Lögreglan á Íslandi - takk fyrir vel unnin störf

Þar sem ég keyrði Sundabrautina um daginn var ég að hlusta á útvarpið og var þá var í útvarpinu Stefán Eiríksson ríkislögreglustjóri, í viðtali í einhverjum dægurmálaþættinum.  Fyrir utan að njóta loksins nokkurra mínútna þar sem loksins var ekki verið að fjalla um stjórnmál í útvarpinu, gladdist ég mjög að heyra í þessum ágæta manni því hann hafði margt gott fram að færa. 

Örstutt áður en lengra er haldið:  Íslendingar, þvílíkt rugl sem er í gangi í þessu landi varðandi stjórnmál.  Þetta er eitt fámennasta ríki heims en hér ríkir endalaus styrjöld og óreiða þegar kemur að því að taka skynsamlegar ákvarðanir og púðrinu sem er eytt í þessi rifrildi, eiginhagsmuni og skítkast í aðra tekur alla orku frá því að gera það sem er best fyrir landið og landann.  Og ekki nóg með að það sé pólítík varðandi þingið og ríkisstrjórnina heldur loga einnig heilu byggðarlögin og skiptast í fylkingar eftir því hvar viðkomandi situr hverju sinni í pólítísku sæti.  Sem síðar breytist jafnvel og sá sem var kjörinn á sinn stað er skyndilega kominn í hina fylkinguna – en situr enn!  Ég á ekki til orð yfir þessu rugli og mér finnst jafn ótrúlegt að þessu sé ekki breytt hið snarasta, og það að Obama sé ekki búinn að breyta byssuleyfislögum Bandaríkjamanna.

Nóg um það.  Ég er að skrifa þessi orð til stuðnings lögreglunni á Íslandi, lögreglufólkinu okkar.  Ég hef orðið vör við það reglulega í fjölmiðlum að lögreglufólkið er ósátt við bæði laun og starfsumhverfi og öryggi sitt í starfi.  Það að það eru ekki fleiri lögreglumenn og konur á vakt hverju sinni setur fólkið í þá aðstöðu að þurfa að forgangsraða verkefnum á þann hátt að bæði öryggi landans og lögreglufólksins er ógnað stundum.  Og glæpamennirnir vita líklega sem rétt er að það er ekki lögreglumaður á hverju horni og því er auðveldara að fremja glæpi, eða öllu heldur, ólíklegara að nást við iðju sína. 

Þar sem ég bý í Hong Kong eru frekar margir lögreglumenn á hvern landsmann og glæpamaðurinn ég hef löngu lært að brjóta ekki lögin viljandi fyrir vikið.  Það sem ég á við hér er nú „bara“ að keyra hratt eða fara yfir óbrotna línu – það er langt síðan ég áttaði mig á því að ef ég gerði slíkt þá væri annað hvort myndavél eða lögreglumaður á hjóli sem myndi sjá þetta og ég myndi gjalda fyrir.  Þetta er ákveðið uppeldi og tók smá tíma en lærðist samt fljótt.   

Í hvert sinn sem árekstur eða glæpir eiga sér stað þá sér maður fjöldann allan af lögreglufólki flykkjast á staðinn og sjúkrabílar og lögreglubílar eru komnir innan nokkurra mínútna.  Og þá kemur að því að nota haus og hendur og þar stendur hnífurinn í kúnni.  Ég hef orðið vitni að því nokkrum sinnum, stundum við mjög alvarlegar aðstæður og stundum við mildari, að þegar allt þetta lið mætir á staðinn þá eru góð samskipti og það sem við köllum sjálfsögð skynsemi oft verulega ábótavant.  Það er eins og þetta fólk sé alls ekki þjálfað til að bregðast við á mannlegan hátt sem á sama tíma býður upp á að vera úrræðagóður og leysa vandann á staðnum hratt og vel.  Allskonar formsatriði verða aðalmálið, og hlutirnir eru gerðir samkvæmt einhverjum formúlum sem stundum eiga við en oft alls ekki.   

Þar er nú ástæða þess að ég skrifa þessi orð.  Ég hef svo oft hugsað um hvað Íslendingar eru heppnir að eiga svona gott lið lögreglufólks sem raun ber vitni.  Að hlusta á Stefán lögreglustjóra tala og lýsa því starfinu, hugsjóninni og því hvernig tekið er á málum hér var virkilega þægilegt og minnti mig á hversu gott landinn hefur það.   Þó svo að hér séu fáir á vakt hverju sinni á má allavega oftast gera ráð fyrir að þegar lögreglan mætir á staðinn þá er þetta úrræðagott fólk sem hefur samúð og skynsemi og sinnir verkefninu af alúð og getu.  Nærgætni og virðing fyrir mannfólkinu er í fyrirrúmi og á sama tíma gengur lögreglufólkið hratt og örugglega til verks og í samvinnu við sjúkraflutningafólk og heilbrigðisstarfsfólk gerir okkur það kleift að vera áhyggjulítil ef svo illa vildi til að við þyrftum á slíkri þjónustu að halda.  Við erum í góðum höndum og fáum bestu mögulegu þjónustu.   Raunveruleg umhyggja og virðing fyrir skjólstæðingunum er fyrir hendi. 

Og þessi orð eiga við um hinar stéttirnar líka, sjúkraflutningafólkið okkar, hjúkrunarfræðingana, lækna, ljósmæður, sjúkraliða og alla þá sem koma að þessum málum hér á Íslandi.  Við erum einstaklega rík af góðu fólki (sem eyðir ekki tímanum í pólítískt þras heldur er raunverulega að vinna að velferð okkar). 

Mig langar að þakka  öllu þessu góða fólki fyrir að leyfa mér að keyra örugg um göturnar og sofna áhyggjulaus á kvöldin, vitandi að ef ég þarf á þjónustu að halda þá er hún góð, veitt faglega og af heilindum.   Á sama tíma vil ég skora á stjórnvöld hér til þess að tryggja að þetta fólk fái stuðning til að vinna vinnuna sína vel, bæði með viðeigandi launum og með því að hafa nægilega marga á vakt hverju sinni til að öllum verkefnum geti verið sinnt eins og þörf er á. 

Vonandi verður þá þannig að við öll sem mögulega ætlum að fremja glæpi hættum snarlega við að gera það, vitandi að það er lögreglumaður á hverju horni, - en ef einhverjum verður á og stórglæpur eða slys á sér stað, að á staðinn haldi áfram að mæta frábært lögreglulið sem leysir vandann hratt og örugglega.

Áfram lögregla Íslands.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og hafðu bestu þökk fyrir góðan pistil.

Lesandi (IP-tala skráð) 19.12.2012 kl. 05:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband