...ekki minningargrein

Ég stend í stórum sal og horfi yfir þessa sléttu af skóla sem er fyrir framan mig.  Krakka út um allt og kennara á labbi og allir virðast vera að fara eitthvað eða hafa verkefni nú þegar.  Það er dagur tvö í skólanum og mér fannst jafn gaman í strætó á leið í skólann en í gær en jafn skrítið að ganga inn í bygginguna. Hvert á ég að fara?  Hvar get ég sest?  Mitt venjulega sæmilega sjálfstraust er alveg týnt og tröllum gefið. 

Mér verður litið upp og skyndilega er eins og lítið ljós lifni í fjarska, þarna hinu megin í salnum.  Og ég finn strax léttinn.  Í minningunni var bara svona lítill engill á ferð.  Og ímyndið ykkur svona cheezy auglýsingu þar sem tveir aðilar hlaupa hægt í fangið á hvorum öðrum.  Þannig fann ég Höbbu mína þarna í MH. 

Í ljós kom að við vorum í sömu sporum.  Og síðan þá er bara líklega ekki dagur sem hún er ekki búin að vera partur af mínu lífi, ýmist með því að vera einmitt þar við hlið mér eða svona sem einhver eind sem er klemmd við mig.

Við gengum í gegnum svo marga súra og sæta kafla á þessum menntaskólaárum og síðar og hún er klárlega ein af þessum konum sem alltaf lýstu skært á kaflaskilum, sem og beinum og bugðóttum vegum. 

Þegar við bjuggum saman í eins herbegis íbúðinni í Grænuhlíð áttum við ákveðinn prime-tíma, það þarf alveg sérstakt fólk til að geta lifað svona eins og við gerðum held ég og kanski var það að hún var frá Kirkjubæjarklaustri og ég frá Kópaskeri sem leyfði okkur að komast í gegnum þennan vetur án þess að klóra úr hvorri annari augun.  Meira að segja man ég bara eftir einu rifrildi.  Fyrir utan inniköttinn sem olli talsverðu fjaðrafoki.  Tónlistin sem við spiluðum í fermingargræjunum, svart hvíta sjónvarpið, Blues Brothers plaggötin.  Það eru ekkert rosalega margir sem ég get verið alveg ég sjálf innan um, en þarna er ein. 

Það er ekkert hægt að byrja að tala um allar okkar góðu stundir því þær eru svo margar.  Og eftir því sem árin líða verður mér bara betur og betur ljóst hversu mikilvægt er að eiga svona máttarstólpa í kring um sig.  Sagt er að maður verði feitur ef maður á marga feita vini, og þá hlýtur maður líka að verða skemmtilegur og klár og fallegur ef maður á þannig vini.   Án efa ein af mínum stærstu fyrirmyndum og næstum því systir mín.  Knús og kossar til þín frábærasta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er alveg hárrétt hjá þér Hulda mín, það er svo mikilvægt að hafa stuðning góðra vina og fjölskyldu, það er eiginlega alveg ómetanlegt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2013 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband