Föst í því gamla
18.11.2012 | 01:31
...ekki bara þegar ég blogga, ég er gömul sál og kvarta sumir fjölskyldumeðlimir yfir því. Elvar, stjúpsonurinn og au-pair stúlkan okkar, þekkir t.d. ekki tónlistina sem ég spila hér um borð, hann hefur aldrei heyrt sumt af því. Ég held að hann sé fæddur ca 1986.
Ég hef áður bloggað um þetta og verð bara að gera það aftur. Það er enn og aftur um kynslóðina okkar (áfram Sighvatur), og tengist árstímanum nú þegar Helgi Bóndi er rétt búinn að eiga afmæli og mamma og afi heitinn og nú bráðlega amma heitin. Á þessum tíma árs er farið að huga að laufabrauðsgerð, líka hér í Hong Kong þar sem við sitjum í 20 gráðum og eigum erfitt með að finna rúgmjöl.
Þegar ég var yngri var laufabrauðsgerðin, eða í það minnsta útskurðurinn, á degi sem var vel valinn í samráði, eða eftir því hvernig hagaði til, við nokkra aðra í þorpinu. Aðallega réðst það af því hvaða dag Anna í Tungu skar út sitt laufabrauð því hún átti járnið sem var notað í útskurðinn. Ég man eftir að hafa skriðið yfir skafla til að ná í þetta til hennar og fara löngu leiðina því ef maður bankaði að norðanverðu þá heyrði hún ekki og kom seint eða ekki til dyra. En að því gefnu að enginn væri með járnið í láni þá fékk maður það og yfirleitt fór meiriparturinn úr degi í þetta hjá allri fjölskyldunni. Ég veit ekki betur en Anna í Tungu sé dáin og það væri fróðlegt að vita hvernig er með laufabrauðsframleiðslu í þorpinu þessi árin.
Fyrir þremur árum datt okkur í hug hérna megin í heiminum að skera út laufabrauð og var ljóst um leið að aðeins einn dagur kæmi til greina til útskurðarins, og var sá dagur eftir eina viku. Það var því hringt í Rósbjörgu mömmu Strúllu sem undireins átti að hlaupa út í búð á Akureyri, kaupa besta járnið og senda í DHL til Hong Kong og gerði hún þetta orðalaust.
Sem er ástæða bloggsins. Hér áður fyrr vorum við nýtin og hagsýn. Af hverju þurfa allir að eiga laufabrauðsjárn sem er bara notað einu sinni á ári? Fyrir utan skemmtilegheitin við að eiga samskipti við nágrannana, smá kaffisopi í ferðinni til að fá lánað og spjall um daginn og veginn. Fréttir af því hvað hinir í þorpinu eru að gera. Nei, okkur datt í hug að gera laufabrauð og þá þurftum við að fá það sem þarf til þess, strax í dag. Ég velti fyrir mér hvernig eldra fólki sem raunverulega var fjárhagslega aðþrengt í gamla daga líður að horfa upp á þetta. Því mín kynslóð er síkvartandi og kveinandi. Henni finnst hún "eiga rétt á" þessu og hinu. Enn og aftur þá kvíði ég tímanum þegar foreldrar mínir, ömmur og afar eru ekki lengur hér, hver á að minna okkur hin á að það voru einu sinni tímar þar sem fólk, almenningur, flestir, höfðu það raunverulega skítt hvað varðar fjármál heimilanna (er það ekki hvernig þetta er orðað í dag annars, ég efast um að amma mín hafi nokkurn tímann sagt "fjármál heimilanna"). Kanski ekki svo skítt en þurftu raunverulega að vera hagsýn. Og ég er ekki endilega að tala um ennþá eldra fólk eins og ég er að lesa um í sögunum hans Tryggva Emilssonar, heldur bara kynslóð foreldra minna. Sem vann með höndunum fyrir hverri krónu.
En nú þarf ég að fara út í búð og kaupa mér eitthvað. Mér líkar ekki útlitið á hinu sem ég á.
Svona nákvæmlega er kynslóðin mín. Áfram Sighvatur.
Athugasemdir
Skemmtileg færsla og á vel við í snjónum hérna meginn Hulda mín. Já í þá daga var sparað, fólk sem hafði upplifað skömmtun á öllu mögulegu, smjöri, kaffi og öðru þarfa þingi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 01:51
Trúi þér ekki Hulda... Sighvatur var dónalegur að klína öllu á eina kynslóð, kannski sannleikskorn í því sem hann hafði fram að færa en ekki hafði hann gáfur til að átta sig á eigin hlut í þessari sjálhverfu þjóðarinnar
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 21.11.2012 kl. 09:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.