Dýrin í síðustu færslu

Eftir að ég viðraði áhuga minn á að taka þátt í hlaupinu Racing the Planet á Íslandi sem á að halda í ágúst, létu margir í ljósi áhyggjur sínar og vantrú á geðheilsu minni.  Það er líka alveg eðlilegt, ég er bara kelling með fullt af börnum í pilsfaldinum, marguppskorin hné, offeitar tær og örlítið rúnnaðan afturenda líka.  Það er heimskulegt að leggja á líkamann að fara 250 kílómetra í svona rykk og óþarfi og týpískt fyrir nútímamanninn við fertugsaldurinn að finna sér eitthvað í þessum dúr, ýkt og óheilbrigt.

Þetta eru allt réttmæt rök en nú er ég bara orðin alveg ómöguleg af löngun að fara í þessa ansans keppni, mér finnst ótækt að það sé enginn Íslendingur skráður og þetta er nú fertugsárið mitt og ég ætti að vera að gera eitthvað ógurlega skemmtilegt, jafnvel meira en önnur ár. 

Eftir mótbárur frá einstaka góðvilja fjölskyldumeðlimum og vinum, augljóslega vel meintum með heilsu mína fyrir augum, ákvað ég því að leggja fyrr mig smá próf.   Standist ég prófin, þá skrái ég mig í keppnina.

Racing the planet Iceland

Mun takmarkið eingöngu vera, eins og fyrir 20% þeirra sem eru að taka þátt, að komast á leiðarenda.  Ég mun ekki hlaupa, sem þýðir að þetta mun taka mig einhvers staðar í kringum 70 klukkutíma líklega. 

Fari svo að ég láti slag standa og skrá mig, þarf ég einvala stuðningslið, jafnvel frá ykkur sem finnst þetta fáránleg hugmynd. 

Mér er nokkuð sama hvort þeirra vann, hérinn eða skjaldbakan, en þau komust allavega bæði yfir marklínuna á endanum, hvort á sinn hátt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband