hann
1.2.2013 | 12:59
Hann opnaði dyrnar og labbaði yfir til hennar hægum skrefum, letilegur, hún var búin að svara láta vinkonu sína vita að hún nennti alls ekki að koma í hvítvínsglas, jafnvel þó tilefnið væri gott, vinkonan var að fá stöðuhækkun.
Hann var miklu yngri en hún, stundum var hún ekki í rónni yfir því. Hann var meðalmaður á hæð og vel byggður, einn af þeim sem var frá náttúrunnar hendi fallega samsettur með stinnan rass, sterkleg læri og örlítið hjólbeinóttur. Hann hélt unglingslegum og sterklegum vextinum þrátt fyrir að vera grannvaxinn heilt yfir og henni fannst gott að strjúka yfir þétta upphandleggsvöðvana og bakið. Hann fór í fótbolta með vinum sínum reglulega en hann þurfti ekkert að hreyfa sig til að halda vextinum. Þau voru öll svona systkinin, alveg sama hvernig aldurinn færðist yfir þau, þau bara héldu sér vel. Mamma þeirra dó fyrir mörgum árum og pabbi þeirra sem var vel yfir sjötugu gat valið úr konum eins og honum þóknaðist.
Henni fannst þetta ekki sanngjarnt, hennar megin var ansi mikil vinna lögð í að viðhalda æskuljómanum og hún fór oft í bæði jógatíma og út að hlaupa með hópnum úr líkamsræktinni. Það gaf henni þrótt og sjálfstraust og hún naut þess en vissi jafnframt að það þýddi ekki að slá slöku við því þá myndi hún um leið bæta á sig aukakílóum og mæðast um leið og slíkt var alveg ómóðins í hópnum.
Hún hafði aldrei haft af þessu áhyggjur fyrr en hún heyrði konu úr vinnunni tala um hann; hvað hann væri að vera með henni, hann sem væri svona mikill töffari og yngri og allt það. Það var satt það var töffari í honum og dulúð en hann lét hana samt finna að hann vildi bara hana. Oftast að minnsta kosti. Fyrir utan þetta eina sinn þegar þau fengu símtalið, hún vildi bara gleyma því, þó auðvitað væri það ómögulegt.
Hann dúaði aðeins þegar hann gekk. Það var langt á milli hnjánna. Hún fékk enn sama fiðringinn og þá þegar hún sá hann fyrst. Það sem kveikti mest í henni var hvað hann var augljóslega spenntur fyrir henni. Hún fór heim það kvöld og gekk frá sambanhdsslitum sem hún hafði lengi reynt að klára.
Nú bjuggu þau hérna og hún var með þenna óþægindafiðring. Hann labbaði fram hjá henni og lagði bíllyklana á eldhúsbekkinn um leið og hann strauk í gegnum hárið. Hún vissi að hann langaði í bjór en auðvitað fékk hann sér hann ekki.
Hann leit á hana yfir gleraugun sem hann var nú búinn að setja upp. Hún vissi ekki hvað koma skyldi. Þekkti hún hann yfirleitt? Þetta var hennar heimili. Hann brosti og spékoppurinn blasti við henni. Hún átti í mesta basli með sig. Hann bleytti varirnar. Hún stóð upp.
Athugasemdir
Vá Vá færist meiri spenna í leikinn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2013 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.