heyrðist. 

Föstudagssíðdegi voru sérstök í hennar huga.   Stemming sem þurfti ekki að skapa  sem á einhvern einstakan hátt virtist búa sjálfa sig til þegar líða tók á daginn, líklega áhrif frá útvarpinu og umræðunni og þessari sameiginlegu tilfinningu flestra sem vinna níu til fimm vinnu.  Löngunin til að koma við og kaupa helgarskammt í Ríkinu, kanski að fá góða osta og smá hráskinnku, það gætu litið við gestir og líka gott þegar þau voru bara tvö.  Stundum var hún beðin um að vinna lengur og þá fann hún hvernig hún réði ekki við sig, hún vildi ekki segja nei en varð samt svo pirruð á að verið væri að taka af þessum eftirmiðdögum.  Sumt fólk virtist illa skilja hversu mikilvægt er að njóta ákveðinna stunda, stemmingar, heimavið. 

Nokkrir í vinnunni voru talsvert yngri en hún.  Hún fann hvernig þau vissu ekki alveg hvort þau ættu að bjóða henni með þegar þau voru að tala sig saman um að hittast eftir vinnu, hún var líklega aðeins of gömul til að þeim fyndist það sjálfsagt en hún var vel liðin og smart kona og hún vissi að þau vildu gjarna bjóða henni með.  Þegar hún hugsaði betur um það þá áttaði hún sig á föstudagsstemmingunni og hvað þau áttu þátt í að búa hana til, þau ungu.  Umræðurnar og tilfinningin í kringum þennan hóp samstarfsmanna hennar, þegar líða tók á vikuna og upp úr hádeginu á föstudögum, þetta voru þesslags umræður.  Föstudags.

Hún skildi ekki af hverju hann var ekki kominn heim.  Hann var nánast alltaf kominn fyrr en hún.   Hún sparkaði af sér skónum sem voru opnir og kvenlegir.  Það var komin tími á fótsnyrtingu, hún sá hvernig dökkrautt naglalakkið var farið að flagna á stórutánni.   Hún hallaði sér aftur, stóllinn var þægilegur, hann var frá föðurbróður hennar sem minnkaði við sig fyrir nokkru, einn af þessum gömlu góðu mublum sem ekki var lengur auðvelt að finna. 

Það var ekki fyrr en gall í símanum að hún hrökk upp og áttaði sig á að hún hafði greinilega sofnað djúpum svefni.   Henni var eitthvað órótt þegar hún svaraði, það var óþægilegt að vakna við hringinguna.   


Ég á erfitt með að skilja þetta

Hvernig getur einstaklingur komist inn á þing með því að vera kosinn í flokkskosningum fyrir ákveðið landssvæði og síðan setið áfram á þingi þegar hann segir sig úr viðkomandi flokki?

Mér sýnist á öllu að þjóðin sé með ormana eins og við segjum hér um borð ef hún sammælist um að þetta sé eðlilegt. 

Og mér finnst það heigulsháttur að klára ekki kjörtímabilið með þeim flokki sem fólk þó er búið að spyrða sig inn í í upphafi kjörtímabils og lætur svo eftir sér að klára ekki.  Er það ekki klassískt fyrir nútímamanneskjuna að láta ekki á reyna almennilega, hætta bara við þegar á móti blæs?  

Og í ljósi allra hrókeringanna sem virðast vera að eiga sér stað, er það raunverulega réttlætanlegt að hafa flokkakerfi yfirleitt?  Erum við ekki hvort sem er að kjósa einstaklingana?

Mín skoðun er sú að landið er of lítið, þjóðin of fámenn.  Það þarf að ráða í stöðurnar og reka fyrirtækið Ísland með fólki sem hefur til þess réttindi og þekkingu.  Ekki flokksskírteini.  

Og deili ég ekki á neinn sérstakan með þessu, það eru margir mjög góðir einstaklingar á þingi.  Kerfið er bara ekki að virka.   

Hér í Hong Kong er heilbrigðisráðherrann úr heilbrigðisstétt.  

Góðar stundir.

 


Ekkert foreldri ætti að þurfa að lifa barn sitt

Það hlýtur að vera mesta grimmd sem hugsast getur þegar lífinu er svona hagað. Ungur maður varð úti á Kópaskeri núna um helgina. Áður en ég fékk þessa frétt hafði ég verið að skoða í gegnum þorrablótsmyndir frá staðnum nokkrum klukkutímum áður og einmitt hugsað með mér hvað hann var flottur í tauinu þarna, ég hafði ekki oft séð hann í jakkafötum.

Hann átti ekki alltaf auðvelt líf. Honum var oft strítt og hafður útundan og hann var sannarlega sérstakur á margan hátt. Í honum voru allskonar andstæður og í eina röndina var hann ótrúlegur lurkur, rammsterkur og grófur en í aðra var hann hinn ljúfasti ég gleymi seint t.d. þegar hann átti kettlinga eitt árið hvað hann sinnti þeim af blíðu og natni. Og með einstaklinga sem ekki eru eins og meðalmaðurinn, þá er stundum ósköp gott að alast upp í svona litlu þorpi. Ég held að ég megi fullyrða að flestir finni sér farveg og á Kópaskeri átti hann sér sína rútinu og eftir því sem ég best veit, gott líf og góða vini.

Þegar fólki er kippt svona í burtu í miðju lífi er maður minntur á hversu ódauðleg við erum öll. *   Í litlu þorpi hefur svona mikil áhrif. Og fjölskylda, móðir og systkini sitja eftir með mikla sorg.

Ég sendi mínar samúðarkveðjur til ykkar allra.

 

*  þetta átti að sjálfsögðu að vera, að við erum ekki ódauðleg


Furðufuglar um borð

Hingað hafa ratað margir furðufuglarnir í gegnum árin.  Eitthvað gerir það að verkum að við drögum að okkur fólk sem er klárlega ekki í miðjunni á meðalkúrfunni, tek sem dæmi Kristrján Björn Garðarsson snilling,  Kristínu Ketils sem nýlega synti yfir rétt svo frosið fljót, í mínus sautján gráðum og fleiri.  Sögurnar af þeim geta ratað hingað síðar en í gær átti einn snillingurinn afmæli og vill svo til að  honum skolaði hingað um borð fyrir rúmu ári og hefur ekki farið síðan.

elvar_1.jpgÞað var í jólaboði Íslendinganna sem ég var að skutla heim fólki að boði loknu,  þá kemur hlaupandi drengur til okkar og spyr hvort þetta sé ekki hvar boðið sé.  Klukkan er sex um eftirmiðdaginn og við vorum búin að vera úti á bátnum með 40 Íslendinga allan daginn.  „Jú“ svara ég, „en fjörið er búið, boðið var frá 12 til 6“.  Drengurinn varð hálf miður sín enda búinn að ferðast frá Kína til Hong Kong til að koma í þetta og misskildi tímann.  Honum varð því boðið um borð og ég sagði honum að fara með sampan og þar myndi Steindór taka á móti honum.  Sjálf fór ég í burtu með fólkið.

Steindór, pabbi og börnin sitja um borð og eru að hafa það huggulegt eftir að allir eru farnir, gæða sér á hangikjöti og öli þegar skyndilega er þrumað að þeim „er það ekki hér sem maður fær malt og appelsín?“

Þau hendast upp og sjá þarna skeggjaðan pilt sem þau höfðu aldrei séð áður.   Eftir það var hlegið mikið og skemmtun í ætt við þegar fólk fór á milli bæja í gamla daga og enginn hafði komið vikum saman, sögur sagðar  af náunganum og þar fram eftir götunum. 

Elvar Þór AlfreðssonLöng saga sem þarf að stytta, en drengurinn hafði sumsé stungið af frá Íslandi án nokkurrar ástæðu annarar en að hann þurfti að breyta til og gera eitthvað nýtt, skildi foreldra sína eftir hálf undrandi og stökk til þess að kenna ensku í leikskóla fyrir börn í Suður-Kína.  Hann vann svo þar og hitti ekki nokkurn Íslending mánuðum saman (sem er náttúrulega svakalegt eins og við öll hin sem erum Íslendingar vitum), og stóð sig vel í starfi og var vinsæll meðal kennara, foreldra, barnanna og ungmeyja í Kína. 

Svo kom hann hingað og leið ekki á löngu þar til við vorum búin að stela honum og er hann nú að selja fisk um allar álfur og ekki síður vinsæll.   Hann býr hér um borð hjá okkur og aðstoðar við allskonar verk, keyrir mig í land þegar ég þarf að fara í fæðingu um miðja nótt, hugsar um stúlkurnar, kennir Freyju kínversku,  hjálpar Steindóri í vélarrúminu, skutlar og sækir fólk á flugvöllinn og áfram mætti lengi telja.  Nýjast á afrekalistanum hans er að vera orðinn fyrirtaks kokkur, menntaður á mettíma af Guffa meistara, og nú njótum við hin góðs af. 

Elsku kallinn átti afmæli í gær og eldaði sína eigin afmælismáltíð, lambalundir og sætar kartöflur með fetaosti. 

Mig langar að þakka pabba hans og mömmu fyrir lánið og óska hér með eftir framlenginu.  Hann ber öll merki þess að hafa verið vel upp alinn og er augljóslega af nokkuð góðum genum líka.     

Til hamingju með daginn Elvar Þór Alfreðsson.  Þið hin sem þekkið hann heima á Íslandi,  það er allt í lagi með hann,  hann náttúrulega liggur hér yfir kínverskubókum alla daga og er með allskonar undarlega kippi í andlitinu en annars er hann nokkuð eðlilegur bara, á sér stað í spektrúminu.

Ps.  Við erum búin að vera að kenna honum eitt og annað nýtt. Hann er alveg laus við að vera af landsbyggðinni og hafði til dæmis aldrei sagt orðið sýsla (Þingeyjarsýsla) og fannst alveg drepfyndið að heyra um Svein í Kálfskinni og Starra í Garði.  Ellý Vilhjálms hafði hann heyrt um einhverntímann en aldrei svo að hann þekkti tónlistina.  Honum finnst við afar forn að vera með tilvísanir til ofangreinds. 


Abba misskilningur frá 2006

...tekið úr dagbókinni Steindórs..:

Um helgina vorum við stórfjölskyldan að setja upp nokkur ný IKEA húsgögn hjá okkur (já jafnvel þó maður flytji til Kína þá er IKEA alltaf á endanum besta lendingin fyrir okkur smáborgara).

 

Ég hefði getað borgað 10% af kaupverði fyrir uppsetningu en tímdi því að sjálfsögðu ekki og eyddi frekar heilum laugardegi í að skrúfa saman hillur og borð ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum.  Börnin tóku virkan þátt í þessu og settu saman nokkra hluti alveg að sjálfsdáðum með teikningarnar einar að vopni.

 

Freyja Abba aðdáandi nr 1 hafði að sjálfsögðu Abba á fóninum allan tímann, en við hlustuðum á Mamma Mia líklega 20 sinnum þennan daginn.  

 

Einhverntíma dagsins vorum við stödd inn í gestaherbergi og vorum að setja saman húsgögn og Merlin var til hjálpar.   Hulda var orðin leið á mér og fór að fitja upp á samræðum við Merlin.

 

Hulda: You ever listen to Abba?  

Merlin: Ha?...

Hulda:             Did you ever listen to Abba when you where in Philippines? 

Merlin: Of course, are they in Iceland now? 

Hulda: No, they dont exist anymore but they were Swedish.  

Merlin: Abba og Eina Swedish?  I thought they were Icelandic. 

Hulda: No theyre Swedish,  didnt you ever listen to their songs when you were in Philippines?   Merlin: No, didnt hear them sing at all.

Hulda:  But they are very popular all over the world

Merlin: Abba og Einar?

 

Þegar hingað var komið voru komnar einhverjar vöflur á Huldu, og ég lá í gólfinu máttlaus af hlátri.  Merlin stökk ekki bros á vör og er líklega enn að leita að plötum með Einari og Höbbu.


Falleg innan sem utan

Sumt fólk kemur inn í líf manns og klofar með manni í gegnum skafla og sólardaga á sérstakan hátt.  Árið 1996 að haustlagi hringdi ég á heilsugæslustöðina á Akureyri og bað um tíma í mæðravernd.  Mér var gefinn hann hjá ágætri ljósmóður og var þó búin að heyra að það væri önnur sem væri alveg sérlega dásamleg sem ég ætti að reyna að komast að hjá.  Ég kunni ekki við að breyta en þó fór svo að síðar þurfti ég að breyta tímanum mínum og endaði á því að fara til þeirrar sem síðar varð kær vinkona og lærimeistari. 

Áður hafði ég setið nokkra tíma í hjúkrunarfræði sem tengdust meðgöngu og fæðingu, fósturfræði og þvíumlíku og á afar klínískan hátt kynnst því hvernig bein og liðamót yrðu að vera samkvæmt ákveðnum mælingum til þess að börnin gætu fæðst í heiminn.  En svo kom þessi sama ljósmóðir og talaði eiginlega þvert ofan í þá kennslu sem við höfðum fengið hjá læknunum og sagði okkur að það væru reyndar aðrir og jafnvel ennþá mikilvægari þættir sem skiptu máli til þess að börn kæmust eðlilega og án mikillar aðstoðar í heiminn.  Ég man að okkur þótti þetta nokkuð merkilegt og sérstakt hversu nálgunin var ólík. 

En nokkrum árum síðar sat ég með ljósmóðurinni í gegnum margar mæðraskoðanir og svo á endanum fór svo að hún tók á móti fyrsta barninu mínu af miklum glæsibrag og var alla tíð síðan í guðatölu.    

Svo líða mánuðir og ár á milli þess sem við hittumst, stundum langur tími, stundum stuttur.  Annað barn kemur í heiminn og svo fer að á síðustu stundu, tíu mínútum í lok umsóknarfrests að ég ákveð að verða ljósmóðir og fæ aðstoð og umsögn hjá þessari góðu konu.  Hvatningu og endalaus góð ráð. 

Ég man sérstaklega hvað það var notalegt, og alla tíð síðan, að koma að eldhúsborðinu og fá bakkelsi og mjólk við lítið kerti og finna hlýjuna og friðinn sem streymdi frá henni. 

Og hún aðstoðar mig í ljósmóðurnáminu og er leiðbeinandi og svo við að fá leyfi í Hong Kong og svo hittumst við á ráðstefnum og við allavega aðstæður á Íslandi.

Ég eignast fleiri börn og hún kemur til Hong Kong að hjálpa, ekki síður við að Sögu litlu sem verður himinlifandi að einhver vill sinna henni nú þegar nýtt barn er komið.  

Hún aðstoðar mig í vinnunni og gefur ráð yfir haf og lönd þegar þannig liggur við.

Hún heitir Sigfríður Inga þessi yndislega kona og á alla mína þökk og aðdáun.  Ég hef alls ekki tölu á þvi hversu oft hún hefur aðsoðað mig, sent mér hlýja strauma eða verið praktískur lærimeistari,  fyrirmynd og ég gæti talið endalaust.

 Inga

Það er svo merkilegt hversu lánsamur maður er að finna svona fólk.  Sem aldrei segir stakt orð illt um aðra, er hamingjusamt og laust við leiðindi, alltaf glatt og fullt af orku, metnaðargjarnt og hógvært.  Fallegt innan sem utan.

Ég get ekki sagt nógu mikið um Ingu.  En enn og aftur er hún búin að minna mig á hvað er gott að eiga góða að. 

Góðan föstudag.


Árin 40

Manni ber að gleðjast yfir heilsu og hamingju hvers árs og ég hef engan skilning á því þegar fólk er að pirrast yfir að vera orðið fertugt.  Sem betur fer verður lífið betra með hverju árinu eða að minnsta kosti er hvert skeið skemmtilegt á sinn hátt.

Já og útlitið,  hver getur staðist þennan ómótstæðilega kropp og hrukkulausa andlit?  Endalausar breiður af fegurð og og hárið svo heilbrigt.  Tennurnar aldrei hvítari.

Ég óska hér með eftir tillögum að skemmtunum og þigg öll góð ráð á þessu fertugsári, ég hyggst fagna í hverjum mánuði og svona aðeins á hverjum degi.

Lifi æskan (og ungmennafélagið Snörtur sem bjó til andann og hógværðina í mig).

coupleincar


Racing the Planet - Iceland

Góða fólk.  Í haust, í ágúst nánar tiltekið, verður haldið á vegum Racing the Planet fyrirtækisins, sem er hér í Hong Kong, 250 km maraþon á Íslandi.  Hlaupið er 5 daga í röð og keppendur gista í tjöldum yfir nóttina.  50, 50,50, 80 og 20 km á dag. 

94026_iceland_logo_2.jpg

Samtökin hafa haldið þessi hlaup í nokkur ár núna og eyðimerkurhlaupin þeirra eru orðin heimsfræg.  Hér í Hong Kong eru margir sem ætla að koma til Íslands og taka þátt í þessu og hlaupið er fyrir löngu orðið fullt, með u.þ.b. 350 þátttakendur.  

 

En nú vantar okkur að finna Íslendinga í hlaupið!  Þó að listinn sé fullur og ekki hægt að skrá sig, þá finnst mér og þeim sem að þessu standa öllum leiðinlegt að ekki sé neinn Íslendingur skráður í hlaupið og hér með auglýsi ég því eftir þátttakendum.  Ef einhver hefur áhuga, endilega sendið mér tölvupóst, huldagar@me.com  og því verður komið áleiðis, og viðkomandi potað efst á biðlistann.  Það er alveg ótækt að hafa ekki okkar fulltrúa, eins og augljóst er.  

Fyrir þá sem vilja vita meira, þá er hér linkur:  

 www.4deserts.com/beyond/iceland

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband