Ég er alltaf að reyna að verða aðeins betri manneskja. En hið slæma í mér verður of oft allráðandi. Og nú mun þetta blogg verða alveg skelfilegt aflestrar. Framsóknar-mér mun líða illa í nokkra daga því ég veit að það mun móðga eitthvað fólk og ég kann því illa, en samt get ég ekki orða bundist.
Það er nefnilega þannig að ég er útivinnandi móðir fjögurra barna. Og mér er alveg lífsins ómögulegt að vera nokkuð annað en einmitt það og hef þá skoðun að ég vil gjarna að dætur mínar, t.d. alist upp við það að menntun mín (og þeirra) muni nýtast í starfi sem vonandi er skemmtilegt og gefandi fyrir þær. Ég þekki fullt af flottum heimavinnandi konum og sé marga kosti við þeirra líf líka og er þessu bloggi ekki ætlað að deila á þær bara svo það sé á hreinu. Eftir all, hver vill ekki eiga mömmu sem er heima og knúsar mann þegar maður kemur heim úr skólanum, eldar góðan mat, er alltaf falleg og hlý og hjálpar manni við heimalærdóminn. Er vinur vinanna og til staðar þegar þarf á að halda.
Hér í Hong Kong er nokkuð algengt að útlendingar eins og ég komi og búi í nokkur ár í senn. Oftar en ekki vegna starfs eiginmannsins (hér er fólk gift, ekki trúlofað). Svo að ég setji fram steríótýpurnar þá er konan heima(vinnandi) og fer í hádegisverð og hand- og fótsnyrtingu, spilar dáldið majong, fer kanski í kínverskutíma þó hún noti aldrei kínverskuna nema til að kalla að þjóninum um leið og hún réttir upp fransksnyrtan vísifingur og otar að honum kreditkorti eiginmannsins, svo þarf hún kanski að fara aðeins á markaðinn og náttúrulega í lífrænu búðina á leiðinni heim.
Einkabílstjórinn bíður fyrir utan en hún talar hátt í símann þegar hún gefur leiðbeiningar um við hvaða útgang verslunarmiðstöðvarinnar hann skuli bíða. Er hann ekki örugglega búinn að festa barnabílstólinn í, því þau eru næst að fara í leikskólann þar sem (hún) nær í börnin og nær svona helstu fréttum af nágrönnunum í leiðinni þar sem hún bíður fyrir utan með hinum mömmunum. Þær eru líka vel snyrtar og á flatbotna skóm í þröngum buxum. Hálsmálið á bolnum er passlega hátt svo ekki sést í skoruna en brjóstin sitja hátt. Sólgleraugun á sínum stað og það sést vel í merkið á veskinu, það er ekki frá síðasta ári by the way. Þær ræða hver eigi að koma með hvað á næsta basar, sykurlausu súkkulaðikökurnar og glúteinfrítt kex. Það hringlar í armböndum og úrum þegar þær nota hendurnar til að leggja áherslu á orð sín.
Ég kem alltaf síðust að hliðinu, á hlaupum. Sveitt og hárið út um allt, líklega í marglitri teygju eins og Sarah Jessica Parker hélt fram að engin kona notaði nema hún væri úr sveitinni, dótið að springa upp úr töskunni minni sem er náttúrulega keypt á markaðinum og er með skökku gerfi Jimmy Choo merki á, alltof stóru, missi símann á stéttina en það skiptir ekki máli því hann er hvort sem er aðeins brotinn fyrir, hann hringir og ég þarf að tala við viðskiptavin á meðan hinar konurnar spjalla um börnin og sýna hverri annari vídeó af yngri krökkunum.
Ég reyni að tala lágt í símann því það er ekki svo geðslegt fyrir hinar að heyra um legvatn og kúkatilfinningu og hvernig best sé að nudda brjóst og hvort blæði mikið. Ég er í gallabuxunum mínum sem Anna Sigga keypti fyrir mig 2007 og mér finnst enn flottar, þær eru beinar og langt frá því að vera nýjasta línan. Það er örlítil fitufelling sem rúllar allan hringinn yfir buxnastrenginn. Þær taka eftir því af því að ég er með matarblett á bolnum í naflahæð og hann fangar athygli.
Af einhverjum undarlegum ástæðum afsaka ég mig þegar ég losna loksins úr símanum, vá hvað ég er glöð að ná í tíma, ég hélt ég yrði of sein og bla bla bla. En börnin eru ekki enn komin og þegar þau streyma niður stigann sé ég að Sögu minni hefur jú verið greitt í morgun. En fötin hefur annað hvort indónesíska barnapían sem er með Hello Kitty æði, eða Saga sjálf valið.
Flottur bolur segir ein mamman.
Þær fara sér hægt og spjalla á leiðinni út, skipuleggja leikdaga fyrir börnin og spyrja mig um Sögu. Á þriðjudaginn, flott. Komdu endilega með sundföt, við getum verið við laugina. Nja, það er eiginlega bara Saga sem kæmi, - ég er að vinna. Er það samt ekki í lagi?
Jú, eða hvað með fimmtudaginn? Jaaaa, ég vinn líka á fimmtudögum.
Við gætum gert þetta síðdegis líka? Jaaaa, það er nefnilega það, ég vinn sko eiginlega fulla vinnu (mjög afsakandi).
Löng þögn. Þetta er allt í lagi samt, við skulum bara hugsa um hana fyrir þig, við erum svo margar.
Ég er mjög þakklát. Fyrir þennan þriðjudag og alla hina, því ég kýs jú sjálf að vinna og er mjög glöð þegar aðrar mömmur sjá um mín börn og að baka og að vera duty mömmur í leikskólanum og rútunni og fara með krakkana í ferðir og ballett og leikdaga og afmæli og svo mætti lengi telja.
Ég reyni stundum að vera með í þessu - og það er næsta saga.
Athugasemdir
Hahahah elska þennan pistil Hulda.
Svava (IP-tala skráð) 9.2.2013 kl. 12:17
Hahahaha, ég sé þig nú alveg fyrir mér elsku vinkona og eiginlega hinar sögupersónurnar líka :-)
Haltu áfram að vera þú sjálf
Luv. Birna
Birna Kristín (IP-tala skráð) 11.2.2013 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.