Ónytjungsháttur og verkvit

Sem foreldri er afar auðvelt að vera sífellt með áhyggjur.  Sem betur fer er ég oftast laus við það samt, ég næ að bægja frá mér hugsunum um að eitthvað illt hendi börnin mín, svona að mestu.  Það er eitt sem hefur þó alltaf truflað mig aðeins og nú þegar blessaður Sighvatur er að hræra upp í þjóðinni með skrifum sínum,  - sem að mörgu leyti ég er reyndar sammála þrátt fyrir harkalegan málflutninginn, þá langar mig að skrifa um ónytjungshátt. 

Alveg frá því að ég fór sjálf að heiman og kaus að vinna fyrir mér með náminu, þá hef ég þakkað mínum ágætu foreldrum og uppeldisleiðtogum fyrir að hafa kennt mér að nota hendur og haus og sjá sóma minn í að vera til gagns.  Það er nefnilega ekki sjálfgefið og varðandi mín eigin börn hefur þetta eiginlega verið mitt helsta áhyggjuefni,  því kynslóðin, svo ég noti nú Sighvats orð, sem nú er að alast upp er því miður sú kynslóð sem hefur eiginlega ekki mátt vinna fyrr en hún er orðin fullorðin og það er að mörgu leyti horfin sú hefð að börn fái sér vinnu á sumrin og með skóla.  Við foreldrarnir erum gjarnan útivinnandi og erum ekki að eyða neitt sérstaklega löngum tíma í að leiðbeina þeim með tæki og tól þessa fáu klukkutíma sem við hittumst heima á kvöldin. 

Aðgengi að sveitum er minna og þar sem verið er að sporna við barnaþrælkun er fjöldinn allur af börnum sem þó eru stálpuð sem ekki hafa neitt við að vera.  Þau sitja bara í tölvum yfir daginn og eru í gerfiveröld.  Þau kunna alls ekki að vinna og verkvit er í algjöru lágmarki. 

Eða hvað, er þetta bara vitleysa, klisja sem eldra fólk tyggur?  Hversu margir unglingar í dag kunna að þrífa, skúra, skipta um dekk, sparsla og mála, elda mat, setja í þvottavél, smíða, bora, skipta um kló, bakka með kerru, búa um rúm án þess að það sé teygja í lakinu, hella upp á kaffi, rétta af lamir, smíða girðingar, skipta um olíu, flaka fisk osfrv osfrv.  Og hversu margir finna hjá sér þörf til að gera eitthvað af þessu yfirleitt?   Nú meina ég ekki að þetta sé unglingunum einum að kenna; það er margt sem hefur gert það að verkum að svona er komið fyrir okkur, og við sem foreldrar berum sjálf mikla ábyrgð varðandi það að kenna börnunum okkar það sem okkur þykir oftast sjálfsögð skynsemi og verkvit – sem hvorugt er sjálfsagt né sjálflært.

Ég bý ekki á Íslandi og er ef til vill að fullyrða um eitthvað sem ég hef ekki góða yfirsýn yfir.  Og að sjálfsögðu, rétt eins og  hér í Hong Kong er fjöldinn allur af vel heppnuðum unglingum sem vita hvað þau vilja og eru eldklár og metnaðargjörn.  Þau þurfa að hafa fyrir lífinu og hafa aðgang að eldra fólki sem kann að vinna og er duglegt.  En það er að minnsta kosti eins stór hópur sem er alveg hið öndverða, að hluta til vegna þess að þeirra heimur, þeirra umhverfi, fjölskyldur, aðstæður, bjóða ekki upp á annað.  Hvatning til þess að taka þátt i verkum er ekki til staðar og börnin hafa ekki það hlutverk lengur að sjóða kartöflur eða passa systkini sín.   Enda þurfa þau þess raunar ekki, það er annað fólk sem getur séð um þetta.   

Ég velti þessu oft fyrir mér. Hvað er langt í það að ömmur okkar og afar og mömmur okkar og pabbar verða horfin á braut og með þeim stemmingin sem tengist því að gera hlutina sjálfur.  Ég er ekki viss um að mín kynslóð eigi eftir að standa sig og hvað verður þá um vinnusemi og verkvit eftir 50 ár? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hann afi þinn í Dal hefði verið kátur með þessi ágætu skrif. Knúz

mamma (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 13:45

2 identicon

Holl hugvekja hjá þér Hulda, heilbrigða, réttsýna kona. Bestu kveðjur úr "firðinum fagra" :)

Bjarnveig (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 14:41

3 identicon

Á dögunum var viðtal við konu í Landanum sem var að gera upp/endursmíða hjólbörur afa síns sem hún hafði grafið úr jörðu og hann hafði átt "allan sinn búskap".

Akkúrat þessi setning hennar minnti mig á atvik sem átti sér stað norður á Melrakkasléttu þegar Trémálsmenn unnu að endurbótum á Grjótnesshúsinu (lesist með tveimur t-um) og ég var að þvælast þar með þeim.

Var mér falinn sá starfi að raka saman spítnabraki úr austurveggnum (sem líktist röku tóbaki), moka því upp í forláta hjólbörur (ákaflega ryðgaðar á trédekki) og sturta því svo upp á kerru.

Fyrsta ferðin fór þannig að kassinn/skúffan valt af kjálkunum þegar sturtað var úr börunum og lét Björn bóndi mig vita af því að nú hefði ég eyðilagt fyrir honum hjólbörurnar sem hann væri búinn að eiga "allan sinn búskap". Þótti mér þetta mjög miður en hjarnaði þó við (og það gerði Boja líka) þegar pabbi negldi skúffuna á aftur með þaksaumi.

Ég fór að rifja þetta atvik upp við pabba þegar við horfðum saman á viðtalið við konuna í Landanum og skemmtum við okkur yfir því að rifja þetta upp, mundum atvikið vel báðir.

Svo fór ég að segja við hann að ég gæti nú ekki hafa verið háaldraður þegar þetta átti sér stað, frekar en ég er núna.

Þeir voru í þessum framkvæmdum sumarið 1999 sem þýðir að ég var rétt orðinn níu ára gamall þegar þetta átti sér stað.

Þrátt fyrir það hefur mér aldrei þótt neitt athugavert við það að ég hafi verið að bjástra þetta með þeim, þó það hafi auðvitað verið meira af vilja en mætti og gagnið takmarkað sem var að mér, enda ekki þess sem ég var þarna með þeim að það myndi létta svo undir með þeim heldur vegna þess að ég hafði gaman af því og pabbi átti þess blessunarlega kost að hafa mig með sér í vinnunni.

Ég held að níu ára börn eigi nú víðast hvar á Íslandi takmarkaða möguleika á því að njóta þeirra forréttinda sem ég gerði þarna, að fá að kynnast verklagi og vinnubrögðum af foreldrum sínum eða öðrum fullorðnum í amstri dagsins og því held ég að það sé margt til í þessari grein Huldu Þóreyjar.

Hún er eiginlega eins og töluð út úr mínu hjarta. :)

Agnar Ólason (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 21:09

4 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Já Hulda þetta er mikið áhyggjuefni, hvað börn nú til dags eru orðin háð því að sitja við tölfur og tilbúnaleiki sem þau sitja við tímunum saman,í stað að leika sér á þann hátt sem við ólumst upp við. Það er orðið erfitt að tala við börn, því þau sækja svo í að komast í þessa gerfiveröld.

Ragnar Gunnlaugsson, 17.11.2012 kl. 09:57

5 identicon

Verð bara að státa mig af því að unglingsdóttir mín 14 ára þvær þvott og eldar mat hiklaust og án vandræða, hún sá alfarið um eldamennskuna á heimilinu alla virka daga allt sl vor. Auk þess sem hún hannaði og saumaði fermingarkjólinn sinn sjálf. Ég hlýt að vera frábært foreldri hi hi ;)

Annars er ég sammála skrifum þínum Hulda og er líka áhyggjufull yfir framtíð barnanna þar sem varla er gert ráð fyrir ungu fólki á vinnumarkaði fyrr en löngu eftir tvítugt. Hvernig í veröldinni eiga þau þá að læra að vinna?

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 21.11.2012 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband