Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Hvað ég væri fátæk ef ég hefði ekki fengið að alast upp með ömmu nálægt

Í dag er sérstakur dagur.  Amma mín fæddist og kvaddi á honum og þó hún sé löngu farin á góðan stað þá hugsa ég tiAmma í Laxárdall hennar á hverjum degi. 

Við stúlkurnar kveiktum á kertum í morgun fyrir yndislega konu.  

Knús og koss til þín elsku amma.

 


Framsóknaróræði

GOtt var nú að fá innslagið frá þér Hrafnhildur mín, Bjarki kunni ekki við að skella þessu inn því hann er svo kurteis við stóru systur,  því já, þetta er algjörlega rétt hjá ykkur, auðvitað eiga aðrar "kynslóðir" heilmikið í því hvernig komið er.  Ég varð bara að skella inn einhverju sem myndi vekja viðbrögð.  Ég er bara eins og ættar til hjá mér, á framsóknarmiðjunni og vildi gjarna vekja máls á þessum hluta málsins. 

En það er alveg rétt, því miður er þjóðin okkar full af eiginhagsmunaseggjum og við þörfnumst þess heitt og innilega að fá utanaðkomandi aðstoð frá einhverjum sem eiga ekki hagsmuna að gæta og kunna sitt fag - einhverjum sem ekki reynir að taka fría sjálfan sig undan ábyrgð á því sem búið er að gerast, er ekki að eltast við hina sem eru í pólítísku stríði og er ekki að reyna að moka undir sig í því ástandi sem nú ríkir í landinu.  

Það eru afar fáir sem búa í þessu annars frábæra landi, sem geta stjórnað því án eiginhagsmunaárekstra.  Nefnið einn?

 

Ég er samt enn þeirrar skoðunar að það er voðalegt væl í fólki sem hefur það ekkert bágt.  Mig langar alveg að hjálpa hinum, sem raunverulega þurfa á því að halda.  Þeir týnast bara í margmenninu því miður. 

 

 


Föst í því gamla

Amma og Hulda

...ekki bara þegar ég blogga, ég er gömul sál og kvarta sumir fjölskyldumeðlimir yfir því.  Elvar, stjúpsonurinn og au-pair stúlkan okkar, þekkir t.d. ekki tónlistina sem ég spila hér um borð, hann hefur aldrei heyrt sumt af því. Ég held að hann sé fæddur ca 1986. 

Ég hef áður bloggað um þetta og verð bara að gera það aftur.  Það er enn og aftur um kynslóðina okkar (áfram Sighvatur),  og tengist árstímanum nú þegar Helgi Bóndi er rétt búinn að eiga afmæli og mamma og afi heitinn og nú bráðlega amma heitin.  Á þessum tíma árs er farið að huga að laufabrauðsgerð, líka hér í Hong Kong þar sem við sitjum í 20 gráðum og eigum erfitt með að finna rúgmjöl. 

Þegar ég var yngri var laufabrauðsgerðin, eða í það minnsta útskurðurinn, á degi sem var vel valinn í samráði, eða eftir því hvernig hagaði til,  við nokkra aðra í þorpinu.  Aðallega réðst það af því hvaða dag Anna í Tungu skar út sitt laufabrauð því hún átti járnið sem var notað í útskurðinn.  Ég man eftir að hafa skriðið yfir skafla til að ná í þetta til hennar og fara löngu leiðina því ef maður bankaði að norðanverðu þá heyrði hún ekki og kom seint eða ekki til dyra.  En að því gefnu að enginn væri með járnið í láni þá fékk maður það og yfirleitt fór meiriparturinn úr degi í þetta hjá allri fjölskyldunni.  Ég veit ekki betur en Anna í Tungu sé dáin og það væri fróðlegt að vita hvernig er með laufabrauðsframleiðslu í þorpinu þessi árin.

Fyrir þremur árum datt okkur í hug hérna megin í heiminum að skera út laufabrauð og var ljóst um leið að aðeins einn dagur kæmi til greina til útskurðarins, og var sá dagur eftir eina viku.  Það var því hringt í Rósbjörgu mömmu Strúllu sem undireins átti að hlaupa út í búð á Akureyri, kaupa besta járnið og senda í DHL til Hong Kong og gerði hún þetta orðalaust.  

Sem er ástæða bloggsins.  Hér áður fyrr vorum við nýtin og hagsýn.  Af hverju þurfa allir að eiga laufabrauðsjárn sem er bara notað einu sinni á ári?  Fyrir utan skemmtilegheitin við að eiga samskipti við nágrannana, smá kaffisopi í ferðinni til að fá lánað og spjall um daginn og veginn.   Fréttir af því hvað hinir í þorpinu eru að gera.   Nei, okkur datt í hug að gera laufabrauð og þá þurftum við að fá það sem þarf til þess, strax í dag.  Ég velti fyrir mér hvernig eldra fólki sem raunverulega var fjárhagslega aðþrengt í gamla daga líður að horfa upp á þetta.  Því mín kynslóð er síkvartandi og kveinandi.  Henni finnst hún "eiga rétt á" þessu og hinu.  Enn og aftur þá kvíði ég tímanum þegar foreldrar mínir, ömmur og afar eru ekki lengur hér, hver á að minna okkur hin á að það voru einu sinni tímar þar sem fólk, almenningur, flestir, höfðu það raunverulega skítt hvað varðar fjármál heimilanna (er það ekki hvernig þetta er orðað í dag annars, ég efast um að amma mín hafi nokkurn tímann sagt "fjármál heimilanna").  Kanski ekki svo skítt en þurftu raunverulega að vera hagsýn.  Og ég er ekki endilega að tala um ennþá eldra fólk eins og ég er að lesa um í sögunum hans Tryggva Emilssonar, heldur bara kynslóð foreldra minna.  Sem vann með höndunum fyrir hverri krónu. 

En nú þarf ég að fara út í búð og kaupa mér eitthvað.  Mér líkar ekki útlitið á hinu sem ég á.

Svona nákvæmlega er kynslóðin mín.   Áfram Sighvatur.


Landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið

Ég sé að bloggið logar allt af pólitískri umræðu.  Það er mikið rætt um það hvor étur meira af hinum, landsbyggðin eða höfuðborgarsvæðið.  Það er greinilegt að fólk horfir á þetta mjög frá misjöfnu sjónarhorni. 

Ég fylgist ekkert mjög náið með, en minnist þó ekki að hafa séð margar greinar um sameiningu höfuðborgarsvæðisins alls, - lítil frétt um daginn um að Garðbæingar ætluðu af náð og gæsku að taka aumingja gjaldþrota Álftanesið undir vænginn, en annars er ekki mikið um þetta rætt. 

Möguleg færsla á flugvellinum fékk gríðarlega umræðu úr öllum áttum.  

Ég fæ alls ekki skilið af hverju sameining höfuðborgarsvæðisins er ekki augljós og eitt stærsta málið sem ætti að vera á dagskrá þessa dagana, getur einhver frætt mig um þetta.  

 

 


Ónytjungsháttur og verkvit

Sem foreldri er afar auðvelt að vera sífellt með áhyggjur.  Sem betur fer er ég oftast laus við það samt, ég næ að bægja frá mér hugsunum um að eitthvað illt hendi börnin mín, svona að mestu.  Það er eitt sem hefur þó alltaf truflað mig aðeins og nú þegar blessaður Sighvatur er að hræra upp í þjóðinni með skrifum sínum,  - sem að mörgu leyti ég er reyndar sammála þrátt fyrir harkalegan málflutninginn, þá langar mig að skrifa um ónytjungshátt. 

Alveg frá því að ég fór sjálf að heiman og kaus að vinna fyrir mér með náminu, þá hef ég þakkað mínum ágætu foreldrum og uppeldisleiðtogum fyrir að hafa kennt mér að nota hendur og haus og sjá sóma minn í að vera til gagns.  Það er nefnilega ekki sjálfgefið og varðandi mín eigin börn hefur þetta eiginlega verið mitt helsta áhyggjuefni,  því kynslóðin, svo ég noti nú Sighvats orð, sem nú er að alast upp er því miður sú kynslóð sem hefur eiginlega ekki mátt vinna fyrr en hún er orðin fullorðin og það er að mörgu leyti horfin sú hefð að börn fái sér vinnu á sumrin og með skóla.  Við foreldrarnir erum gjarnan útivinnandi og erum ekki að eyða neitt sérstaklega löngum tíma í að leiðbeina þeim með tæki og tól þessa fáu klukkutíma sem við hittumst heima á kvöldin. 

Aðgengi að sveitum er minna og þar sem verið er að sporna við barnaþrælkun er fjöldinn allur af börnum sem þó eru stálpuð sem ekki hafa neitt við að vera.  Þau sitja bara í tölvum yfir daginn og eru í gerfiveröld.  Þau kunna alls ekki að vinna og verkvit er í algjöru lágmarki. 

Eða hvað, er þetta bara vitleysa, klisja sem eldra fólk tyggur?  Hversu margir unglingar í dag kunna að þrífa, skúra, skipta um dekk, sparsla og mála, elda mat, setja í þvottavél, smíða, bora, skipta um kló, bakka með kerru, búa um rúm án þess að það sé teygja í lakinu, hella upp á kaffi, rétta af lamir, smíða girðingar, skipta um olíu, flaka fisk osfrv osfrv.  Og hversu margir finna hjá sér þörf til að gera eitthvað af þessu yfirleitt?   Nú meina ég ekki að þetta sé unglingunum einum að kenna; það er margt sem hefur gert það að verkum að svona er komið fyrir okkur, og við sem foreldrar berum sjálf mikla ábyrgð varðandi það að kenna börnunum okkar það sem okkur þykir oftast sjálfsögð skynsemi og verkvit – sem hvorugt er sjálfsagt né sjálflært.

Ég bý ekki á Íslandi og er ef til vill að fullyrða um eitthvað sem ég hef ekki góða yfirsýn yfir.  Og að sjálfsögðu, rétt eins og  hér í Hong Kong er fjöldinn allur af vel heppnuðum unglingum sem vita hvað þau vilja og eru eldklár og metnaðargjörn.  Þau þurfa að hafa fyrir lífinu og hafa aðgang að eldra fólki sem kann að vinna og er duglegt.  En það er að minnsta kosti eins stór hópur sem er alveg hið öndverða, að hluta til vegna þess að þeirra heimur, þeirra umhverfi, fjölskyldur, aðstæður, bjóða ekki upp á annað.  Hvatning til þess að taka þátt i verkum er ekki til staðar og börnin hafa ekki það hlutverk lengur að sjóða kartöflur eða passa systkini sín.   Enda þurfa þau þess raunar ekki, það er annað fólk sem getur séð um þetta.   

Ég velti þessu oft fyrir mér. Hvað er langt í það að ömmur okkar og afar og mömmur okkar og pabbar verða horfin á braut og með þeim stemmingin sem tengist því að gera hlutina sjálfur.  Ég er ekki viss um að mín kynslóð eigi eftir að standa sig og hvað verður þá um vinnusemi og verkvit eftir 50 ár? 


Jólakjóll

Ég ætlaði fyrir löngu að vera búin að skrifa færslu - einmitt á Facebook- um jólakjólasaumaskap.  Það var  nefnilega þannig að ég las aðra færslu þar sem verið var að spá í hvar best væri að kaupa jólakjól á unga stúlku og varð mér þá hugsað til þess hvernig margt hefur breyst í þessum efnum. 

Sjálf getum við, fjölskyldan mín, yfirleytt illa ákveðið hvað gera skal á jólunum varðandi jólaföt. Í aðra röndina viljum við hafa börnin og kanski okkur sjálf fín og sérstaklega vel uppábúin því þá lyftist hátíðleikinn aðeins upp, þetta á sér í lagi við hér í Hong Kong þar sem ekki er annars mjög jólalegt um að litast.  En á hinn bóginn er maður svo nýtinn að ég hugsa um það hversu lítið svona fínir kjólar notast og verður því oftast úr að kaupa föt sem geta gengt hlutverkinu að vera bæði jólaleg og fín - og að geta notast það sem eftir er ársins.  

Þetta vakti upp minningar úr æskunni þegar við sátum systkinin kvöld eftir kvöld í sófanum að horfa á sjónvarp eða í einhverjum leikjum saman (ég man að við vorum saman því mamma var alltaf að "trufla") og mamma sat inni á gangi við mjög hræðilegt ljós en þó stundum lampa - þetta er farið að hljóma eins og lýsing á torfkofa en hvað um það, - og sneið og saumaði á okkur jólafötin.  Þetta var líklega raunveruleiki flestra húsmæðra á þessum tíma og höfðu eflaust mjög gaman af stundum en mikið óskaplega hlýtur þetta að hafa verið lýjandi og mikið þolinmæðisverk.  Ég man sérstaklega eftir bláum kjól tvískiptum sem mamma saumaði á okkur systur báðar og þurfti annað hvort að stækka eða minnka eftir að hann var langt kominn, með púffermum og öllu skrallinu.   Og svunta við.  

Ég verð bara að segja að ég man að þetta voru mjörg kvöld og mikil vinna, ég man að ég varð afar pirruð að þurfa alltaf að vera að máta og ég hafði illan skilning á afhverju þetta þyrfti að vera svona mikið mál.  Nálar að stingast í mann sínkt og heilagt og ég sem var frekar klunnaleg á þessum tíma þó það sé löngu liðið átti erfitt með að rífa ekki á öxlum þegar ég tróð mér í.

Nú er öldin önnur,  stekkur maður ekki bara  í HogM og kaupir á 5 mínútum einhverja druslu á ungana og heldur svo áfram á Facebook. 

Ég þakka hér með mömmu innilega fyrir þessi löngu saumakvöld og daga og get með stolti sagt að kjóllinn var amk mjög fallegur þessi blái og ég get lýst honum í smáatriðum enn þann dag í dag, þó ekki hafi ég þakkað fyrir hann á sínum tíma.  

 

Bestu kveðjur í snjóinn heima, hér er líka kalt og við slökktum á loftkælingunni í fyrradag. 

 


Bloggbyrjun

"Þú ert bara alltaf á Facebook" fékk ég að heyra um daginn.  Það var sannmæli því ég nota Facebook mikið og ef ég er í tölvunni eru hún oftast opin, svipað og Skype var áður.  Það er auðvelt að nota hana, skilaboð og spurningar komast hratt og vel áleiðis og ég fæ svar um hæl við öllu.  Það er líka svo auðvelt að nota Facebook í vinnunni til að ná til hópanna sem ég er að vinna með. 

Böggull fylgir þó skammrifi og þetta er tímaþjófur og er þvi miður búið að taka í burtu þá annars góðu hefð að blogga eða halda dagbók, sem var eitthvað sem ég gerði alltaf áður, eða allt frá því ég flutti hingað til Asíu fyrir rúmum ellefu árum.  Var svo komið fyrir blogginu að enginn las það lengur því Facebook var miklu fljótari með fréttirnar og fólk nennti ekki að bíða eftir bloggfærslum.  Og ég nennti ekki að skrifa þær.  Því miður hefur þetta orðið til þess að það er stórt gat í "dagbókinni" - og ég nenni ómögulega að fara í gegnum Facebook til að fletta í gegnum eigin þankagang og minningar um ferðir, gesti, daglegar athafnir. 

Því hef ég ákveðið að byrja aftur að blogga og hér með hefst það. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband