hún
8.2.2013 | 16:59
Hann vissi nákvæmlega hvað hún var að hugsa þegar hann gekk inn. Innst inni var það honum ljóst frá degi eitt að hann myndi aldrei endast i þessu heimilislífi. Hann var einfari sem átti ekki samleið með fólki sem átti svona venjulega daga.
Hluti af honum vildi þetta samt. Hann sá fyrir sér sína eigin fjölskyldu sem hélt saman í gegnum þykkt og þunnt og alveg þar til mamma hans dó mætti í sunnudagssteikina í hverri einustu viku, að minnsta kosti þau sem voru á svæðinu hverju sinni. Þessar stundir voru honum mikilvægar, jafnvel eftir að hann fullorðnaðist.
Samt fann hann strax að þetta var ekki í eðli hans að fylgja þessari rútínu. Þau áttu engan vegin saman. Hann gat þó ekki látið hana sleppa framhjá sér og þegar hann fann að hún bauð upp á notalegt heimili sem hann gat valsað út og inn af eftir hentugleika þá fannst honum hann verða að prófa.
Hann hafði eiginlega aldrei hitt neina eins og hana.
Nú sat hún þarna og horfði á hann og hann fann óttann í henni. Hann vissi að hann yrði að fara bráðum, láta þessu lokið. Hann fann að hún fann. Hún var ekki vitlaus. Þarna sem hún sat horfði hann á hana í augnablik og brosti. Hún var falleg og bar aldurinn vel. Hún gerði litlar kröfur til hans og opnaði sína veröld upp á gátt fyrir honum og leyfði honum að koma inn í litlum skrefum, sem hann þáði. Smám saman fóru þau sem voru uppkomin, börnin hans, að koma í heimsókn. Heimlið hennar varð heimilið þeirra nokkrum sinnum í viku.
Það var föstudagskvöld. Hún var vön að koma við í Ríkinu á heimleiðinni og kaupa vínflösku sem hún drakk ein á meðan hann sötraði kaffið sitt. Honum féll það vel og hún var skemmtilegri þegar hún var búin að fá sér aðeins vín. Þá hvarf óttinn og hún slappaði af. Nú stóð flaskan óopnuð á borðinu.
Hann kastaði lyklunum á eldhúsbekkinn og brosti til hennar. Hann vissi nákvæmlega hvað hún var að hugsa og hann vissi líka nákvæmlega hvað myndi gerast næst.
Athugasemdir
Vá hvað þú skrifar vel Hulda mín og kannt svo sannarlega að gera hlutina spennandi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.2.2013 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.