"ég var látin vera..."
30.1.2013 | 23:19
Þegar ég var með tvö börn og mætti í mömmuklúbba fyrir nokkrum árum var algengt að heyra fæðingarsögur. Það var talsvert oft sem ég heyrði eitthvað í þessa veruna: "ég var látin vera í fæðingu í 24 tíma" eða eitthvað þvíumlíkt. Einhver var látin eitthvað.
Þegar maður fer í gegnum fæðingarsögur með konum þá er oft mjög sorglegt að heyra upplifun þeirra og stundum það sem kalla má umhyggjuleysi. Sigfríður Inga ljósmóðir hefur mikið rannsakað og skrifað um þetta og þetta getur verið mjög stór áhrifaþáttur í því að konur sem jafnvel hafa farið í gegnum fullkomlega eðlilegar fæðingar, finnst það samt hafa verið vond upplifun.
Og það er margt sem spilar inn í þarna, auðvitað eru margar konur sem sjálfar eru hreinlega þannig stemmdar að þær eru strax í áhættuhópi um að enda með erfiða fæðingarreynslu, þær eru ekki vel undirbúnar eða tilbúnar til þess að takast á við fæðinguna og ætlast til þess að ljósmæðurnar og læknarnir "sjái um þær", samanber tilvísunina hér að ofan.
Ég er að skrifa þetta til þess að minna okkur öll á hversu mikilvægt er að takast á við þetta verkefni saman; ég vil gjarna halda að við ljósmæður allar og fæðingarlæknarnir á Íslandi séum að vinna vinnuna okkar af alúð og séum bæði góð við konurnar okkar og fagleg, en lengi má gott bæta og líklega er kærleikurinn aldrei ofmetinn þegar kemur að konu í fæðingu. Jafnvel þó fæðingin sé erfið og löng, og stundum endi með inngripum og aðstoð, - með kærleik og umhyggju er hægt að sinna þessum konum þannig að þær upplifi þetta ekki á neikvæðan hátt. Kanski gleymum við stundum bara að setjast niður og halda í hendina á fólki á þeirra eigin forsendum.
Á sama hátt er mikilvægt fyrir allar konur sem eru að eignast börn að hugsa aðeins til þess þegar þær eru að fara að fæða, að enginn mun "láta þær" gera neitt. Fæðing er eitthvað sem óhjákvæmilga mun gerast í lok meðgöngunnar og það er mikilvægt að axla þá ábyrgð að vera aðeins undirbúin og búin að búa til hugsanaferli, ef ekki þegar til staðar, sem aðstoða viðkomandi þegar að þessu kemur. Það hjálpar ekkert til að hugsa sjálfan sig sem fórnarlamb.
LJósmæður og læknar geta ekki unnið kraftaverk og sumar fæðingar eru langar, aðrar stuttar, sumar erfiðar og aðrar auðveldari. Þáttur hverrar konu í eigin ferli er afar stór og mikilvægt að þær sjálfar hugsi alltaf fyrirfram að þær munu fá aðstoð og faglega hugsað fyrir öryggi, andlegum og likamlegum þáttum - en þær sjálfar þurfa að vera virkar í ferlinu og skilja að enginn hefur nokkra löngun til að láta þær þjást, vera afskiptalausar eða "láta þær" eitt eða neitt.
Með þessum orðum vil ég bara minna okkur allar á hversu samskiptin, umhyggjan og það að vera í góðu jafnvægi sjálfur er mikilvægt, hvort sem þú ert sú sem ert að fara að fæða eða sú/sá sem ætlar að sinna konunni í fæðingunni.
Athugasemdir
Þetta er mjög áhugaverð pæling. Ég hef hugsað mjög mikið um fæðingar og upplifun af þeim eftir að hafa sjálf upplifað þrjár mjög svo ólíkar fæðingar.
Sú fyrsta var þannig að ég upplifði mig gjörsamlega óhæfa til að fæða börn. Mjög svo undarleg framkoma ljósmóðurinnar var ekki beinlínis til að draga úr þeirri tilfinningu. Ég var heillengi að jafna mig á eftir og í raun gerði ég það ekki almennilega fyrr en ég eignaðist þriðja barnið.
Önnur fæðingin var allt öðruvísi, ég var með yndislegan nema hjá mér allan tímann, frá gangsetningu og þar til barnið var komið í heiminn en öll umgjörðin var frekar vélræn, snúrur og monitor, dripp og drasl um allt. Fyrir utan það að ég var svo skíthrædd eftir fyrri reynslu að ég var viss um að eitthvað ætti eftir að fara úrskeiðis - sem það gerði ekki.
Ég er á því að það skipti öllu máli hvernig sambandi maður nær við þá sem aðstoða mann í fæðingu.
Það fann ég mjög greinilega þegar ég fæddi þriðja barnið. Með ljósmóður sem ég var búin að hitta margoft á meðgöngunni og hafði oft komið heim til mín. Það var enginn ókunnugur sem maður þurfti að kynnast á staðnum heldur bara fólk sem ég treysti og í umhverfi sem ég þekkti mjög vel.
Munurinn var ólýsanlegur og eins og ég sagði þá varð þessi upplifun til þess að ég jafnaði mig á fyrri reynslu og fann að það sem gerðist þar var ekki út af mínu reynsluleysi og vanhæfi heldur út af allt öðrum hlutum.
Petí (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 23:47
Mikið er ég sammála þér þarna Petí, það er talsvert skrifað um þetta og bæði það sem kallast umhyggja, og hins vegar umhyggjuleysi. Og fyrir konur sem upplifa annað hvort sterkt (þ.e. ekki "bara" einhvers staðar í miðjunni), þá er það margsannað að það hefur mjög mikil áhrif á þær. Þess vegna er svo ofsalega mikilvægt fyrir okkur öll að passa upp á að veita þessa umhyggju sem er svo mikilvæg í fæðingunni.
Einn þátturinn sem getur skipt alveg óskaplega miklu máli í þessu samhengi er samfelld þjónusta eins og þú lýsir þarna. Þarna myndast traust og samband á milli konunnar og ljósmóðurinnar sem gerir það að verkum að miklu minni líkur eru á að þetta umhyggjuleysi og aðrir þættir eins og samskipti sem ekki eru í lagi, vöntun á útskýringum, persónulegri nálgun o.þ.h. sé upplifað.
Eins og þú lýsir líka er svo vont og sárt að þurfa að ganga í gegnum þetta ferli án þess að finna stuðning og með þá tilfinningu að þú sért ekki að að standa þig.
Það eru konur sem svo innilega eiga mína samúð og það er svo sárt að heyra lýsingar þeirra af fæðingunum. Þess vegna er mér mikið hjartans mál að reyna að ýta undir alla þá umræðu sem hægt er, sem lætur alla aðila standa saman í þessu verkefni. Og ef hlutirnir eru ekki að virka, að láta það ekki yfir sig ganga, en reyna að finna lausnir í samskiptunum, benda á og tala um það sem þarf að tala um. Annars er svo óþægilegt að sitja með þessa reynslu.
Stundum eru konur bara hreinlega óheppnar með þá þjónustu sem þær fá. Auðvitað er staðreynd að ekki allt starfsfólk er eins og sumir eru betri fagmenn en aðrir líka. Það sem ég vildi kanski fyrst og fremst benda á með upphafsorðunum er sú staðreynd að það er svo mikilvægt að vinna þetta saman, en ekki vera bara í hlutverki þess sem þiggur. Sú kona sem getur á ábyrgan hátt tekið þátt í sinni eigin umönnun á meiri líkur á að fá þá þjónustu sem hún vill.
Það er frábært að heyra að á endanum hafi góð reynsla sigrað þá verri, og takk fyrir að deila þessu.
Hulda Þórey Garðarsdóttir, 31.1.2013 kl. 10:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.