Góður maður
20.12.2012 | 11:58
Ég hef verið svo lánsöm í gegnum árin að hitta fyrir og verða samferða mörgum góðum mönnum og konum. Sumir halda áfram að vera innan radíuss en svo eru margir sem maður hittir ekki árum saman.
Ég hef oft hugsað til eins manns sem var mér ákaflega góður þegar ég var í MH og átti svo sannarlega ekki mínar bestu stundir annars - og í leit minni að hamingju þar innan veggja skólans sá ég þann kost vænstan að reyna að klára námið á sem skemmstum tíma, svo leiðinlegt þótti mér í þessum skóla. Eitt af skrefunum í þá átt var að skrá mig í kvöldskóla til þess að ná að klára fleiri áfanga og fyrir valinu varð að læra rússnesku hjá Ingibjörgu Hafstað sem tók mig að sér þó önnin væri hafin og reglum skólans samkvæmt var eiginlega ekki leyfilegt að vera í kvöld og dagskóla.
Fljótt kom í ljós að hinir nemendurnir voru vel á veg komnir og stóðu sig öll afar vel í þessum frábæra rússneskuáfanga, sem var án efa einn sá skemmtilegasti sem ég tók í skólanum. Þarna var raunverulega fólk sem var að læra af því að það langaði til þess. Og til þess að ég héldi dampi varð ég að fá aðstoð. Þar kom nú þessi ágæti maður og tók mig að sér, og heitir hann Loftur. Ég er ekki viss um föðurnafnið, og ef þú lest þetta kæri Loftur, endilega láttu mig vita, því ég vil svo sannarlega setja það í minnið.
Í gær var ég þeirrar gæfu aðnjótandi, eftir 20 ár eða svo að sjá og hitta Loft á ný. Gleði mín var ósvikin því þarna er á ferðinni mikið eðalmenni, afbragðsvitur og skemmtilegur og góður innúr og útúr.
Þessa önn sá hann um að koma mér áfram í rússneskunni og ekki nóg með það, heldur útvegaði hann mér vinnu hjá Skeljungi þar sem við stóðum vaktina saman stundum í litlu stöðinni í Skógarhlíð með góðum köllum sem kenndu mér að skipta um olíu, strekkja viftureimar og annað, auk þess sem þeir létu aldrei neinn fara án þess að þvo framrúðuna. En þetta var eðalstöð og er enn, með alveg sérstöku andrúmslofti og fastakúnnar sem komu í kaffi aftur og aftur.
Ég mun aldrei gleyma hversu skemmtilegt allt í einu varð að vera í MH, meðal annars fyrir þær sakir að Loftur og rússneskufólkið kryddaði tilveruna mjög.
Loftur, frábært að hitta þig og eins og þú sagðir nú alltaf sjálfur um Toyotuna þína, að sjá að þú ert still going strong.
Hefst hér með umfjöllun um gott samferðafólk, mikið er gaman að rifja upp. Meira síðar.
Athugasemdir
Falleg hugljúf færsla Hulda mín. Gott að lesa svona rétt fyrir jólin.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.12.2012 kl. 12:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.