Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013
Kvart og kvein á gamlársdag
31.12.2013 | 17:00
Í dag ákvað ég að hóa saman nokkrum velvöldum úr fjölskyldunni í notalegan hádegisverð og var ferðinni heitið í Nauthól.
Um klukkan 10 í morgun hóf ég hringingar til að bóka staðinn en fann ekki upplýsingar á heimasíðunni um opnunartíma aðrar en þær að eftir 27. des væri opið venju samkvæmt. Ekkert var á facebook síðunni og í þá 2 klukkutíma sem ég reyndi reglulega að hringja var hvorki símsvari né svarað. Því var farið í að skoða aðrar síður og hringja í bæði 118 og svo beinar hringingar hingað og þangað. Niðurstaðan var svo:
- Flestir svöruðu ekki neitt.
- Á sumum stöðum voru símsvarar og var lokað í dag, eða amk í hádeginu.
- Einstaka staður (ég held að þeir hafi verið ca 10 af þeim ca 30 sem voru skoðaðir) var með opið. en alls staðar var fullt nema á Tapashúsinu.
- Þeir sem svöruðu og voru með opið voru dónalegir og pirraðir á því að maður væri að reyna að troða sér að.
Það var því farið af stað og þangað til Tapashúsið opnaði reynt að skoða á rúntinum hvort einhver væri með opið og pláss fyrir slægtið okkar. Niðurstaðan var svo:
- Bærinn var fullur af fólki, innlendingum og útlendingum.
- Fólk var hangandi á hurðarhúnum, blaktandi í vindinum að reyna að komast inn á lokaða staðina.
- Kaffihúsin voru mörg opin og vel full.
Við enduðum á Tapashúsinu og fengum afbragðsmat sem var afar hátt verðlagður og þar hafði verið prentaður nýr matseðill fyrir áramótin, án þess að vita venjulegu verðin spyr maður sig hvort þessi verðlagning hafi verið svipuð og venjulega (aðalréttir í hádegisverði á ca 8 - 9000 krónur, einn réttur).
Mér þótti vænt um að komast einhversstaðar að með fjölskylduna en ég verð að segja að hefði ég verið ferðamaður með fáa valkosti varðandi fóðrun, þá hebbði geð mitt haggast eitthvað.
Maður verður að spyrja sig hvert landinn ætlar í ferðamannaútrásinni sinni. Það er ólíðandi að komast ekki inn á sæmilegan veitingastað án fyrirvara þegar þú ert gestur í landi. Á tímum þess sem (að mér skilst) fólk vantar atvinnu og landið vantar ferðamenn og aur, að þegar hvort tveggja er til staðar, þá er ekki þjónusta í boði?! Eða er þetta hluti af einhverri stefnu um að láta starfsfólk ekki "þjást" í ófjölskylduvænum störfum? Það finnst mér nú ólíklegt, það er fjöldinn allur af fólki sem er tilbúinn / þarf að vinna á tímum sem eru ekki vinsælir en gerir það samt. Og þegar það er markaður fyrir veitingastaðaopnun, af hverju er þessu svona háttað? Ef það þarf að tvöfalda verðið (ef það er raunverulega ekki hægt að fá fólk sem vinnur án þess að fá tvöföld laun) en fólk kemur samt og borðar, þá er það líklega í lagi, en það er sorglegt ef það er ekkert val, og einnig spurning hvort það þurfi raunverulega að vera þannig. Af hverju ekki á páskum, sumardaginn fyrsta og svo framvegis?
Það er best að ég reyni að semja einhvern skemmtilegri pistil á eftir en ég varð að koma þessu frá mér í vefdagbókina. Það væri ágætt að fá innlegg með og á móti opnun veitingastaða í hádeginu á gamlársdag. Þeir sem geta útskýrt þetta eru velkomnir.
Með kveðju úr Skreiðarhjallanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jólaandinn - til mömmu og pabba
25.12.2013 | 09:20
Það eru svo margar klisjur tengdar jólunum. Margir segja að hinn sanni jólaandi sé inní hjartanu og að hin veraldlegi raunveruleiki sé ekki aðalmálið. Ég nenni næstum ekki að skrifa um þetta, það eru svo margir búnir að keppast um að skrifa um hinn sanna jólaanda. Og boðskapurinn er réttur og allt, við erum líklega öll sammála um þetta mál.
Samt er Kringlan full rétt fyrir lokun, af fólki eins og mér, og jólagjafaflóðið er óendanlegt.
Voru jólin góð í gamla daga spurðu börnin í gær. Já, jólin voru mjög góð í "gamla daga". Í dag eru foreldrar mínir fráskilin og þrátt fyrir breytingar í fjölskyldunni eigum við systkinin öll góðar minningar um jólin okkar og mig langar að tileinka þennan jólapistil foreldrum mínum sem alltaf lögðu sig sérstaklega vel fram um að halda hátíðleg og falleg jól fyrir okkar fjölskyldu.
Það var stundum öskrað hátt og ég sjálf skellti nokkrum hurðum. Vörðu þessar snerrur yfirleitt í skamman tíma því enginn vildi vera óvinur annars í lengi. Það varð stundum spenna sem tengdist því að allt yrði nú að vera tilbúið fyrir jólin. Og þegar maður talar við aðra af sömu kynslóð er merkilegt að heyra að þetta virðist hafa verið gegnumgangandi á heimilum á þessum tíma; allt varð að vera orðið hreint, á sínum stað og hefðirnar varð að halda, á réttum tíma. Því varð til ákveðið stress. Ef til vill er þetta ástæðan fyrir því að mín kynslóð er dálítið afslöppuð þegar kemur að því sama, - það er ekki aðalmálið að ALLIR skápar hússins séu hreinir og í stafrófsröð. Og það má hafa annað meðlæti en sultu og baunir.
En, merkilegt nokk, það er samt lúmskt sterkt í manni að halda í hefðirnar. Mér finnst raunverulega að maturinn EIGI að vera kominn á borðið klukkan sex þegar klukkurnar hljóma og messan byrjar. Og hátíðleikanum má ekki tapa. Það þarf að tala við systkinin og foreldrana þegar jólin eru komin, og þegar pakkarnir eru opnaðir eiga allir sinn stað í sófanum og einn les á pakkana og færir og allir opna á sama tíma. Það er reyndar ekki alveg víst að öllum fjölskyldumeðlimunum finnist þetta jafn mikilvægt og mér og það er gert grín af mér þegar ég byrja að skipa fyrir í stofunni - en það er samt einhver hátíðleiki sem mér finnst koma með því að það sé a.m.k. vitað hver gaf hvaða gjöf!
Hvað sem öðru líður þá á ég foreldrum mínum að þakka og systkinum að ég á yndislegar jólaminningar og reyndar afar góða æsku heilt yfir.
Ég var ekki auðveldasta barn, með sterkar skoðanir og lét ekki segja mér auðveldlega fyrir verkum alltaf. Ég þoldi allskekki móður mína elskulega um tíma og sem betur fer tók annað fólk að sér að hafa mig innan um sig á meðan hún fékk frí frá uppeldi mínu að einhverju leiti þegar ég var unglingur. Líklega varð það til þess að ég skellti ekki útidyrahurðinni í gegnum dyrastafinn í einhverju skapofsakastinu og í dag erum við ágætustu vinkonur.
Foreldrar mínir héldu alltaf áfengislaus jól og fyrst og fremst fjölskyldujól. Gestir komu stundum sem var notalegt en það snérist alltaf fyrst og fremst um okkur fjölskylduna. Gjafirnar voru vel valdar og ég man ennþá eftir því þegar skyndilega var greinilega meira um efni á heimilinu og við fengum gjafir frá t.d. kettinum og jólasveinum sem vakti að sjálfsögðu kátínu og undrun. En áður en það var var alltaf hugsað sérstaklega vel um okkur og ég hef áður minnst á saumaskapinn sem tók ófáar klukkustundirnar - og væntanlega þolinmæði - hjá mömmu.
Á okkar heimili voru alltaf rjúpur og rjúpnasúpa sem okkur skystkinunum fannst mikilvægast af öllu. Það var barist um síðustu dropana. Við reittum rjúpurnar sjálf með pabba úti í bílskúr og stundum tókum við Bjarki þátt í að reyna að veiða þær. Bjarki veiddi nokkrar en ég hitti aldrei eina þótt ég skyti og skyti. Í gær þegar ég var að reita rjúpurnar í forstofunni hjá mömmu með Rebekku systur minni fann ég hvað ég saknaði þessara stunda með systkinum mínum. "Í gamla daga" var alltaf ískallt og maður hálf neyddur í þessa plokkun, en kaldhæðnislegt til þess að hugsa að í dag gæfi ég helling fyrir að hafa þau öll með mér í ísköldum bílskúr með fjaðrir allt um kring. Sem betur fer er það þó eiginlega svo, því ég er heppin að því leyti að ég hef greiðan aðgang að systkinum mínum og við eyðum góðum stundum saman.
En foreldrarnir sáu til þess að þessi tengsl eru eins og þau eru í dag og ég held að þessar fjölskyldurútínur hafi átt stóran þátt í því.
Það var hlustað á messuna klukkan sex, allir sátu prúðbúnir í brúna sófanum og hlustuðu og ó mæ hvað það var drepleiðinlegt! Maður var rétt við sturlunarmörkin þegar loksins var hringt út og við fengum að spretta á fætur og borða matinn. Við skófluðum í okkur hratt og örugglega á meðan pabbi ræfillinn skar og skar og rétt í þann mund sem hann var við að stinga upp í sig fyrsta bitanum vorum við farin að hoppa í kringum þau mömmu til að krefjast þess að byrja að opna pakkana. Við uppskárum þá stundum uppvaskið í laun og að pakkaopnun hæfist ekki fyrr en því væri lokið. Þá dásamaði maður afa fyrir uppþvottavélina!
Í pakkaopnun þeirra daga hófst hefðin mín um "svæði". Hver átti sitt svæði sem pökkum var raðað í kring og maður hafði góða yfirsýn yfir það sem manni hafði verið gefið. Það var líka skrifað niður hver gaf hvað til hvers. Ég passaði alltaf að fá pláss sem var helst í horni og helst með kastaraljósinu beint á mig, mér fannst svo óþægilegt ef ekki var góð birta.
Systkini mín gerðu eins og ég sagði þeim og vildu allt fyrir mig gera svo ég væri nú í góðu skapi og tilbúin að leika við þau.
Svo var þakkað fyrir sig með faðmlögum og desert (alltaf frómas með ananas) og konfekt og jólakortalesning tók við.
Og þegar maður fór að sofa komu þau inn og knúsuðu okkur góða nótt hvert í sínu lagi og maður sofnaði alltaf glaður og ánægður með að vera fæddur á þessu skrítna litla skeri á hjara veraldar með þessa góðu fjölskyldu í kringum sig, góðu foreldra sem gerðu allt fyrir okkur og aldrei gerðist neitt hræðilegt eða miður gott sem maður þarf að burðast með alla æfina eins og því miður svo margir eins og komið hefur í ljós og þarf ekki annað en að opna blöðin til að sjá.
Elsku mamma og pabbi, þakka ykkur fyrir að gera alltaf allt fyrir mig og okkur systkinin og búa til þessa sönnu jólagleði í okkar hjörtu, óháð pökkum og öðru, fjölskyldugleðina. Ég tek undir með öllum um jólin í hjartanu.
Bestu kveðjur frá ykkar óáreiðanlegu og örlítið gölluðu en mjög svo elskandi dóttur.
Ég enda þennan pistil á dásamlegri jólagjöf frá Freyju til okkar Steindórs og ykkar allra í fjölskyldunni:
https://soundcloud.com/iamaturnip/sets/uppt-kur-freyju-og-tuma-2013
Hulda Þórey.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)