Sögur úr starfi og lífi - maður kemst langt á fylgjunni
21.4.2013 | 09:23
Mér virðist, þegar ég rifja upp eitthvað skemmtilegt til að segja frá, að ég hljóti að eyða löngum stundum í bílnum mínum, sem er reyndar rétt og gott því mér finnst svo gaman að keyra og enn betra í góðum bíl en það sorglega er að núverandi bíll fellur illa í þann flokk og verður að breyta hið bráðasta, hvað segir þú um það kæri boss, Sjálfstæðis lumma og partner-in-crime, Strúlla?
Þetta varð mér ljóst því svo margar sögur gerast þar sem ég er undir stýri.
Í síðustu varð skemmtileg uppákoma því ég var einu sinni sem oftar að keyra á hraðbrautinni frá North Point til Central, snemma morguns og hafði áður eytt hálftíma í að semja um stöðumælasekt, eða öllu heldu gangbrautarsekt þar sem ég hafði næturlangt lagt bílnum mínum á gangstéttinni á eina blettinum sem var laus fyrir utan 60 hæða blokk, hverri ég var í að taka á móti barni og vildi hafa neyðaráætlunina virka og bilinn klárinn ef ske kynni að það þyrfti að bruna á spítala. Lögreglan var ekki alveg sammála þessari þörf og þegar ég var sótt, legvatnsblaut upp að olnboga og með blóðslettu á nefinu, var heilt þing lögreglumanna að kvabba um hversu ósvífin þessi lagning var.
Ég var með svör á takteinunum og málið leystist fljótt og örugglega enda hef ég áður staðið í ýmsum viðræðum við lögregluflotann hér í Hong Kong og þetta var klárlega í minnihátarmála-flokknum.
Ég var því nokkuð glöð með mig bara þegar ég keyrði að fæðingu lokinni í vinnuna til að skila af mér einu og öðru og þegar í mig var hringt tók ég upp símann án þess að vera nokkuð endilega að velta mér frekar upp úr lögum og reglum borgarinnar og tók því ekki nema tíu sekúndur fyrir einn laganna þjón að koma aftan að mér - aftur.
Það er stundum gott að vera á merktum bíl en stundum ekki og þegar SMS unum með brosköllum og gríni tók að rigna yfir mig frá kúnnum og vinum sem voru einmitt einnig á leiðinni í vinnuna þennan morgun og sáu mig vera í enn einu pull-over-inu af lögreglunni, var mér lítil kæti í huga.
Maðurinn vildi endilega upplýsa mig um allar hætturnar sem fylgdu því að tala í síma á ferð og ég reyndi að segja hversu sammála ég væri honum og að þetta væri að sjálfsgöðu þeim sem hringdi í mig að kenna en ekki mér og að ég myndi aldrei gera þetta aftur og allt það (ég hélt um tíma að ég væri í Sjálfstæðisflokknum eða Framsókn, ég hrað... talaði svo mikið).
Svo var ég alveg komin inn í horn og hann vildi ekki gefa sig, þegar mér datt snilldar ráð í hug. Við hlið mér í sætinu sat gulur poki sem ég var á leið með í sóttmengunarfyrirtækið og efst í honum var dallur með hluta af afurðum fæðingarinnar. Ég reif því í dallinn og rak fram í lögreglunnar þjón og kallaði á hann skrækum rómi að ég væri á leið á spítala og það væri urgent, hér væri líffæri.
Maðurinn hafði líklega aldrei séð fylgju og varð mjög um við þessa sýn.
En mér var sleppt á stundinni og leið dágóð stund áður en hann steig á hjólið sitt, hann klóraði sér lengi í hjálminum og stóð þarna á hliðarlínunni ennþá þegar ég brunaði áfram mína leið, - sektarlaus þrátt fyrir þrálát brot þennan morguninn.
Og klukkan ekki einu sinni orðin átta.
Hver segir að fylgjur séu ekki magnaðar.
Athugasemdir
Hahaha, það er dásamlegt að fylgjast með þér kæra vinkona :-)
Luv. Birna
Birna Kristín (IP-tala skráð) 24.4.2013 kl. 08:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.