Leitin að minningum

Í mínum huga eru það mikil forréttindi að hafa alist upp úti á landi.  Minningarnar úr æsku frá litlu sjávarplássi eru endalausar og þó ef til vill hafi ég ekki gert mér grein fyrir því á þeim tíma þá veit ég nú að þær eru ómetanlegar.  Eftir því sem ég eldist og þroskast geri ég mér líka grein fyrir því að svo margt sem ég geri í núinu er hálfgerð endurgerð – eða leit að gömlum minningum og upplifunum.  Skiljist á jákvæðan hátt, auðvitað er eðlilegt að vilja endurtaka góða hluti í hófi, ég meina að sjálfsögðu ekki að maður geti ekki notið augnabliksins.

Kvöldinu í kvöld eyddi ég með frábæru fólki sem ég þarf aðeins að fjalla um síðar því það var merkileg saga sem mér var sögð í tilefni fæðingar góðrar konu nokkrum áratugum fyrr.  En klukkan 22 hófust síðan tónleikar sem ég hef undanfarin ár þurft að hlusta á í gegnum veraldarvefinn og Bylgjuna.  Og að þessu sinni var ég nú stödd á Íslandi svo ég gat notið þeirra af 7unda bekk.

bubbi morthens

Í minningunni kom Bubbi Morthens á hverju ári á Kópasker og hélt tónleika.  Það var alltaf gott veður og þetta voru alltaf frábærir tónleikar.  Það hafa líklega verið ca 40 manns á þeim í hvert sinn. 

Með árunum, eftir því sem Bubbi er meira sjáan- og heyranlegur, hef ég haft aðeins minni áhuga á að hlusta á hann því hann blaðrar oft allskonar vitleysu sem betur væri ósögð.  En það verður ekki frá honum tekið að hann er einlægur og hann er alveg frábær trúbador.  Ef hann myndi segja aðeins færri og styttri sögur á milli laga væru tónleikar með honum meiriháttar.

Og í kvöld sat ég á 7unda bekk og fékk að njóta einstakra tónleika með Bubba Morthens.  Fyrir utan smá útúrdúra var lagavalið vel balanserað, góð samsetning af gömlu og nýju, góðar sögur í textunum og tilbreyting og hann söng betur en nokkru sinni.  Ekkert mix og fix, bara Bubbi og gítarinn á sviðinu, frábært frá A til Ö.   Hann á svo mikið eftir, ég er alveg ósammála þeim sem segja að hans tími sé liðinn.  Hann er bara bestur í þessu formi, ekki í útvarpi.

bubbi

Ég er ekki frá því að ég hafi endurlifað stemminguna frá því í Gryfunni í Grunnskólanum á Kópaskeri í gamla daga, ég sat alveg dolfallin þarna á 7unda bekknum.

Bubbi sendir fólk heim með fallegar hugsanir og boðar gott og fallegt erindi.  Ég er viss um að flestir sem sátu í Hörpunni í kvöld voru glaðir að hafa farið að upplifa þessa tónleika.  Því þetta var ekki bara hlustun, miklu meira.  Takk fyrir Bubbi Morthens, þú kryddar og fyllir vel út í þennan heim.  Og takk fyrir að hjálpa mér við að finna enn eina góða minningu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband