Jólakjóll

Ég ætlaði fyrir löngu að vera búin að skrifa færslu - einmitt á Facebook- um jólakjólasaumaskap.  Það var  nefnilega þannig að ég las aðra færslu þar sem verið var að spá í hvar best væri að kaupa jólakjól á unga stúlku og varð mér þá hugsað til þess hvernig margt hefur breyst í þessum efnum. 

Sjálf getum við, fjölskyldan mín, yfirleytt illa ákveðið hvað gera skal á jólunum varðandi jólaföt. Í aðra röndina viljum við hafa börnin og kanski okkur sjálf fín og sérstaklega vel uppábúin því þá lyftist hátíðleikinn aðeins upp, þetta á sér í lagi við hér í Hong Kong þar sem ekki er annars mjög jólalegt um að litast.  En á hinn bóginn er maður svo nýtinn að ég hugsa um það hversu lítið svona fínir kjólar notast og verður því oftast úr að kaupa föt sem geta gengt hlutverkinu að vera bæði jólaleg og fín - og að geta notast það sem eftir er ársins.  

Þetta vakti upp minningar úr æskunni þegar við sátum systkinin kvöld eftir kvöld í sófanum að horfa á sjónvarp eða í einhverjum leikjum saman (ég man að við vorum saman því mamma var alltaf að "trufla") og mamma sat inni á gangi við mjög hræðilegt ljós en þó stundum lampa - þetta er farið að hljóma eins og lýsing á torfkofa en hvað um það, - og sneið og saumaði á okkur jólafötin.  Þetta var líklega raunveruleiki flestra húsmæðra á þessum tíma og höfðu eflaust mjög gaman af stundum en mikið óskaplega hlýtur þetta að hafa verið lýjandi og mikið þolinmæðisverk.  Ég man sérstaklega eftir bláum kjól tvískiptum sem mamma saumaði á okkur systur báðar og þurfti annað hvort að stækka eða minnka eftir að hann var langt kominn, með púffermum og öllu skrallinu.   Og svunta við.  

Ég verð bara að segja að ég man að þetta voru mjörg kvöld og mikil vinna, ég man að ég varð afar pirruð að þurfa alltaf að vera að máta og ég hafði illan skilning á afhverju þetta þyrfti að vera svona mikið mál.  Nálar að stingast í mann sínkt og heilagt og ég sem var frekar klunnaleg á þessum tíma þó það sé löngu liðið átti erfitt með að rífa ekki á öxlum þegar ég tróð mér í.

Nú er öldin önnur,  stekkur maður ekki bara  í HogM og kaupir á 5 mínútum einhverja druslu á ungana og heldur svo áfram á Facebook. 

Ég þakka hér með mömmu innilega fyrir þessi löngu saumakvöld og daga og get með stolti sagt að kjóllinn var amk mjög fallegur þessi blái og ég get lýst honum í smáatriðum enn þann dag í dag, þó ekki hafi ég þakkað fyrir hann á sínum tíma.  

 

Bestu kveðjur í snjóinn heima, hér er líka kalt og við slökktum á loftkælingunni í fyrradag. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verði þér að saumaskapnum Hulda Þórey, þið voruð svo fínar í blau kjólunum systurnar. Petra hrönn erfði þá svo báða, svo það var þessi sama nýtni!

Mamma (IP-tala skráð) 11.11.2012 kl. 22:44

2 identicon

Eitthvað kannast ég við þessa umræðu :) En mín jólaföt í æskunni voru þó aldrei heimasaumuð, enda hálfri kynslóð yngri. En ég man samt eftir ótal ferðum með mömmu niður Laugarveginn í leit að jólafötum, ein jólin VARÐ það að vera bleikur kjóll og var farið í búð eftir búð eftir búð í leit að bleikum kjól. Önnur jól var keypt svaka sett, skyrta, vesti, pils, alpahúfa og oftast var þetta bara notað þessi einu jól. Hef mikið hugsað um þetta eftir að ég varð eldri því ég ólst upp hjá einstæðri móður og ekki endalaust peningaflæði...

En í dag er maður nýtinn og fötin ganga á milli strákanna allra og maður er praktískur í innkaupum og kaupir eitthvað sem hægt er að nota oftar eftir jólin, engir lakkskór og jakkaföt :) En viðurkenni að maður missi sig aðeins þegar það er komin lítil dama á heimilið...

Dagný Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 17.11.2012 kl. 11:21

3 identicon

ó man líka eftir títuprjónastungunum...

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 21.11.2012 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband