Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013
Um öfund og fertugskrísur
16.8.2013 | 11:57
Fyrir tveimur árum kom ég heim í Sólon Íslandus að haustlagi eftir að hafa verið á Íslandi í tvær vikur. Á meðan ég var í burtu fylltist báturinn af fertugum drengjum frá Íslandi, æskuvinum Steindórs frá Patreksfirði.
Aldrei fram að þessu hafði ég upplifað þvílíka stemmingu sem þá var um borð í bátnum, og reyndar svona heilt yfir, það var alveg sérstakt að vera innan um þennan hóp sem þarna var kominn til þess að fagna fertugsafmælum allra. Þeir voru með sérstakt prógramm á hverjum degi, sem samanstóð af heilsurækt, góðum mat og drykk og allskonar uppátækjum líka. Þetta var svolítið eins og að koma í sumarbúðir, að vera þarna innanum þá (sem ég fékk reyndar aðeins að vera í 2 daga, það var sérstaklega lagt upp með að þetta væri bara sjálfur drengjahópurinn, ekki aðrir áhangandur, sem var góð hugmynd), þeir voru svo spenntir og glaðir allan tímann.
Ég var lengi hugsi eftir að þeir fóru, með einskonar fyrirfram öfundsýki. Þetta var undarleg tilfinning og átti sér rætur í því að ég sakna stundum alveg óskaplega vinkvenna minna á Íslandi og Svíþjóð. Á sama tíma vissi ég að ég gæti aldrei sett saman svipaða samkomu mín megin þar sem mínar vinkonur koma úr svo mismunandi hópum og þekkjast ekki innbyrðis, að það yrði aldrei eins. En ég hugsaði til þess þegar ég yrði fertug, hvað myndi ég gera afmælisdíva sem ég er en vil þó helst aldrei halda veislu, en vil samt fagna ógurlega. Þetta var mér mikið umhugsunarefni og öfundaðist ég talsvert út í bónda minn sem var á háu skýi gleði eftir þessa dásamlegu vinadaga hér í Hong Kong.
Það má vera hverjum manni ljóst að slík öfundsýki er hæsta máta barnaleg og ætti að sjálfsögðu ekki að líðast, sér í lagi þegar fólk er komið á fertugsaldur og ætti að vera orðið þroskað í takt við það. Engu að síður er öfundsýki böl sem sýrir okkar samfélag á undarlegustu stöðum og hjá undarlegasta fólki og margir átta sig e.t.v. ekki á því hversu stóran skandal það gerir. Flestir vita líka að það skiptir engu máli hvað maður á og hefur, öfundin er alls staðar, hjá stórum, smáum, efnuðum og minna. En batnandi fólki er best að lifa og smám saman (þegar árin eru orðin svona mörg) áttar maður sig á því að öfund er sjálfsköpuð og fórnarlambið er heimalagað.
Ég sat lengi og hugsaði eftir þessa drengjasamkomu. Um öfundina og hvernig mér leið og af hverju svona tilfinningar helltust yfir mig. Á sama tíma varð mér hugsað til fertugskrísunnar sem svo oft er vitnað í. Og velti fyrir mér hvort þetta væri raunveruleikinn að nú myndi maður falla fyrir henni líka og verða svona brjóstumkennanlegt ofvirkt fyrirbæri á hlaupum eftir einhverju sem enginn veit hvað er.
En ég fór líka að hugsa um þessi tímamót, fertugsárið og bara það sem er búið og hvað er framundan. Fyrir mér eru þetta engin sérstök tímamót reyndar og ég get með sanni sagt að ég finn ekki til neinnar krísu. Og í stað þess að vera stöðugt að langa í eitthvað óáþreifanlegt eða velta mér uppúr því sem gæti verið betra (t.d. hafa margir spurt mig hvort ég sé ekki miður mín að börnin eru flogin að heiman í heimavistarskóla á Íslandi) ákvað ég að þessu ári skuli varið í að læra betur að njóta þess sem ég hef, enda vantar mig að sjálfsögðu ekki neitt nema þá í mesta lagi sílíkonfyllingar í brjóstin.
Við frekari þankagang kom eitt í ljós um leið. Mitt helsta ríkidæmi er 1. Ég sjálf. 2. Fólkið í kringum mig. Ég hefði náttúrulega átt að orða þetta á hinn veginn (númer 2. fyrst), í ljósi ofansagðs og hógværðarinnar sem ætlaði að taka yfir öfundina, en sumum hlutum verður seint breytt og fáir eru jafn sjálfselskandi og ég og það er líklega betra að horfast í augu við það, gera grín að því annað slagið og move on eins og sagt er, frekar en að reyna að vera einhver annar en maður er. Og þegar ég horfði yfir landið í kringum mig, fólkið, vinnuna og allt annað sá ég fljótt að ég hafði úr svo miklu að moða að fertugskrísan gæti bara hreinlega ekki tekið mig tökum. En ég vildi samt gera eitthvað skemmtilegt á afmælinu mínu og fór að spekúlera í því en missti löngunina til að gera neitt stórkostlegt, vildi bara eiga skemmtilegt ár með mörgum pökkum frá Bekku og öðrum í kring.
Og eins og gerist þegar maður hættir að pæla of mikið, komu allskonar frábærlegheit siglandi í átt til mín. Til að mynda gerðist það að Steindór og Jason festu kaup á Gamla Bíói og þurftu nú að kynna þetta stórkostlega hús fyrir þjóðinni sem veislu/samkomu/ráðstefnu/tónleikastað og vildu gjarna bjóða sem flestum til slíkrar kynningar, auk þess sem við fjölskyldan vildum gjarnan hitta sem flesta af okkar vinum og velunnurunm í stuttri ferð til Íslands og þannig atvikaðist að Gamla Bíó varð að afmælisveislusal fyrir mig um leið. Fljótt sannaðist hversu samheldinn og góður vinahópurinn er þegar undirbúningur var allur skipulagður af öðrum og þrátt fyrir að samsætið væri haldið á sunnudagskvöldi (mörgum til undrunar og örlítils pirrings) var svo vel mætt að ég hefði aldrei trúað því fyrirfram.
Hið eina sem krafist var af mér var að bjóða til veislunnar og að mæta. Einnig var á mér krafa frá bónda mínum að æfa mig á bassann sem var annars ágreiningsefni innan fjölskyldunnar þar sem 2 af hljómsveitarmeðlimunum töldust betri en hinir tveir og neituðu að spila í veislunni nema við hin hefðum tekið okkur taki í spilamennsku.
Því tóku við æfingar hér heima við og svo var brunað til Íslands og föt keypt og hárið blásið og barnapíu reddað á síðustu stundu því ekki höfðum við nú fattað það að tveggjáringar passa illa í afmæliskvöldveislu, og svo mætt í Ingólfsstrætið.
Þegar boðið var til veislunnar var mottóið að bjóða öllum þeim sem standa okkur nærri, hafa hjálpað okkur og hreinlega eru skemmtilegt og gott fólk sem okkur langaði að hitta. Suma þekktum við vel, aðra minna. Það voru engar boðsreglur. Sumum kynntist ég í veislunni. Sumum gleymdi ég að bjóða, eða hafði ekki netföng, facebook tengil eða símanúmer eða tíma til að finna þetta. En við gerðum þetta eftir bestu getu.
Og elsku hjartans vinir og þið sem komuð til okkar þann 28. Júlí, - ég á erfitt með að tjá þakklæti mitt og gleði. Á einn eða annan hátt snertuð þið öll hjartað í mér og minntuð mig á hversu lánsöm ég er. Þarna sameinaðist svo margt, ekki bara fertugsafmæli (sem hefði bara komið og farið), og að fá að vera hluti af þessu kvöldi var ómetanlegt. Fjölskyldan saman að spila á sviðinu var frábært, þó nokkrar feilnótur hafi laumast inn, Freyja að syngja með mínum uppáhalds söngvara og gerði það eins og hún væri á atvinnumannaskrá og bara að sjá öll þessi glöðu andlit og góða fólk sem hefur verið í kringum okkur í lengri og skemmri tíma, - það er ekkert sem jafnast á við þessa tilfinningu.
Ég fékk ekki tækifæri til að eyða löngum tíma með hverjum og einum en hitti þó flesta. Mig langar að þakka ykkur öllum fyrir að koma, fyrir frábærar gjafir (sem ég náði oftast að þakka fyrir með þú þurftir að sjálfsögðu ekki að koma með pakka en gefðu mér hann endilega og það fljótt) og yndislega kvöldstund. Ég vona að allir hafi skemmt sér vel og á þessu kvöldi voru liður 1. Og 2. Sannarlega sjálfri mér augljósir. Það þarf augljóslega ekki stóra veislu til að átta sig á þessu, en það samt gott að upplifa hana.
Í leit að fertugshamingjunni fyrr á árinu var annað ofarlega í huga mér og var það líkamleg heilsa mín. Eftir langa umhugsun og inntökuferli ákvað ég að mín eigin gjöf til mín og fjölskyldu minnar skyldi vera betri líkamleg heilsa. Þrátt fyrir að frekar óvenjulegar aðstæður væru fyrir hendi og fjölskyldan neyddist til að þjást aðeins í þessari baráttu, ákvað ég að skrá mig í háfjallahlaup á Íslandi sem seint gat talist auðveldasta leiðin til heilsu. Ég hef verið mikið spurð út í þetta og gagnrýnd talsvert, en stuðningur fólks í kringum mig hefur þó verið ómetanlegur.
Og þetta ætla ég að skrifa um í næsta bloggi.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta blogg er langt og margir löngu búnir að ná inntakinu, en þetta er svona ákveðin aftöppun af sálinni um leið og ég vil þakka fyrir mig. Elsku vinir og vandamenn, það væri hættulegt að fara að nefna ykkur öll á nafn, en þið vitið öll hver þið eruð og fáið hér með knús og koss frá mér þar sem ég sit naglalaus á stórutám og hálfbækluð, hrukkótt og þrútin eftir Íslandsveðrið, loks komin aftur til Hong Kong og aldrei glaðari. Takk takk enn og aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)