Falleg innan sem utan

Sumt fólk kemur inn í líf manns og klofar með manni í gegnum skafla og sólardaga á sérstakan hátt.  Árið 1996 að haustlagi hringdi ég á heilsugæslustöðina á Akureyri og bað um tíma í mæðravernd.  Mér var gefinn hann hjá ágætri ljósmóður og var þó búin að heyra að það væri önnur sem væri alveg sérlega dásamleg sem ég ætti að reyna að komast að hjá.  Ég kunni ekki við að breyta en þó fór svo að síðar þurfti ég að breyta tímanum mínum og endaði á því að fara til þeirrar sem síðar varð kær vinkona og lærimeistari. 

Áður hafði ég setið nokkra tíma í hjúkrunarfræði sem tengdust meðgöngu og fæðingu, fósturfræði og þvíumlíku og á afar klínískan hátt kynnst því hvernig bein og liðamót yrðu að vera samkvæmt ákveðnum mælingum til þess að börnin gætu fæðst í heiminn.  En svo kom þessi sama ljósmóðir og talaði eiginlega þvert ofan í þá kennslu sem við höfðum fengið hjá læknunum og sagði okkur að það væru reyndar aðrir og jafnvel ennþá mikilvægari þættir sem skiptu máli til þess að börn kæmust eðlilega og án mikillar aðstoðar í heiminn.  Ég man að okkur þótti þetta nokkuð merkilegt og sérstakt hversu nálgunin var ólík. 

En nokkrum árum síðar sat ég með ljósmóðurinni í gegnum margar mæðraskoðanir og svo á endanum fór svo að hún tók á móti fyrsta barninu mínu af miklum glæsibrag og var alla tíð síðan í guðatölu.    

Svo líða mánuðir og ár á milli þess sem við hittumst, stundum langur tími, stundum stuttur.  Annað barn kemur í heiminn og svo fer að á síðustu stundu, tíu mínútum í lok umsóknarfrests að ég ákveð að verða ljósmóðir og fæ aðstoð og umsögn hjá þessari góðu konu.  Hvatningu og endalaus góð ráð. 

Ég man sérstaklega hvað það var notalegt, og alla tíð síðan, að koma að eldhúsborðinu og fá bakkelsi og mjólk við lítið kerti og finna hlýjuna og friðinn sem streymdi frá henni. 

Og hún aðstoðar mig í ljósmóðurnáminu og er leiðbeinandi og svo við að fá leyfi í Hong Kong og svo hittumst við á ráðstefnum og við allavega aðstæður á Íslandi.

Ég eignast fleiri börn og hún kemur til Hong Kong að hjálpa, ekki síður við að Sögu litlu sem verður himinlifandi að einhver vill sinna henni nú þegar nýtt barn er komið.  

Hún aðstoðar mig í vinnunni og gefur ráð yfir haf og lönd þegar þannig liggur við.

Hún heitir Sigfríður Inga þessi yndislega kona og á alla mína þökk og aðdáun.  Ég hef alls ekki tölu á þvi hversu oft hún hefur aðsoðað mig, sent mér hlýja strauma eða verið praktískur lærimeistari,  fyrirmynd og ég gæti talið endalaust.

 Inga

Það er svo merkilegt hversu lánsamur maður er að finna svona fólk.  Sem aldrei segir stakt orð illt um aðra, er hamingjusamt og laust við leiðindi, alltaf glatt og fullt af orku, metnaðargjarnt og hógvært.  Fallegt innan sem utan.

Ég get ekki sagt nógu mikið um Ingu.  En enn og aftur er hún búin að minna mig á hvað er gott að eiga góða að. 

Góðan föstudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo sammála þér með Sigfríði Ingu.....frábær kona og yndisleg ljósmóðir

Hafdís Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 27.1.2013 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband