Að klára sterkt

Í tilraun til þess að julla einhverss staðar mörgum mílum aftar,  í kjölfar Strúllunar,  förum við elstu þrjú systkinin og Steindór nú í hálfmaraþon í Kota Kinabalu í Borneó. 

Hún fer að sjálfsögðu heilt maraþon og er búin að vera mjög dugleg í þjálfuninni.  

 

Í minni tilraun til þess að undirbúa mig tók ég allskonar crash kúrsa hér á veraldarvefnum síðustu daga:  Hvernig æfir maður fyrir maraþon á viku?  Last minute tips for marathons og þannig greinar.  Og hringdi í Ross þjálfarann sem er ekki með neina kímnigáfu og spurði "hérna Ross, hvernig er það nú er maraþon um næstu helgi..." og hann svarar um hæl "nei, ég mun ekki segja þér hvernig þú átt að bjarga málum fyrir það.  Það áttir þú að gera fyrir löngu.  Eins og fyrir síðasta hlaup, og þarsíðasta".  

Þarmeð fór það bjargráð.  Hulda Bekka Strúlla

 

Þá snéri ég mér að tónlistinni.  AuPair stúlkan okkar hún Elvar var við það að andast við þá tilraun.  Hafði hann aldrei heyrt minnst á Dúmbó og Steina, hvað þá BG og Ingibjörgu eða hljómsveitina Pelican.  Og taldi að lagið um sautjánda júní kæmi mér ekki langt.  

 

Við enn frekari eftirgrennslan varð á vegi mínum ágæt grein úr runnersworld sem einhver deildi á Facebook síðu Strúllu og Chris Knodel vitnaði í einnig.  Var hún um fyrsta langhlaup (hvers sem er) og hvernig skyldi haga sér. 

Mér þótti þessi grein afar góð en í stuttu máli var það svo:  Fyrstu 10 km:  spjallhraði.  Hér munum við systur fara í gegnum sögur af John, yfirmanni Bekku og ég mun fræða hana um lagið "á skíðum skemmti ég mér" sem hún mun aldrei hafa heyrt.  

Næstu 8 km eru aðeins hraðari og verður hér sett upp nýja Marshall headsettið og strikið tekið áfram beint.  Reynt að leiða hjá sér 35 gráðurnar og órangútana sem sveifla sér úr pálmatrjánum og stökkva  á sárþjáðar axlir manns.  Banani spólaður í sig og annað hvort verður Ívar Bjarklind eða Sverrir Stormsker að jóðla í settinu.  

 

Svo verður sterklegur sprettur í lokin, ca 3 km síðustu 500 metrarnir náttúrulega á Snartar hraða.
Ekki er auðvelt að segja hver á vinninginn þar í tónlistinni en ekki ólíklegt að það verði Uriah Heep eða Karlakórinn Hreimur. 

En greinarhöfundur bendir á að ekki þýði að fyrirframskipuleggja þetta svo nákvæmlega, heldur aðeins að hlaupa eftir því sem kroppurinn gefur til kynna á viðkomandi degi að hann vilji gera.  

 

Mikilvægast af öllu og smörtustu orðin í greininni fannst mér vera ráðleggingin um að klára sterkt.

 

Finish strong. 

 

Þetta á nú við um margt ekki satt. Góð orð.

 

 

 

 

 

 

 

...svo mundi ég að aðalatriðið er náttúrulega að líta vel út og eyddi síðustu orkulítrunum í að finna mér samstæðan búning.  Kvaldist ég í gegnum 10 mæðraskoðanir í dag með afar fjörlegt naglalakk sem minnir mjög á Rósu Ingólfs vegna þessa.  


Allir mega geta einu sinni:

 

...þetta er allt sko hérna, bara, geðkt, innra með þér. 

...sko þú ert bara svona þúst, bara, akkurö ertekki búinn að gera eitthvað fyrir löngu?  Þetta er bara allt hérna sko þúst, inníðér.

...ég hef sko lentísuu, persónulega sjálf. 

...fáðér prótein.

 

 

kk sú fúla.

 

p.s. það er bara þannig. 

 


Fyrir þá sem eru að hugsa um að hlaupa ultramarathon

... þetta myndband lýsir betur en nokkuð hvernig lífið okkar systra og co var síðasta ár.

 

 


Borðið þér rjúpur eða grís - eða jafnvel hangikjöt?

Ég setti fram spurninguna á Facebook fyrir nokkru.  Fljótt kom í ljós að fæstir skildu langlokuna.  En spurningin er sumsé hypothetical, og átti í þessu tilviki við vinnu mína.  

Flestir koma til mín til þess að fá mæðravernd og ráðgjöf.  Eftir því sem ég gef fólki meiri tíma kemur í ljós að jafnmikil þörf er á því að ræða ýmis undirliggjandi mál sem snerta viðkomandi - nokkuð óháð því hvort barn sé í bumbunni. 

Flestir hafa ekki aðgang að neinum til að ræða slíkt, -góðir vinir eru annað hvort ekki ákjósanlegir hlustendur eða fjarri og sama gildir um ættingja.  

 

Því lengur sem ég hlusta kemst ég að því að fólk hefði betur spurt spurningarinnar, snemma.

Á fyrsta stefnumóti. 

Það myndi spara þeim mörg vandamál.  

 

Og minnka skilnaðartíðnina mjög. 

 

Spurningin gæti að sjálfsögðu verið önnur, enda tilbúin, ímynduð.  Hypothetical, vegna skorts á góðri þýðingu.

 

 

 

 


Kvart og kvein á gamlársdag

Í dag ákvað ég að hóa saman nokkrum velvöldum úr fjölskyldunni í notalegan hádegisverð og var ferðinni heitið í Nauthól. 

Um klukkan 10 í morgun hóf ég hringingar til að bóka staðinn en fann ekki upplýsingar á heimasíðunni um opnunartíma aðrar en þær að eftir 27. des væri opið venju samkvæmt.  Ekkert var á facebook síðunni og í þá 2 klukkutíma sem ég reyndi reglulega að hringja var hvorki símsvari né svarað.  Því var farið í að skoða aðrar síður og hringja í bæði 118 og svo beinar hringingar hingað og þangað.  Niðurstaðan var svo: 

  • Flestir svöruðu ekki neitt.
  • Á sumum stöðum voru símsvarar og var lokað í dag, eða amk í hádeginu.
  • Einstaka staður (ég held að þeir hafi verið ca 10 af þeim ca 30 sem voru skoðaðir) var með opið.  en alls staðar var fullt nema á Tapashúsinu.
  • Þeir sem svöruðu og voru með opið voru dónalegir og pirraðir á því að maður væri að reyna að troða sér að.

Það var því farið af stað og þangað til Tapashúsið opnaði reynt að skoða á rúntinum hvort einhver væri með opið og pláss fyrir slægtið okkar.  Niðurstaðan var svo:

  • Bærinn var fullur af fólki, innlendingum og útlendingum.
  • Fólk var hangandi á hurðarhúnum, blaktandi í vindinum að reyna að komast inn á lokaða staðina.
  • Kaffihúsin voru mörg opin og vel full.

Við enduðum á Tapashúsinu og fengum afbragðsmat sem var afar hátt verðlagður og þar hafði verið prentaður nýr matseðill fyrir áramótin, án þess að vita venjulegu verðin spyr maður sig hvort þessi verðlagning hafi verið svipuð og venjulega (aðalréttir í hádegisverði á ca 8 - 9000 krónur, einn réttur).  

 

Mér þótti vænt um að komast einhversstaðar að með fjölskylduna en ég verð að segja að hefði ég verið ferðamaður með fáa valkosti varðandi fóðrun, þá hebbði geð mitt haggast eitthvað. 

Maður verður að spyrja sig hvert landinn ætlar í ferðamannaútrásinni sinni.  Það er ólíðandi að komast ekki inn á sæmilegan veitingastað án fyrirvara þegar þú ert gestur í landi.  Á tímum þess sem (að mér skilst) fólk vantar atvinnu og landið vantar ferðamenn og aur, að þegar hvort tveggja er til staðar, þá er ekki þjónusta í boði?!  Eða er þetta hluti af einhverri stefnu um að láta starfsfólk ekki "þjást" í ófjölskylduvænum störfum?  Það finnst mér nú ólíklegt, það er fjöldinn allur af fólki sem er tilbúinn / þarf að vinna á tímum sem eru ekki vinsælir en gerir það samt.  Og þegar það er markaður fyrir veitingastaðaopnun, af hverju er þessu svona háttað?  Ef það þarf að tvöfalda verðið (ef það er raunverulega ekki hægt að fá fólk sem vinnur án þess að fá tvöföld laun) en fólk kemur samt og borðar, þá er það líklega í lagi, en það er sorglegt ef það er ekkert val, og einnig spurning hvort það þurfi raunverulega að vera þannig.  Af hverju ekki á páskum, sumardaginn fyrsta og svo framvegis?  

Það er best að ég reyni að semja einhvern skemmtilegri pistil á eftir en ég varð að koma þessu frá mér í vefdagbókina.  Það væri ágætt að fá innlegg með og á móti opnun veitingastaða í hádeginu á gamlársdag.  Þeir sem geta útskýrt þetta eru velkomnir. 

 

Með kveðju úr Skreiðarhjallanum.  

 

 


Jólaandinn - til mömmu og pabba

Það eru svo margar klisjur tengdar jólunum.  Margir segja að hinn sanni jólaandi sé inní hjartanu og að hin veraldlegi raunveruleiki sé ekki aðalmálið. Ég nenni næstum ekki að skrifa um þetta, það eru svo margir búnir að keppast um að skrifa um hinn sanna jólaanda.  Og boðskapurinn er réttur og allt, við erum líklega öll sammála um þetta mál. 

Samt er Kringlan full rétt fyrir lokun, af fólki eins og mér, og jólagjafaflóðið er óendanlegt.  

Voru jólin góð í gamla daga spurðu börnin í gær.  Já, jólin voru mjög góð í "gamla daga".  Í dag eru foreldrar mínir fráskilin og þrátt fyrir breytingar í fjölskyldunni eigum við systkinin öll góðar minningar um jólin okkar og mig langar að tileinka þennan jólapistil foreldrum mínum sem alltaf lögðu sig sérstaklega vel fram um að halda hátíðleg og falleg jól fyrir okkar fjölskyldu.  

Það var stundum öskrað hátt og ég sjálf skellti nokkrum hurðum.   Vörðu þessar snerrur yfirleitt í skamman tíma því enginn vildi vera óvinur annars í lengi.  Það varð stundum spenna sem tengdist því að allt yrði nú að vera tilbúið fyrir jólin.  Og þegar maður talar við aðra af sömu kynslóð er merkilegt að heyra að þetta virðist hafa verið gegnumgangandi á heimilum á þessum tíma;  allt varð að vera orðið hreint, á sínum stað og hefðirnar varð að halda, á réttum tíma.  Því varð til ákveðið stress.  Ef til vill er þetta ástæðan fyrir því að mín kynslóð er dálítið afslöppuð þegar kemur að því sama, - það er ekki aðalmálið að ALLIR skápar hússins séu hreinir og í stafrófsröð. Og það má hafa annað meðlæti en sultu og baunir.  

En, merkilegt nokk, það er samt lúmskt sterkt í manni að halda í hefðirnar.  Mér finnst raunverulega að maturinn EIGI að vera kominn á borðið klukkan sex þegar klukkurnar hljóma og messan byrjar.  Og hátíðleikanum má ekki tapa.  Það þarf að tala við systkinin og foreldrana þegar jólin eru komin, og þegar pakkarnir eru opnaðir eiga allir sinn stað í sófanum og einn les á pakkana og færir og allir opna á sama tíma.   Það er reyndar ekki alveg víst að öllum fjölskyldumeðlimunum finnist þetta jafn mikilvægt og mér og það er gert grín af mér þegar ég byrja að skipa fyrir í stofunni - en það er samt einhver hátíðleiki sem mér finnst koma með því að það sé a.m.k. vitað hver gaf hvaða gjöf!  

Hvað sem öðru líður þá á ég foreldrum mínum að þakka og systkinum að ég á yndislegar jólaminningar og reyndar afar góða æsku heilt yfir.  

Ég var ekki auðveldasta barn, með sterkar skoðanir og lét ekki segja mér auðveldlega fyrir verkum alltaf.  Ég þoldi allskekki móður mína elskulega um tíma og sem betur fer tók annað fólk að sér að hafa mig innan um sig á meðan hún fékk frí frá uppeldi mínu að einhverju leiti þegar ég var unglingur. Líklega varð það til þess að ég skellti ekki útidyrahurðinni í gegnum dyrastafinn í einhverju skapofsakastinu og í dag erum við ágætustu vinkonur. 

Foreldrar mínir héldu alltaf áfengislaus jól og fyrst og fremst fjölskyldujól.  Gestir komu stundum sem var notalegt en það snérist alltaf fyrst og fremst um okkur fjölskylduna.  Gjafirnar voru vel valdar og ég man ennþá eftir því þegar skyndilega var greinilega meira um efni á heimilinu og við fengum gjafir frá t.d. kettinum og jólasveinum sem vakti að sjálfsögðu kátínu og undrun.  En áður en það var var alltaf hugsað sérstaklega vel um okkur og ég hef áður minnst á saumaskapinn sem tók ófáar klukkustundirnar - og væntanlega þolinmæði - hjá mömmu.  

 

Á okkar heimili voru alltaf rjúpur og rjúpnasúpa sem okkur skystkinunum fannst mikilvægast af öllu.  Það var barist um síðustu dropana.  Við reittum rjúpurnar sjálf með pabba úti í bílskúr og stundum tókum við Bjarki þátt í að reyna að veiða þær.  Bjarki veiddi nokkrar en ég hitti aldrei eina þótt ég skyti og skyti.  Í gær þegar ég var að reita rjúpurnar í forstofunni  hjá mömmu með Rebekku systur minni fann ég hvað ég saknaði þessara stunda með systkinum mínum.  "Í gamla daga" var alltaf ískallt og maður hálf neyddur í þessa plokkun, en kaldhæðnislegt til þess að hugsa að í dag gæfi ég helling fyrir að hafa þau öll með mér í ísköldum bílskúr með fjaðrir allt um kring.  Sem betur fer er það þó eiginlega svo, því ég er heppin að því leyti að ég hef greiðan aðgang að systkinum mínum og við eyðum góðum stundum saman. 

En foreldrarnir sáu til þess að þessi tengsl eru eins og þau eru í dag og ég held að þessar fjölskyldurútínur hafi átt stóran þátt í því. 

Það var hlustað á messuna klukkan sex, allir sátu prúðbúnir í brúna sófanum og hlustuðu og ó mæ hvað það var drepleiðinlegt!  Maður var rétt við sturlunarmörkin þegar loksins var hringt út og við fengum að spretta á fætur og borða matinn.  Við skófluðum í okkur hratt og örugglega á meðan pabbi ræfillinn skar og skar og rétt í þann mund sem hann var við að stinga upp í sig fyrsta bitanum vorum við farin að hoppa í kringum þau mömmu til að krefjast þess að byrja að opna pakkana.  Við uppskárum þá stundum uppvaskið í laun og að pakkaopnun hæfist ekki fyrr en því væri lokið.  Þá dásamaði maður afa fyrir uppþvottavélina!  

 

Í pakkaopnun þeirra daga hófst hefðin mín um "svæði".  Hver átti sitt svæði sem pökkum var raðað í kring og maður hafði góða yfirsýn yfir það sem manni hafði verið gefið.  Það var líka skrifað niður hver gaf hvað til hvers.  Ég passaði alltaf að fá pláss sem var helst í horni og helst með kastaraljósinu beint á mig, mér fannst svo óþægilegt ef ekki var góð birta.  

Systkini mín gerðu eins og ég sagði þeim og vildu allt fyrir mig gera svo ég væri nú í góðu skapi og tilbúin að leika við þau. 

Svo var þakkað fyrir sig með faðmlögum og desert (alltaf frómas með ananas) og konfekt og jólakortalesning tók við. 

 

Og þegar maður fór að sofa komu þau inn og knúsuðu okkur góða nótt hvert í sínu lagi og maður sofnaði alltaf glaður og ánægður með að vera fæddur á þessu skrítna litla skeri á hjara veraldar með þessa góðu fjölskyldu í kringum sig, góðu foreldra sem gerðu allt fyrir okkur og aldrei gerðist neitt hræðilegt eða miður gott sem maður þarf að burðast með alla æfina eins og því miður svo margir eins og komið hefur í ljós og þarf ekki annað en að opna blöðin til að sjá. 

 

Elsku mamma og pabbi, þakka ykkur fyrir að gera alltaf allt fyrir mig og okkur systkinin og búa til þessa sönnu jólagleði í okkar hjörtu, óháð pökkum og öðru, fjölskyldugleðina.   Ég tek undir með öllum um jólin í hjartanu.  

 Kópasker

Bestu kveðjur frá ykkar óáreiðanlegu og örlítið gölluðu en mjög svo elskandi dóttur.  

 

Ég enda þennan pistil á dásamlegri jólagjöf frá Freyju til okkar Steindórs og ykkar allra í fjölskyldunni:

 

 

https://soundcloud.com/iamaturnip/sets/uppt-kur-freyju-og-tuma-2013 

 

Hulda Þórey.

 

 

 


Dásamleg fæddist og kvaddi á þessum góða degi

Á hverjum degi hugsa ég til þín, góðan afmælisdag elsku amma.  Ég kveikti á kerti og hafði kvöldkaffi í þínum anda. 

kerti_fyrir_ommu.jpg

 

 

 

 

 

 

 Steinn Steinarr: 

 
Í dagsins önnum dreymdi mig
þinn djúpa frið, og svo varð nótt.
Ég sagði í hljóði: Sofðu rótt,
þeim svefni enginn ræni þig.

En samt var nafn þitt nálægt mér
og nóttin full af söngvaklið
svo oft, og þetta auða svið
bar ætíð svip af þér.

Og þungur gnýr sem hrynji höf
mitt hjarta lýstur enn eitt sinn:
Mín hljóða sorg og hlátur þinn,
sem hlutu sömu gröf.

 

Knús og koss til þín elsku amma.


Þegar einhver í fjölskyldunni talar endalaust um það sama - hvað er til ráða?

 

Þegar fjölskyldan mín var búin að fá nóg af mér að tala um Racing the Planet var vísað í þennan þátt.  Eftir það er bara bent upp í loft þegar ég þarf að létta á mér um reynslu mína.  

 

Frábær klippa úr þessum frábæru þáttum.


Hógværð og hreinskilni

Kæra fjölskylda, hér er jólagjafalistinn, venja hefur verið að birta hann á blogginu og ég viðheld venjunni: 

 

1.  Jo Malone ilmur, þessi algengasti, í krukku til að spreðast um oftið

2.  Ellu ilmvatnið (Night eða og V, ekki Day)

3.  Kaffi frá Te og Kaffi eða Kaffitár

4.  Rauðir þunnir sokkar úr næloni, sem ná upp rétt upp fyrir vitlausabeinið

5.  Eitthvað sem snertir Megas

6.  Píputóbak (sætt)

7.  Danskir sjónvarpsþættir

8.  Kerti, tvær tegundir:  Hvít venjuleg löng og bein.  Ca 8cm í þvermál ljós steingrá eða hvít, 10 til 25 cm há

9.  Prada Queen ilmurinn

10. Prufutími í Mjölni

11. Einn kennslutími á harmonikku hjá einhverjum sem getur kennt á slíkt hljóðfæri (Steini Magg takk fyrir að kveikja áhuga)

12. Ný RayBan sólgleraugu nákvæmlega eins og ég tapaði á Thaílandi, með gjörð bara að ofan, bláleit, alls ekki of sorgleg (eins og prúðuleikarnir), heldur aðeins gleiðari að neðan

13. Nýr tuner fyrir bassann

14. Skautar, mega gjarna vera notaðir, stærð 41

15. Gömul útgáfa af einhverri bók eftir Stein Steinarr

16.  Ef Ólafur Jóhann gefur út bók í ár, hana

17.  Nýjustu seríuna af "the good wife"

18.  Kveikjari sem er langur

19.  Marshall headset

20.  Hárrúllur með frönskum rennilás, stærsta gerð sem hugsast getur, ca 6 stykki

21.  Íslenskur fáni ca 50 cm á langa veginn

22.  Vínflöskuupptakari, má gjarna vera notaður

23.  Nokkrar klukkustundir af rafvirkjun (með rafvirkja inniföldum)

24.  Kaffihússferð með þér einni /  einum, á það kaffihús sem þér finnst sérkennilegast / skemmtilegast á öllu höfuðborgarsvæðinu

25.  Snjóþota

26.  Höfuðljós

27.  Kennsla í að skipta um viftureim (má gjarna fylgja með reim í Kia morning)

28.  Finna þá og gefa mér miða á tónleika með Gildrunni

30.  Náttbuxur úr flóneli, alveg beinar upp og niður, ekki með teygju að heitið geti (hlutfallslega í mesta lagi 30 prósent ummáls)

31.  Táhringur, silfur, plain

32.  Linar mömmukökur

 

 

Ég hef nú ekki miklu meira við þetta að bæta.

KK

Sú hógværa

 


Um öfund og fertugskrísur

 

Fyrir tveimur árum kom ég heim í Sólon Íslandus að haustlagi eftir að hafa verið á Íslandi í tvær vikur.  Á meðan ég var í burtu fylltist báturinn af fertugum drengjum frá Íslandi, æskuvinum Steindórs frá Patreksfirði. 

Aldrei fram að þessu hafði ég upplifað þvílíka stemmingu sem þá var um borð í bátnum, og reyndar svona heilt yfir, það var alveg sérstakt að vera innan um þennan hóp sem þarna var kominn til þess að fagna fertugsafmælum allra.  Þeir voru með sérstakt prógramm á hverjum degi, sem samanstóð af heilsurækt, góðum mat og drykk og allskonar uppátækjum líka.  Þetta var svolítið eins og að koma í sumarbúðir, að vera þarna innanum þá (sem ég fékk reyndar aðeins að vera í 2 daga, það var sérstaklega lagt upp með að þetta væri bara sjálfur drengjahópurinn, ekki aðrir áhangandur, sem var góð hugmynd), þeir voru svo spenntir og glaðir allan tímann. 

 

Ég var lengi hugsi eftir að þeir fóru, með einskonar fyrirfram öfundsýki.  Þetta var undarleg tilfinning og átti sér rætur í því að ég sakna stundum alveg óskaplega vinkvenna minna á Íslandi og Svíþjóð.  Á sama tíma vissi ég að ég gæti aldrei sett saman svipaða samkomu mín megin þar sem mínar vinkonur koma úr svo mismunandi hópum og þekkjast ekki innbyrðis, að það yrði aldrei eins.  En ég hugsaði til þess þegar ég yrði fertug, hvað myndi ég gera – afmælisdíva sem ég er en vil þó helst aldrei halda veislu, en vil samt fagna ógurlega.  Þetta var mér mikið umhugsunarefni og öfundaðist ég talsvert út í bónda minn sem var á háu skýi gleði eftir þessa dásamlegu vinadaga hér í Hong Kong. 

 

Það má vera hverjum manni ljóst að slík öfundsýki er hæsta máta barnaleg og ætti að sjálfsögðu ekki að líðast, sér  í lagi þegar fólk er komið á fertugsaldur og ætti að vera orðið þroskað í takt við það.   Engu að síður er öfundsýki böl sem sýrir okkar samfélag á undarlegustu stöðum og hjá undarlegasta fólki og margir átta sig e.t.v. ekki á því hversu stóran skandal það gerir.  Flestir vita líka að það skiptir engu máli hvað maður á og hefur, öfundin er alls staðar, hjá stórum, smáum, efnuðum og minna.  En batnandi fólki er best að lifa og smám saman (þegar árin eru orðin svona mörg) áttar maður sig á því að öfund er sjálfsköpuð og fórnarlambið er heimalagað. 

Ég sat lengi og hugsaði eftir þessa drengjasamkomu.  Um öfundina og hvernig mér leið og af hverju svona tilfinningar helltust yfir mig.  Á sama tíma varð mér hugsað til „fertugskrísunnar“ sem svo oft er vitnað í.  Og velti fyrir mér hvort þetta væri raunveruleikinn að nú myndi maður falla fyrir henni líka og verða svona brjóstumkennanlegt ofvirkt fyrirbæri á hlaupum eftir einhverju sem enginn veit hvað er.

 

En ég fór líka að hugsa um þessi tímamót, fertugsárið og bara það sem er búið og hvað er framundan.  Fyrir mér eru þetta engin sérstök tímamót reyndar og ég get með sanni sagt að ég finn ekki til neinnar krísu.  Og í stað þess að vera stöðugt að langa í eitthvað óáþreifanlegt eða velta mér uppúr því sem gæti verið betra (t.d. hafa margir spurt mig hvort ég sé ekki miður mín að börnin eru flogin að heiman í heimavistarskóla á Íslandi) ákvað ég að þessu ári skuli varið í að læra betur að njóta þess sem ég hef, enda vantar mig að sjálfsögðu ekki neitt nema þá í mesta lagi sílíkonfyllingar í brjóstin. 

Við frekari þankagang kom eitt í ljós um leið.  Mitt helsta ríkidæmi er 1.  Ég sjálf.  2.  Fólkið í kringum mig.  Ég hefði náttúrulega átt að orða þetta á hinn veginn (númer 2. fyrst), í ljósi ofansagðs og hógværðarinnar sem ætlaði að taka yfir öfundina, en sumum hlutum verður seint breytt og fáir eru jafn sjálfselskandi og ég og það er líklega betra að horfast í augu við það, gera grín að því annað slagið og „move on“ eins og sagt er, frekar en að reyna að vera einhver annar en maður er.  Og þegar ég horfði yfir landið í kringum mig, fólkið, vinnuna og allt annað sá ég fljótt að ég hafði úr svo miklu að moða að fertugskrísan gæti bara hreinlega ekki tekið mig tökum.  En ég vildi samt gera eitthvað skemmtilegt á afmælinu mínu og fór að spekúlera í því en missti löngunina til að gera neitt stórkostlegt, vildi bara eiga skemmtilegt ár með mörgum pökkum frá Bekku og öðrum í kring.

Og eins og gerist þegar maður hættir að pæla of mikið, komu allskonar frábærlegheit siglandi í átt til mín.  Til að mynda gerðist það að Steindór og Jason festu kaup á Gamla Bíói og þurftu nú að kynna þetta stórkostlega hús fyrir þjóðinni sem veislu/samkomu/ráðstefnu/tónleikastað og vildu gjarna bjóða sem flestum til slíkrar kynningar, auk þess sem við fjölskyldan vildum gjarnan hitta sem flesta af okkar vinum og velunnurunm í stuttri ferð til Íslands og þannig atvikaðist að Gamla Bíó varð að afmælisveislusal fyrir mig um leið.  Fljótt sannaðist hversu samheldinn og góður vinahópurinn er þegar undirbúningur var allur skipulagður af öðrum og þrátt fyrir að samsætið væri haldið á sunnudagskvöldi (mörgum til undrunar og örlítils pirrings) var svo vel mætt að ég hefði aldrei trúað því fyrirfram.  

Hið eina sem krafist var af mér var að bjóða til veislunnar og að mæta.  Einnig var á mér krafa frá bónda mínum að æfa mig á bassann sem var annars ágreiningsefni innan fjölskyldunnar þar sem 2 af hljómsveitarmeðlimunum töldust betri en hinir tveir og neituðu að spila í veislunni nema við hin hefðum tekið okkur taki í spilamennsku. 

Því tóku við æfingar hér heima við og svo var brunað til Íslands og föt keypt og hárið blásið og barnapíu reddað á síðustu stundu því ekki höfðum við nú fattað það að tveggjáringar passa illa í afmæliskvöldveislu, og svo mætt í Ingólfsstrætið.

Þegar boðið var til veislunnar var mottóið að bjóða öllum þeim sem standa okkur nærri, hafa hjálpað okkur og hreinlega eru skemmtilegt og gott fólk sem okkur langaði að hitta.  Suma þekktum við vel, aðra minna.  Það voru engar boðsreglur.  Sumum kynntist ég í veislunni.  Sumum gleymdi ég að bjóða, eða hafði ekki netföng, facebook tengil eða símanúmer eða tíma til að finna þetta.   En við gerðum þetta eftir bestu getu.

 

Og elsku hjartans vinir og þið sem komuð til okkar þann 28. Júlí, - ég á erfitt með að tjá þakklæti mitt og gleði.  Á einn eða annan hátt snertuð þið öll hjartað í mér og minntuð mig á hversu lánsöm ég er.  Þarna sameinaðist svo margt, ekki bara fertugsafmæli (sem hefði bara komið og farið), og að fá að vera hluti af þessu kvöldi var ómetanlegt.  Fjölskyldan saman að spila á sviðinu var frábært, þó nokkrar feilnótur hafi laumast inn, Freyja að syngja með mínum uppáhalds söngvara og gerði það eins og hún væri á atvinnumannaskrá og bara að sjá öll þessi glöðu andlit og góða fólk sem hefur verið í kringum okkur í lengri og skemmri tíma, - það er ekkert sem jafnast á við þessa tilfinningu. 

Ég fékk ekki tækifæri til að eyða löngum tíma með hverjum og einum en hitti þó flesta.  Mig langar að þakka ykkur öllum fyrir að koma, fyrir frábærar gjafir (sem ég náði oftast að þakka fyrir með „þú þurftir að sjálfsögðu ekki að koma með pakka – en gefðu mér hann endilega og það fljótt“) og yndislega kvöldstund.  Ég vona að allir hafi skemmt sér vel og á þessu kvöldi voru liður 1. Og 2. Sannarlega sjálfri mér augljósir.   Það þarf augljóslega ekki stóra veislu til að átta sig á þessu, en það samt gott að upplifa hana. 

Í leit að fertugshamingjunni fyrr á árinu var annað ofarlega í huga mér og var það líkamleg heilsa mín.  Eftir langa umhugsun og inntökuferli ákvað ég að mín eigin gjöf til mín og fjölskyldu minnar skyldi vera betri líkamleg heilsa.  Þrátt fyrir að frekar óvenjulegar aðstæður væru fyrir hendi og fjölskyldan neyddist til að þjást aðeins í þessari baráttu, ákvað ég að skrá mig í háfjallahlaup á Íslandi sem seint gat talist auðveldasta leiðin til heilsu.  Ég hef verið mikið spurð út í þetta og gagnrýnd talsvert, en stuðningur fólks í kringum mig hefur þó verið ómetanlegur.   

Og þetta ætla ég að skrifa um í næsta bloggi. 

 

Ég geri mér grein fyrir því að þetta blogg er langt og margir löngu búnir að ná inntakinu, en þetta er svona ákveðin aftöppun af sálinni um leið og ég vil þakka fyrir mig.  Elsku vinir og vandamenn, það væri hættulegt að fara að nefna ykkur öll á nafn, en þið vitið öll hver þið eruð og fáið hér með knús og koss frá mér þar sem ég sit naglalaus á stórutám og hálfbækluð, hrukkótt og þrútin eftir Íslandsveðrið, loks komin aftur til Hong Kong og aldrei glaðari.  Takk takk enn og aftur. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband