Árin 40
23.1.2013 | 15:24
Manni ber að gleðjast yfir heilsu og hamingju hvers árs og ég hef engan skilning á því þegar fólk er að pirrast yfir að vera orðið fertugt. Sem betur fer verður lífið betra með hverju árinu eða að minnsta kosti er hvert skeið skemmtilegt á sinn hátt.
Já og útlitið, hver getur staðist þennan ómótstæðilega kropp og hrukkulausa andlit? Endalausar breiður af fegurð og og hárið svo heilbrigt. Tennurnar aldrei hvítari.
Ég óska hér með eftir tillögum að skemmtunum og þigg öll góð ráð á þessu fertugsári, ég hyggst fagna í hverjum mánuði og svona aðeins á hverjum degi.
Lifi æskan (og ungmennafélagið Snörtur sem bjó til andann og hógværðina í mig).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Racing the Planet - Iceland
21.1.2013 | 14:23
Góða fólk. Í haust, í ágúst nánar tiltekið, verður haldið á vegum Racing the Planet fyrirtækisins, sem er hér í Hong Kong, 250 km maraþon á Íslandi. Hlaupið er 5 daga í röð og keppendur gista í tjöldum yfir nóttina. 50, 50,50, 80 og 20 km á dag.
Samtökin hafa haldið þessi hlaup í nokkur ár núna og eyðimerkurhlaupin þeirra eru orðin heimsfræg. Hér í Hong Kong eru margir sem ætla að koma til Íslands og taka þátt í þessu og hlaupið er fyrir löngu orðið fullt, með u.þ.b. 350 þátttakendur.
En nú vantar okkur að finna Íslendinga í hlaupið! Þó að listinn sé fullur og ekki hægt að skrá sig, þá finnst mér og þeim sem að þessu standa öllum leiðinlegt að ekki sé neinn Íslendingur skráður í hlaupið og hér með auglýsi ég því eftir þátttakendum. Ef einhver hefur áhuga, endilega sendið mér tölvupóst, huldagar@me.com og því verður komið áleiðis, og viðkomandi potað efst á biðlistann. Það er alveg ótækt að hafa ekki okkar fulltrúa, eins og augljóst er.
Fyrir þá sem vilja vita meira, þá er hér linkur:
www.4deserts.com/beyond/iceland
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvar er heima?
20.1.2013 | 06:15
Halló aftur, nú er næstum liðinn mánuður síðan ég settist niður og skrifaði síðast og er ástæðan ferðalög og sú að það tekur tíma að komast aftur inn í venjulega rútínu og aðlaga líkamsklukkuna.
Nú erum við búin að búa í næstum 12 ár hér í Hong Kong og ég man ekki alveg hvenær það var að þetta varð "heima". Ísland er ennþá "heima" á margan hátt og líklega er ég nú að sættast á að heima eru margir staðir. Einnig innan Íslands.
Það góða við þetta er að á hvorn staðinn sem ég kem, er tilfinningin góð. Núna í síðustu ferð til Íslands var ég örlítið smeyk um að það yrði erfitt að koma aftur til Hong Kong og það er satt, það var ekki alveg eins notalegt og allaf að lenda - og svo tók nokkra daga að ná úr sér ferðahrollinum.
Svo fór ég smátt og smátt inn í rútínuna og þegar ég var komin á skógarslóðann með Arthúr og farin að njóta morgungöngutúranna, hitta systkinin og finna taktinn, þá fann ég aftur að heima er best. Og í þessu augnabliki er heima hér.
Næst þegar ég kem til Íslands er ég viss um að það verður aftur heima. Þegar ég keyri aftur Núpasveitina, veit ég alveg fyrir víst að það verður tilfinning um að koma heim líka.
Mikið held ég að það sé voðalegt að finnast maður eiga hvergi heima.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Leitin að minningum
24.12.2012 | 01:28
Í mínum huga eru það mikil forréttindi að hafa alist upp úti á landi. Minningarnar úr æsku frá litlu sjávarplássi eru endalausar og þó ef til vill hafi ég ekki gert mér grein fyrir því á þeim tíma þá veit ég nú að þær eru ómetanlegar. Eftir því sem ég eldist og þroskast geri ég mér líka grein fyrir því að svo margt sem ég geri í núinu er hálfgerð endurgerð eða leit að gömlum minningum og upplifunum. Skiljist á jákvæðan hátt, auðvitað er eðlilegt að vilja endurtaka góða hluti í hófi, ég meina að sjálfsögðu ekki að maður geti ekki notið augnabliksins.
Kvöldinu í kvöld eyddi ég með frábæru fólki sem ég þarf aðeins að fjalla um síðar því það var merkileg saga sem mér var sögð í tilefni fæðingar góðrar konu nokkrum áratugum fyrr. En klukkan 22 hófust síðan tónleikar sem ég hef undanfarin ár þurft að hlusta á í gegnum veraldarvefinn og Bylgjuna. Og að þessu sinni var ég nú stödd á Íslandi svo ég gat notið þeirra af 7unda bekk.
Í minningunni kom Bubbi Morthens á hverju ári á Kópasker og hélt tónleika. Það var alltaf gott veður og þetta voru alltaf frábærir tónleikar. Það hafa líklega verið ca 40 manns á þeim í hvert sinn.
Með árunum, eftir því sem Bubbi er meira sjáan- og heyranlegur, hef ég haft aðeins minni áhuga á að hlusta á hann því hann blaðrar oft allskonar vitleysu sem betur væri ósögð. En það verður ekki frá honum tekið að hann er einlægur og hann er alveg frábær trúbador. Ef hann myndi segja aðeins færri og styttri sögur á milli laga væru tónleikar með honum meiriháttar.
Og í kvöld sat ég á 7unda bekk og fékk að njóta einstakra tónleika með Bubba Morthens. Fyrir utan smá útúrdúra var lagavalið vel balanserað, góð samsetning af gömlu og nýju, góðar sögur í textunum og tilbreyting og hann söng betur en nokkru sinni. Ekkert mix og fix, bara Bubbi og gítarinn á sviðinu, frábært frá A til Ö. Hann á svo mikið eftir, ég er alveg ósammála þeim sem segja að hans tími sé liðinn. Hann er bara bestur í þessu formi, ekki í útvarpi.
Ég er ekki frá því að ég hafi endurlifað stemminguna frá því í Gryfunni í Grunnskólanum á Kópaskeri í gamla daga, ég sat alveg dolfallin þarna á 7unda bekknum.
Bubbi sendir fólk heim með fallegar hugsanir og boðar gott og fallegt erindi. Ég er viss um að flestir sem sátu í Hörpunni í kvöld voru glaðir að hafa farið að upplifa þessa tónleika. Því þetta var ekki bara hlustun, miklu meira. Takk fyrir Bubbi Morthens, þú kryddar og fyllir vel út í þennan heim. Og takk fyrir að hjálpa mér við að finna enn eina góða minningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kærar þakkir, Veiðifélagið
23.12.2012 | 11:52
Við steiktum þessa afbragðsgóðu gæs í gær á meðan við leituðum að jólatré. Ég hef aldrei áður steikt gæs og var talsvert sveitt af stressi á meðan jólatrésleitinni stóð því ég hafði áhyggjur af því að væntingar tengdapabba sem er mikill matmaður væru miklar varðandi gæsina en hún myndi svo ekki standa undir þessum sömu væntingum. Var ég búin að lesa mér til að það væri nokkuð algengt að kenna aldri gæsarinnar um ef hún væri seig og var ég tilbúin til að notfæra mér þessa afsökun.
En Veiðifélgið bjargaði deginum, kærar þakkir!
http://veidifelagid.blog.is/blog/veidifelagid/entry/377835/
Ég mæli hér með sterklega með því að fólk noti þessa einföldu og góðu uppskrift þeirra félaga. Gleðileg jól, Veiðifélagar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jólatré
23.12.2012 | 11:39
Í gær lögðum við fjölskyldan eina brekku undir dekk og keyrðum hér niður Dalveginn. Þar var, 500 metrum frá húsinu okkar, fyrsta jólatréssalan sem okkur datt í hug að fara í. Skemmst er frá að segja að þar voru engin tré sem stóðust mínar væntingar um frábær jólatré, þau voru öll heldur gisin að sjá sem voru í boði.
En til staðar voru félagar úr Karlakór Kópavogs og voru í besta stuði þó þeir fengjust ekki til að syngja fyrir okkur þá og þar.
Enn og aftur er ég minnt á hversu notalegt landið og landinn er. Allir kallarnir voru bráðhressir og tilbúnir að aðstoða í hvívetna við að reyna að laga hið miður fallega tré sem valið var og þeir sögðu okkur frá síðustu tónleikum sínum sem heppnuðust vel.
Einnig gáfu þeir okkur ókeypis miða á vortónleika kórsins í maí.
Það má með sanni segja að þessi ferð var til mikillar gleði fyrir fjölskylduna. Sannaðist í henni að það er ekki endilega hvað heldur hvernig, skiptir máli. Mannleg samskipti kæru vinir, svo mikils virði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég mun aldrei venjast því
21.12.2012 | 18:48
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Notalegheit í fyrirrúmi
21.12.2012 | 07:24
Fátt jafnast á við notalegheit við kertaljós á dimmum vetri. Nú erum við alveg að verða búin að koma okkur fyrir í húsinu og hönnunarleg smáatriði að verða komin á hreint. Kertin spila þar stórt hlutverk:
Bekkurinn við eldhúsborðið sem minnir mig á Laxárdalsdaga slær líka alltaf í gegn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góður maður
20.12.2012 | 11:58
Ég hef verið svo lánsöm í gegnum árin að hitta fyrir og verða samferða mörgum góðum mönnum og konum. Sumir halda áfram að vera innan radíuss en svo eru margir sem maður hittir ekki árum saman.
Ég hef oft hugsað til eins manns sem var mér ákaflega góður þegar ég var í MH og átti svo sannarlega ekki mínar bestu stundir annars - og í leit minni að hamingju þar innan veggja skólans sá ég þann kost vænstan að reyna að klára námið á sem skemmstum tíma, svo leiðinlegt þótti mér í þessum skóla. Eitt af skrefunum í þá átt var að skrá mig í kvöldskóla til þess að ná að klára fleiri áfanga og fyrir valinu varð að læra rússnesku hjá Ingibjörgu Hafstað sem tók mig að sér þó önnin væri hafin og reglum skólans samkvæmt var eiginlega ekki leyfilegt að vera í kvöld og dagskóla.
Fljótt kom í ljós að hinir nemendurnir voru vel á veg komnir og stóðu sig öll afar vel í þessum frábæra rússneskuáfanga, sem var án efa einn sá skemmtilegasti sem ég tók í skólanum. Þarna var raunverulega fólk sem var að læra af því að það langaði til þess. Og til þess að ég héldi dampi varð ég að fá aðstoð. Þar kom nú þessi ágæti maður og tók mig að sér, og heitir hann Loftur. Ég er ekki viss um föðurnafnið, og ef þú lest þetta kæri Loftur, endilega láttu mig vita, því ég vil svo sannarlega setja það í minnið.
Í gær var ég þeirrar gæfu aðnjótandi, eftir 20 ár eða svo að sjá og hitta Loft á ný. Gleði mín var ósvikin því þarna er á ferðinni mikið eðalmenni, afbragðsvitur og skemmtilegur og góður innúr og útúr.
Þessa önn sá hann um að koma mér áfram í rússneskunni og ekki nóg með það, heldur útvegaði hann mér vinnu hjá Skeljungi þar sem við stóðum vaktina saman stundum í litlu stöðinni í Skógarhlíð með góðum köllum sem kenndu mér að skipta um olíu, strekkja viftureimar og annað, auk þess sem þeir létu aldrei neinn fara án þess að þvo framrúðuna. En þetta var eðalstöð og er enn, með alveg sérstöku andrúmslofti og fastakúnnar sem komu í kaffi aftur og aftur.
Ég mun aldrei gleyma hversu skemmtilegt allt í einu varð að vera í MH, meðal annars fyrir þær sakir að Loftur og rússneskufólkið kryddaði tilveruna mjög.
Loftur, frábært að hitta þig og eins og þú sagðir nú alltaf sjálfur um Toyotuna þína, að sjá að þú ert still going strong.
Hefst hér með umfjöllun um gott samferðafólk, mikið er gaman að rifja upp. Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ýmislegt jákvætt
19.12.2012 | 09:53
Það er svo gott að koma heim og fá og sjá og finna allt það góða sem Ísland hefur upp á að bjóða. Meðal annars, síðustu daga:
1. Fallegt veður og skyggni þegar sólin er að setjast.
2. Ákaflega hjálpsamt fólk. Þegar maður kemur inn í búðir og þjónustustaði þá er fólkið áhugasamt um að hjálpa, raunverulegar lausnir í boði.
3. Diddú, Ragga Gísla og Gissur Páll.
4. Rás eitt.
5. Fallegur miðbærinn með frábærum veitingastöðum.
6. Tjörnin.
7. Kormákur og Skjöldur, nú á ég glaðari mann.
8. Arineldur.
9. Mjólk, smjör og skyr.
10. Traust og fámenns-samfélags-stemming.
Fyrir utan þakklæti yfir að hitta yndislega fjölskyldu og vini, þá er alltaf jafn gott að vera minntur á hversu gott landið okkar er. Ég man sem barn þegar ég velti því fyrir mér hvernig í ósköpunum stæði á því að í þessum risastóra heimi væri ég fædd í þessu pínulitla þorpi, Kópaskeri, á þessu pínulitla landi, - mér fannst þetta svo sérstakt. Ég var samt glöð yfir því þá og enn glaðari nú.
Kveðja undan teppi og kaffibolli í hönd.
H
Ps. Má ég mæla með Ríó Tríó jólaplötunni, hún er jafn góð og Ellý og Vilhjálmur, langt framar öllu nýlegu að mínu mati.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)