Föstudagskvöld

Konan varpaði öndinni léttar þegar hún sá að börnin hans voru ekki komin til að vera hjá þeim í mat þetta kvöldið.  Þau voru búin að vera óvenju mikið saman vikurnar á undan og hún var orðin þreytt á kvöldum sem ekki virtust taka enda, vínflösku eftir vínflösku og sömu umræðurnar endurteknar.  Henni fannst þau skemmtileg en systkinin voru frekar kröfuhörð á pabba sinn sem var glaður að sjá þau en hafði samt nóg að gera, sérstaklega á þessum árstíma.  Konan óskaði þess stundum að börnin hefðu meiri skilning á þessu; skilning á því að hann var þreyttur og löngu búinn að skila sínu, nú vildi hann gjarna eiga kvöldin fyrir sig í afslöppun.  Með henni náttúrulega.  Sem betur fer kom þeim vel saman, henni og börnunum.  Sérstaklega henni og drengnum, hann var alveg að verða búinn með háskóla og var auðveldur í umgengni þó hann væri mjög skoðanasterkur.

Hún átti í erfiðleikum með að segja opinskátt við nokkurt þeirra að fengi hún að ráða, væru þau aðeins fjær hverju öðru en hvernig gat hún sagt það þegar hún vissi líka að fjölskyldan var þeim öllum svo mikilvæg.  Hún vildi ekki spilla stemmingunni. 

Hún hellti sér í glasið og stillti útvarpið á Rás 1.  Hún hallaði sér aftur í stólinn og beið eftir að hann kæmi heim.  Hún hafði átt von á að hann væri kominn heim á undan henni.  Og að þau sætu þarna öll og spiluðu eða eitthvað þvíumlíkt.  En íbúðin var auð og meira að segja var eins og allt húsið væri autt, það voru engin hljóð anddyrinu og lyftan leið upp án þess að nokkuð heyrðist. 

Föstudagssíðdegi voru sérstök í hennar huga.   Stemming sem þurfti ekki að skapa  sem á einhvern einstakan hátt virtist búa sjálfa sig til þegar líða tók á daginn, líklega áhrif frá útvarpinu og umræðunni og þessari sameiginlegu tilfinningu flestra sem vinna níu til fimm vinnu.  Löngunin til að koma við og kaupa helgarskammt í Ríkinu, kanski að fá góða osta og smá hráskinnku, það gætu litið við gestir og líka gott þegar þau voru bara tvö.  Stundum var hún beðin um að vinna lengur og þá fann hún hvernig hún réði ekki við sig, hún vildi ekki segja nei en varð samt svo pirruð á að verið væri að taka af þessum eftirmiðdögum.  Sumt fólk virtist illa skilja hversu mikilvægt er að njóta ákveðinna stunda, stemmingar, heimavið. 

Nokkrir í vinnunni voru talsvert yngri en hún.  Hún fann hvernig þau vissu ekki alveg hvort þau ættu að bjóða henni með þegar þau voru að tala sig saman um að hittast eftir vinnu, hún var líklega aðeins of gömul til að þeim fyndist það sjálfsagt en hún var vel liðin og smart kona og hún vissi að þau vildu gjarna bjóða henni með.  Þegar hún hugsaði betur um það þá áttaði hún sig á föstudagsstemmingunni og hvað þau áttu þátt í að búa hana til, þau ungu.  Umræðurnar og tilfinningin í kringum þennan hóp samstarfsmanna hennar, þegar líða tók á vikuna og upp úr hádeginu á föstudögum, þetta voru þesslags umræður.  Föstudags.

Hún skildi ekki af hverju hann var ekki kominn heim.  Hann var nánast alltaf kominn fyrr en hún.   Hún sparkaði af sér skónum sem voru opnir og kvenlegir.  Það var komin tími á fótsnyrtingu, hún sá hvernig dökkrautt naglalakkið var farið að flagna á stórutánni.   Hún hallaði sér aftur, stóllinn var þægilegur, hann var frá föðurbróður hennar sem minnkaði við sig fyrir nokkru, einn af þessum gömlu góðu mublum sem ekki var lengur auðvelt að finna. 

Það var ekki fyrr en gall í símanum að hún hrökk upp og áttaði sig á að hún hafði greinilega sofnað djúpum svefni.   Henni var eitthvað órótt þegar hún svaraði, það var óþægilegt að vakna við hringinguna.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nú bíð ég spennt eftir framhaldinu Hulda mín.  Úffs...

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2013 kl. 12:01

2 identicon

Lofar virkilega góðu, ég bíð spennt...

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband